Brúðarvöndur og skreytingar á brúðkaupsdaginn

Brúðarvöndur og skreytingar á brúðkaupsdaginn

18 Rauðar rósir er falleg og rótgróin blómabúð staðsett í Hamraborg í Kópavogi. Didda, eigandi versluninnar, og Inga Víðis, starfsmaður þar eru blómaskreytar og óhætt að kalla þær fagmenn með græna fingur. Þær fylgjast vel með nýjustu tískustraumum í blómaskreytingum. Ég kíkti í búðina til þeirra og viðmót þeirra var hlýlegt og vingjarnlegt. Ég fann strax að þarna væri ég í góðum höndum við val á brúðarvendinum mínum og skreytingum í veisluna en brúðkaup er framundan hjá mér. Þær hlustuðu á þær hugmyndir sem ég hafði og það var nánast eins og þær læsu hugsanir mínar því þær skildu alveg um leið hvað ég hafði í huga. Þær sýndu mér myndir og blóm sem hæfðu þeim hugmyndum sem ég var með og fljótlega vorum við komnar að niðurstöðu um hvernig við myndum hafa þetta.

18rosir

Inga og Didda reyndust mjög hjálplegar þegar kom að því að velja réttu blómin og litasamsetningu í brúðarvöndinn.

Mig langaði líka að forvitnast um tískustrauma í skreytingum, hvort miklar breytingar séu ár frá ári og einhverjir ákveðnir litir allsráðandi á tímabilum. Einnig lék mér forvitni á að vita muninn á sumar- og vetrarbrúðarvöndum og öðrum skreytingum eftir árstíðum. Hér fáum við nokkur góð ráð frá þeim stöllum sem gott er að hafa í huga þegar valinn er vöndur fyrir stóra daginn.

 

 

Með hve miklum fyrirvara er gott að panta skreytingar og brúðarvönd fyrir brúðkaupsdaginn?

Það er alltaf gott fyrir brúðina að velta vel fyrir sér hvernig hún vilji hafa vöndinn sinn og taka þá líka tillit til hvernig kjóllin er. Gott er að skoða á netinu, í blöðum og mynda sér skoðun um liti og lag. Kíkja svo til okkar með frumhugmyndir sínar og við förum yfir málin í sameiningu. Stundum þurfum við að panta blóm erlendis frá svo gott er að geta gert endanlega pöntun með tveggja til þriggja vikna, eða jafnvel lengri, fyrirvara. Auðvitað reddum við eftir bestu getu, því sem hægt er, þó fyrirvarinn sé styttri.

Eru einhverjir ákveðnir litir áberandi í skreytingum og vöndum þetta sumarið?

Bleikt er alltaf mjög vinsælt á sumrin og hvítt sem og allir bjartir sumarlitir. Um þessar mundir eru áberandi svona”gammel” rómantískur bleikur litur og ferskjulitur.

Eru aðrir litir einkennandi fyrir vetrarbrúðkaup?

Brúðarvendir eru frekar klassískir en ef eitthvað er þá er aðeins meira um einlita vendi á veturna, þá einna helst rauða og hvíta.

Hvernig vendir eru vinsælastir? (stórir, kúptir, langir, litlir) Verðið þið varar við að það sé mismunandi eftir aldri brúðarinnar eða stærð brúðkaupsins?

Undanfarin ár hafa kúluvendir verið lang vinsælastir þ.e.a.s handbundnir kringlóttir vendir í nettari kantinum, þó aðrar útfærslur séu einnig áberandi. Eldri konur, sem eru jafnvel ekki að gifta sig í fyrsta sinn, kjósa yfirleitt frekar einfaldari og nettari vendi.

Hvað þarf að hafa í huga þegar salurinn er skreyttur með blómum?

Þegar blóm eru notuð til skreytinga á veisluborðum kemur vel út að nota háa glervasa og skreyta ofan í þá, þannig njóta blómin sín best. Oftast eru brúðhjónin búin að ákveða litaþema og þá er gott að halda sig við þá liti í skreytingum líka. Allir litlu hlutirnir skipta máli t.d servíettur og kerti setja ótrúlega mikinn svip á heildarmyndina á salnum. Handbundnu kúluvendina er hægt að setja í vasa og leyfa vendinum að njóta sín í veislunni t.d skreyta háborðið með honum, muna bara að hafa stilkana bera neðst í vatni

 Hvernig er hægt að halda vendinum sem lengst ferskum?

Til að láta blómin endast sem lengst skal passa að hafa hreinan vasa og skipta reglulega um vatn, gott er að geyma vöndinn á frekar dimmum stað og ekki láta sólina skína á hann.

Er hægt að gera eitthvað við vöndinn eftir brúðkaupið?

Það fer eftir því hvernig blóm eru í honum og hvernig þau þurrkast en best er að  þurrka rósir.

Við hjá mamman.is þökkum stelpunum hjá 18 Rauðum rósum fyrir frábær ráð. Falleg blóm og skreytingar geta svo sannarlega hjálpað til við að skapa fallegar minningar á brúðkaupsdeginum sem og öðrum viðburðum á lífsleiðinni.

Í blómabúðinni 18 Rauðar rósir í Hamraborg má finna mikið af fallegum gjafavörum.

Svart í barnaherbergið

Svart í barnaherbergið

Svartur litur hefur lengi verið talinn tabú í barnaherbergi en þegar hann er notaður rétt og með hvítan lit í meirihluta getur hann komið mjög vel út. Ekki verra að bæta svo við litapalletuna einhverjum björtum og fallegum lit.

Ekki er nauðsynlegt að mála veggi svarta til að fá réttu stemninguna heldur er hægt að prófa sig áfram með t.d svörtu límbandi og búa til munstur á veggina eða byrja með hvítan grunn og setja inn svarta myndaramma, púða eða mottur.

Í þessu herbergi hefur verið notuð sérstök krítarmálning svo hægt sé að teikna skemmtilegar myndir á vegginn.
Bleikur litur passar sérstaklega vel með svörtum og hvítum.
Hér er sniðug lausn fyrir þá sem leggja ekki í að mála svart. Í staðinn er sett svört framhlið á Stuva einingu úr Ikea og svo notað svart límband til að gera útlínur húsa á vegginn.
Smart er að mála veggina bara til helminga og er það mjög mikið í tísku þessa dagana. Svo skemmir ekki fyrir að skápurinn er málaður svartur eins og veggirnir.
Ég myndi kalla þennan lit frekar koxgráan en svartan og er hann alltaf fallegur.
Hér er arinn málaður svartur sem gerir herbergið sannarlega glæsilegt.

Gott er að hafa í huga að svartur er ekki alltaf kolsvartur svo að ef þú ætlar þér að mála heima, hvort sem það er í barnaherbergi eða inní stofu, myndi ég mæla með að kaupa lit sem er NCS S 8500 –N. Hann er ekki eins harður eins og hreinn svartur litur og kemur alltaf vel út. Svo eru litir að mínu mati alltaf fallegri þegar þeir eru með eins lítinn gljáa og hægt er.

Nammi með næringu

Nammi með næringu

Hér kemur ein ofureinföld uppskrift af nammi sem er stútfullt af orku og næringu og ekki er verra að það tekur aðeins um 20 mínútur að töfra þessa dásemd fram.

Hráefni:

  • 150 g kasjúhnetur
  • 100 g pekahnetur
  • handfylli af graskersfræi
  • handfylli af trönuberjum
  • handfylli af kókosflögum
  • 1-2 tsk agave sýróp

heilsusnakkk22Það er algjörlega smekksatriði hversu miklu af hverju hráefni er blandað saman en þessi hlutföll klikka ekki. Innihaldsefnum er dreift á bökunarplötu, sýrópi hellt yfir í mjórri bunu og öllu svo hrært saman. Þessu er svo skellt í ofninn á 180° í ca. 10 mínútur eða þar til kókosflögurnar eru farnar að taka smá lit en þær eru viðkvæmar fyrir því að brenna svo fylgjast þarf vel með.

Eftir að nammið er tekið úr ofninum er því leyft að kólna í smástund. Þá er ekki annað eftir en að setja í góða nammiskál og njóta!

 

Höfundur 

Elsa Kristinsdóttir

Stefnumótamenningin

Stefnumótamenningin

Ég er einstæð móðir og hef verið frá fæðingu sonar míns fyrir 4 árum. Til að byrja með var auðvitað ekkert hlaupið að því að fara á stefnumót en „if there´s a will, there´s a way“! Ástæðan fyrir því að ég ákvað að skrifa þennan pistil er hversu mikið stefnumótamenning Íslendinga hefur breyst á þessum fjórum árum. Margt til hins betra, til dæmis það að ekki er lengur tiltökumál að fara á stefnumót því þó það sjáist til manns á kaffihúsi að spjalla við einhvern þá er það ekki feimnismál lengur. Það var nefnilega mín mesta hræðsla hér áður fyrr, að vera á stefnumóti og hitta einhvern sem ég þekkti!.

Ég held að Tinder hafi svo kollvarpað öllu. Mér finnst Tinder snilld að mörgu leyti til dæmis fyrir okkur sem erum mikið til föst heimavið. Þarna kemst fólk í kynni við aðra í sömu stöðu og byrjar jafnvel að spjalla og eitt leiðir af öðru. Ég veit um nokkur pör sem hafa kynnst í gegnum Tinder. Hins vegar er fólk þarna inni á mismunandi forsendum og ég held að það sé mikilvægt að vera heiðarlegur og að þeir sem eru ekki að leita að föstu sambandi segi hreinskilnislega frá því af. Það sem mér finnst Tinder hafa breytt til hins verra er að allt í einu er það viðurkennd hegðun að vera með marga bolta á lofti í einu.

Það er ekki meira en ca. ár síðan að viðkomandi hefði verið talinn algjört fífl ef hann/hún leyfði sér að vera með nokkur járn í eldinum en núna er það orðið normið og enginn getur sagt neitt við því. Þú ert kannski búin/n að fara á 2-3 deit með einhverjum, fréttir svo að sá hinn sami sé að spjalla við fleiri (þetta er lítið land, allt fréttist!) en getur ekkert sagt þar sem engar skuldbindingar hafa verið gerðar. Þannig að það eina sem fólk getur gert er að annaðhvort „play it cool“ eða vera talið hálf klikkað ef það sættir sig ekki við það. Það segir sig þó alveg sjálft að þegar fólk fær á tilfinninguna að hinn aðilinn sé með margt í gangi í einu að þá setur það ekki fulla alvöru í þetta. Ég meina af hverju ætti maður að gera það? Ég persónulega bakkaði alltaf þegar ég annað hvort frétti eða fékk á tilfinninguna að eitthvað svoleiðis væri í gangi, enda yfirleitt frekar augljóst.

Það sem varð þó til þess að ég lokaði reikningnum mínum endanlega var að ég var farin að rekast á menn þarna inni sem voru í samböndum. Ég þekkti jafnvel konurnar þeirra. Þetta var mjög erfið samviskuklemma fyrir mig og ég átti mörg samtöl við vinkonur mína um hvað rétt væri að gera. Við ákváðum að það eina rétta væri að segja konunum frá þessu. Til að sanna mál mitt „screenshottaði“ ég þá til að sýna konunum þeirra. Kannski eru ekki allir endilega sammála því að gera þetta svona en ég veit að ég myndi allavega vilja vita það ef maðurinn minn væri að standa í þessu. Það er hins vegar ekki gaman að vera sendiboði þessara frétta og það varð til þess að ég ákvað að draga mig í hlé frá þessum heimi, þetta var bara orðið of mikið álag á hausinn og tilfinningarnar!

Ég lokaði Tinder, fékk mér kött og hef aldrei verið hamingjusamari 🙂

 

Öðruvísi vefja

Öðruvísi vefja

Það kannast örugglega allir við það að langa í eitthvað ótrúlega fljótlegt og gott en þó í hollari kantinum og enda á fá sér grillaða samloku eða eitthvað í þá áttina.

Hér kemur uppskrift af vefju sem uppfyllir öll hollustuskilyrðin ásamt því að vera eldsnögg í vinnslu og svakalega fersk og góð.

 

Hráefni:

  • iceberg
  • kirsuberjatómatar
  • gúrka
  • avókadó
  • hamborgarhryggur í sneiðum
  • ostur
  • egg

 

Dressing:

  • 3 msk sýrður rjómi eða grísk jógúrt
  • ½ tsk Dijon sinnep
  • ½ hvítlauksrif
  • ½ tsk hunang
  • smá salt
  • smá svartur pipar, mulinn
  • steinselja

Öllu hrært saman og kryddað eftir smekk. Dressingin er einnig sjúklega góð með steiktum kjúklingi og fiski.

Hráefnunum raðað á icebergið sem er sett fyrst á vefjuna, hella smá dressingu yfir, og rúlla svo upp og njóta.

Höfundur 

Elsa Kristinsdóttir

 

 

 

Pin It on Pinterest