Talnablinda eða stærðfræðiblinda: Viðvörunarmerki

Talnablinda eða stærðfræðiblinda: Viðvörunarmerki

Talnablinda eða stærðfræðiblinda: Viðvörunarmerki

Allir hafa heyrt um lesblindu og vita að hún snýst um erfiðleika við að lesa, skrifa og stafa, en talnablinda (e. dyscalulia) er heiti yfir fólk sem á í erfiðleikum með stærðfræði.

Um er að ræða blindu sem hindrar getu einstaklingsins til að læra um allt sem viðkemur tölum, að reikna út rétt, að vinna við rök- og vandamálalausnir og annað sem er stærðfræðitengt.

The British Dyslexic Association (bresku lesblindusamtökin) segja að skilgreiningin á talndablindu sé: „Sérstök og þrálát tregða þegar kemur að því að skilja tölur sem getur leitt til alls kyns vandkvæðum tengdum stærðfræði. Hún á sér stað óháð aldri, menntunarstigi og reynslu og á sér stað í öllum þjóðfélagshópum.“

Örðugleikar við að læra stærðfræði er ekki einstök tilfelli, frekar sem samfella, og hefur mörg einkenni. Talnablinda er ólík öðrum stærðfræðierfiðleikum því manneskjan á í erfiðleikum með skynjun tala, s.s. að sjá fyrir sér hversu margir eru án þess að telja, að bera saman stærðir og að raða. Talnablinda getur átt sér stað upp á sitt einsdæmi en á oft samleið með öðrum námserfiðleikum, stærðfræðikvíða og öðrum líffræðilegum kvillum.

Glynis Hannell, sálfræðingur og höfundur bókarinnar Dyscalculia: Action Plans for Successful Learning in Mathematicssegir: „Nemendur og fullorðnir haldnir talnablindu finnst stærðfræði erfið, ergileg og þeir eiga í erfiðleikum með að læra hana. Heilar þeirra þurfa meiri kennslu, sérhæfðara lærdómsferli og meiri æfingu til að ná utan um hana.“

Talnablinda á sér stað í um 11% af börnum með ADHD og er áætlað að um 3-6% barna í skólum eigi við hana að stríða.

Það er frekar erfitt að greina hvort einstaklingur sé haldinn talndablindu. Að telja á fingrum sér er oft talið einkenni, en það er ekki algild mæliaðferð. Að þurfa þess hinsvegar alltaf, sérstaklega í auðveldum reiknisdæmum gæti hinsvegar gefið vísbendingu.

Hér eru einkenni sem má hafa til hliðsjónar:

  • Erfiðleikar við að telja aftur á bak
  • Lítil skynjun fyrir tölum og áætlunum
  • Erfiðleikar við að muna „auðveldar“ reikniaðferðir, þrátt fyrir marga klukkustunda yfirlegu
  • Hafa enga áætlun við að muna tölur, nema með því að telja
  • Erfiðleikar við að skilja sætisgildi og töluna 0
  • Hafa lítinn skilning á hvort svör sem fást eru rétt eða næstum því rétt
  • Eru lengi að reikna
  • Að gleyma stærðfræðilegum aðferðum, sérstaklega því flóknari sem þær eru
  • Reyna alltaf að leggja saman, forðast aðrar reikniaðferðir
  • Að forðast verkefni sem eru talin erfið og er líklegt að rangt svar komi út
  • Veikur talnaskilningur
  • Kvíði við allt stærðfræðitengt

Líkt og með aðra námserfiðleika er engin „lækning“ við talnablindu. Þegar einstaklingar eru greindir hafa þeir oft lélegan stærðfræðigrunn. Markmið meðferðar er því að fylla í þær eyður sem til staðar eru og að koma upp aðferðum sem virka í lífinu.

Þeir sem hafa talnablindu fá oft lengri próftíma, mega nota reiknivél og þeim er kennt að deila stærri verkefnum niður í smærri skref.

Ef ekkert er að gert getur talnablindan komið niður á æðri menntun og velgengni í starfi. HÉR má sjá vefsíðu British Dyslexic Association.

 

Minntu börnin þín á að það er í lagi að gera mistök

Minntu börnin þín á að það er í lagi að gera mistök

Minntu börnin þín á að það er í lagi að gera mistök

Börn eru stundum hrædd við að prófa nýja hluti af ótta við að þau verði dæmd af mistökum sínum. Mistök eru samt hvernig við lærum á lífið. Við tökum ákvörðun sem leiðir til einhverrar niðustöðu sem við viljum ekki eða jafnvel meiðir einhvern og við lærum af þessum mistökum.

Við aðlögum orð okkar og gjörðir fyrir framtíðina. Þetta er svo innprentað í eðli okkar að við áttum okkur kannski ekki á að við þurfum að kenna börnunum okkar að mistök séu til þess að læra af þeim.

Börn verða að læra að mistök gerast, þau læra af þeim og halda áfram. Þau læra að taka betri ákvarðanir þaðan í frá, vegna mistakanna sem þau gerðu.

Samt sem áður verða börn að vera frjáls að gera mistök vitandi það að mamma dæmi þau ekki fyrir þau. Fullorðnum líður illa þegar þeir gera mistök og þeir óttast einnig dóm þeirra sem í kringum þá eru, sérstaklega sínum nánustu. Börnum líður eins. Þau geta óttast mistök því þau eru hrædd um að mamma eða pabbi dæmi þau og þau verði vonsvikin.

Foreldrahlutverkið snýst um að vaxa og það getur verið að foreldrar þurfi að læra að þeir kenni börnum sínum en dæmi þau ekki.

Mistök eru nauðsynleg

Samkvæmt Bright Horizons er stóra málið ekki mistökin sjálf, því börn verða að gera mistök. Sumir eru jafnvel þeirrar skoðunar að börn skuli vera hvött til að gera mistök! Þegar við leyfum þeim að gera mistök erum við að hjálpa þeim að byggja upp seiglu og niðurstaðan verður manneskja sem er örugg, fær og ánægð og hún þróar einnig með sér tilfinningagreind og félagslega greind.

Þú dæmir

Eins mikið og foreldrar óska sér að þeir dæmi ekki börn sín fyrir mistökin, þá gera þeir það samt oft. Góðu fréttirnar eru hinsvegar þær að það er fullkomlega eðlilegt. Samvkæmt Parenter að dæma og dómharka innbyggð í mannkynið og þar eru foreldrar meðtaldir. Mannfólkið þróaði með sér hæfileikann til að dæma fyrir fjölmörgum öldum og það er leið til að verja okkur sjálf fyrir hlutum sem valda okkur sársauka. Mennirnir urðu að vera fljótir að dæma til að verja sig fyrir hættulegum ákvörðunum. Þetta hefur að sjálfsögðu þróast og nú setjumst við í dómarasætið alla daga, jafnvel þó við áttum okkur ekki á því.

Hvað geta foreldrar gert?

Nú þegar þú veist, sem foreldri, að þú líklega dæmir mistök barnsins þíns geturðu unnið í því að barnið verði ekki fyrir áhrifum af því. Samkvæmt Very Well Family eru viðbrögð foreldra eitthvað sem hefur áhrif á börnin og hvernig þau sjálf líta á mistökin. Þegar þú vinnur í þessu þarftu að líta virkilega inn á við. Hægt er að vinna í spegli, með því að stúdera andlitið. Hugsaðu um þau mistök sem barnið hugsanlega gæti gert og ímyndaðu þér hvernig þú myndir bregðast við og hvort þú gætir breytt einhverju.

Fyrstu viðbrögð eru eitthvað sem foreldrar ættu að hafa í huga fyrir framtíðina. Þegar barn gerir mistök, ekki gefa þér tíma til að bregðast við, einbeittu þér að því sem barnið getur lært af þessum mistökum og hvernig það muni bregðast öðruvísi við í framtíðinni.

Að opna þig um mistök sem þú sjálf/ur hefur gert sem foreldri eða í lífinu yfir höfuð getur hjálpað barninu að átta sig á að fullorðnir gera einnig mistök.

 

Hvernig á að halda öllu í röð og reglu þegar þú nennir því alls ekki

Hvernig á að halda öllu í röð og reglu þegar þú nennir því alls ekki

Hvernig á að halda öllu í röð og reglu þegar þú nennir því alls ekki

Þegar fjölskyldulífið er eins og það á að vera er húsið í stöðugri notkun og því fleiri börn –  því meira drasl! Og þannig á það að vera. „Alvöru“ fjölskyldur lifa glöðu lífi þar sem allt er á fullu. En það sem getur valdið kvíða er þegar draslið og þrifin eru orðin óyfirstíganlega. Maður vill kannski þrífa og halda öllu í röð og reglu, en getur sýnst óyfirstíganlegt.

Tengirðu?

Það eru til ýmsar leiðir og þú getur sett þér þínar eigin reglur til að komast yfir þennan hjalla, viljir þú breyta til. Hér eru nokkrar góðar leiðir til að „peppa sig upp“ þegar þig langar alls ekki til þess. Það er raunverulega hægt!

Hvort sem þú ert að reyna að koma þér í gírinn að hafa aðeins hreinna heima eða ætlar að taka allt algerlega í gegn geta þessi skref virkað fyrir þig.

Að vinna í hvatningunni

Það hjálpar til að hafa góðar ástæður fyrir því að vilja minnka draslið/og eða þrófa. Kannski er farið að fara í taugarnar á þér að detta yfir hluti eða þurfa að ganga frá einhverju sem þér líður að þú þurfir að gera hundrað sinnum á dag. Kannski fer í taugarnar á þér að þú þarft að leita í troðna fataskápnum þínum að einhverju til að vera í og þú vilt fara að losna við eitthvað á nytjamarkað. Kannski viltu fá meiri frið heima við eða grynnka á draslinu til að líða betur. Eða þá að þú vilt fara að bjóða fólki heim án þess að líða illa yfir því.

Ef þú ert með skríðandi barn þurfa gólfin að vera hrein. Að hafa baðherbergið sótthreinsað er gott fyrir heilsu allra. Þú nærð þessu. Hvað sem það kann að vera, finndu þína ástæðu.

Það ætti að vera persónulegt og ekki því þú „átt“ að gera það. Minntu þig á þessar ástæður þegar þú þrífur og tekur til, og þá færðu ánægjuna af því að gera þessa hluti.

Byrjaðu á litlu svæði

Þetta skref er afar mikilvægt.  Þér kann að finnast ALLT vera í óreglu, þannig verkefnið sýnist óendanlega stórt. Þú ætlar að breyta því. Veldu eitt svæði sem þú getur „tæklað“ fyrst. Ekki einu sinni heilt herbergi ef þér finnst það óhugsandi.

Hér eru dæmi:

  • Að taka til á einu borði
  • Taka alla óhreinu diskana úr vaskinum
  • Raða upp á nýtt í bókahillu
  • Henda ónýtum mat úr ísskápnum
  • Skúra eldhúsgólfið
  • Henda úr baðherbergisskápnum, henda gömlum förðunar- og snyrtivörum
  • Þurrka af borðunum í eldhúsinu

Þú þarft ekki endilega að byrja á leiðinlegasta eða erfiðasta verkefninu. Veldu verk sem hefur sín mörk og þú getur framkvæmt á stuttum tíma.

Þetta verkefni er bara til að fá þig til að hefja „átakið“! Að fá þig í gírinn til að sjá hversu auðvelt það er og þú færð smá sigurtilfinningu. Þú þarft ekki að hugsa um allt hitt draslið á meðan þú vinnur þetta verk, einbeittu þér bara að því.

Andlega hefur þetta áhrif – það skrúfar aðeins niður kvíðann vegna hins „óyfirstíganlega.“ Segðu við þig: „Þetta er eitt lítið verkefni. Ég get þetta.“ Og þá hefstu handa.

Kláraðu þetta fyrsta verkefni – ekki fara í önnur verk

Það er rosalega auðvelt að láta afvegaleiðast þegar maður byrjar að taka til eða þrífa. Þú veist alveg hvað það þýðir: Þú byrjar á þrífa baðherbergið og finnur þar dót á gólfinu sem barnið á. Þú ferð með það í barnaherbergið. Þá ferðu að taka upp óhreinan þvott á gólfinu, ferð að raða leikföngum, svo ferðu með í þvottavélina og þá allt í einu manstu að þú varst að þrífa baðherbergið!

Nú, allt í einu, hefurðu fimm ókláruð verkefni og finnst lífið vera súrt og þú vera sigruð/sigraður. Þennan hring þarftu að stöðva áður en hann hefst.

Þú hefur sigrað með því að ljúka þessu eina verki. Haltu þig við það! Ef þú sérð eitthvað eins og leikfang eða álíka sem á heima á öðrum stað í húsinu, settu allt í hrúgu fyrir utan vinnusvæðið. Þú getur séð um þessa hluti þegar hitt er búið.

Um leið og þú hefur lokið verkinu/markmiðinu, þá geturðu sett í þvottavél eða gengið frá hlutunum.

Þetta litla trikk kemur í veg fyrir að þú eyðir tíma í óþarfa og farir að gera eitthvað allt annað en þú ætlaðir að gera.

Klappaðu þér á bakið fyrir vel unnin störf

Eitt aðalatriðið við að „peppa sig upp“ í þrif er að fagna sigrunum, sama hversu litlir þeir eru. Þetta skref er oft vanmetið, en hjálpað þér að komast yfir þessar neikvæðu tilfinningar sem fylgja þrifunum.

Þegar þú hefur lokið fyrsta verkefninu, gefðu þér smá tíma að horfa á svæðið sem þú varst að vinna í og sjáðu hvað það lítur vel út. Taktu jafnvel mynd! Áfram þú!

Ekki hafa áhyggjur af öllu hinu draslinu á þessum tímapunkti. Sjáðu að þú settir þér markmið og stóðst við það. Þú getur þessvegna verðlaunað þig, fengið þér kaldan drykk, settu fæturnar upp í nokkrar mínútur. Láttu þér líða vel.

Settu raunhæf markmið

Þegar þú finnur viljann til þess, settu þér markmið við þrif eða tiltekt. Það geta verið nokkrar mínútur, klukkutímar, eða nokkrum dögum seinna. Það fer eftir lífsstílnum, hversu mikla orku þú hefur og hversu mörgum skyldum að gegna.

Ef þú getur munað þessa góðu tilfinningu frá fyrsta verkefninu og notað hana sem hvatningu fyrir næsta verk, frábært.

Ekki áfellast sjálfa/n þig fyrir að geta ekki gert allt á einum degi. Sérstaklega ef þú ert foreldri, átt við einhver veikindi eða álíka að stríða, eða hvað sem það er. Þrifin eru kannski ekki í forgangi. Aðalmarkmiðið er að muna þennan fyrsta sigur og nýta sér hann. Segðu: „Ég get gert þetta ef ég set mér raunhæf markmið.“

Eftir að hafa sett eitt markmið og staðist það, geturðu haldið áfram og getur farið í stærri verk. Það er frábært! Bara ekki hafa markmiðin of stór svo þú getir ekki klárað og verðir fyrir vonbrigðum.

Það er algerlega raunhæft að klára allt húsið/íbúðina með því að vinna í einu í einu. Ef þér finnst verkefnin óyfirstíganleg, taktu þér pásu og byrjaðu á skrefi 1 aftur. Þú getur bara gert þitt besta og ekki áfellast þig fyrir það.

Ekki hika við að biðja um hjálp

Þú þarft ekki að standa í þrifum upp á þitt einsdæmi. Þeir sem búa með þér geta alveg hjálpað til. Þó þau kunni ekki að vera sammála um þrifin eða að minnka draslið geta þau alveg séð um sitt. Gefðu börnum verkefni sem hæfa aldri og makinn getur hjálpað við ákveðin verk sem honum eru sett.

Margar hendur vinna létt verk, og verkið er unnið hraðar á einfaldari máta. Svo er það líka skemmtilegt! Þú getur jafnvel búið til leik og beðið krakkana um að taka upp 10 hluti til að ganga frá. Það gerir verkið léttbærara og það sér fyrir endann á því. Þú getur líka beðið um pössun fyrir börnin á meðan þú tekur til. Stundum er hægt að gera mun meira með litlu krílin ekki að skottast um.

Gera verkið skemmtilegt

Ókei, kannski ekki skemmtileg, meira þolanlegt. Settu á góða tónlist. Hlustaðu á hlaðvarp eða hljóðbók. Brjóttu saman þvottinn með uppáhalds Netflixþáttinn í gangi. Ef hægt er, hafðu góðan ilm á heimilinu. Hugsaðu um hvað þér á eftir að líða vel þegar þetta er búið og ástæðu þess þú ert að gera það. Verðlaunaðu þig ef það er hvatning.

Haltu heimilinu við með mjúkri hendi (ekki járnhnefa!)

Þegar þú hefur náð öllu hreinu og fínu viltu að sjálfsögðu halda því við. Þú getur búið til reglur sem þú getur viðhaldið, til dæmis að ganga frá uppþvotti eftir hverja mátíð eða tekið dót af stofugólfinu fyrir svefn. Passaðu að deila ábyrgðinni ef það er möguleiki.

Gerðu þitt besta en mundu að þú þarft að lifa lífinu líka. Sérstaklega ef börn eru á heimilinu, þá er eiginlega ekki séns að halda heimilinu 100% allan tímann.

Mundu að minningarnar sem þú átt skipta öllu. Heimilið þitt er ekki safn, þú býrð þarna!

Þrif eru ekki eitthvað sem þarf bara að gera einu sinni, en að henda drasli og minnka við sig getur haft marga góða kosti, s.s. minni tími við þrif og tiltekt í framtíðinni svo þú getur einbeitt þér að mikilvægari hlutum í lífinu.

Byrjaðu smátt, haltu einbeitningu, fáðu hjálp, gerðu hlutina aðeins skemmtilegri. Þannig geturðu náð markmiðum þínum. Taktu djúpan andardrátt, náðu upp orku og sjáðu hvort þú getur ekki byrjað!

 

Foreldrar sem beita virkri hlustun fá unglingana sína frekar til að opna sig

Foreldrar sem beita virkri hlustun fá unglingana sína frekar til að opna sig

Foreldrar sem beita virkri hlustun fá unglingana sína frekar til að opna sig

Ný rannsókn hefur leitt í ljós að vilji foreldrar raunverulega fá traust unglinganna sinna og fá þá til að opna sig og treysta þeim, þurfa þeir að þróa með sér „virka hlustun.“ Táningar geta verið torskildir þar sem þeir reyna að átta sig í flóknu og uppteknu lífi sínu. Þeir eru að reyna að finna sitt sjálf og hlutverk sitt í þessum heimi og þeir eru einnig á tímabili breytinga. Unglingarnir eru að reyna að aðskilja sig frá foreldrunum og sýna að þeir hafi aðeins meira sjálfstæði en áður.

Þrátt fyrir að sumir unglingar þroskist hratt og reyni að láta sem þeir séu fullorðnir þýðir það ekki að þeir þurfi ekki á mömmu og pabba að halda til leiðsagnar. Foreldrum finnst oft unglingarnir sínir loka á sig og komi ekki til þeirra þegar eitthvað bjátar á.

Foreldrið getur samt verið sterk líflína fyrir unglinginn þegar kemur að andlegri heilsu hans ef það bara breytir því hvernig það hlustar á hann. Samkvæmt nýrri rannsókn EurekAlert er virk hlustun það sem þarf til að fá unglinginn til að opna sig.

Rannsóknin var framkvæmd af háskólanum í Reading og Haifa og er hægt að lesa hana að fullu HÉR 

1001 unglingur á aldrinum 13-16 ára var beðinn að horfa á samtal milli foreldris og tánings. Umræðuefnið var um erfiðar aðstæður.

Í gegnum þennan leikna þátt breytti foreldrið stöðugt um líkamsbeitingu og hlustunartækni. Unglingarnir í rannsókninni sem horfðu á þegar foreldrið beitti virkri hlustun sögðu að þeim hefði liðið vel að ræða við þetta foreldri og þeir myndu líklega ræða við þetta foreldri í framtíðinni þegar eitthvað kæmi upp.

Niðurstaðan var sú að því meiri samkennd og hlutttekningu sem foreldrið sýndi, því hreinskilnari varð unglingurinn varðandi tilfinningar sínar.

Dr. Netta Weinstein sem leiddi rannsóknina sagði að gæði hlustunarinnar væri lykillinn að vel heppnuðum samskiptum foreldra og táninga. Virk hlustun felur í sér augnsamband og einbeitningu að því sem táningurinn hefur að segja. Foreldrið ætti að snúa líkama sínum að unglingnum og það hefði ekkert í höndunum. Að vera algerlega í núinu og sýna unglingum að það sem hann hefur að segja hefur mikið vægi er lykillinn að farsælum samskiptum.

Heimild: Mom.com

 

Sjö mikilvægar ástæður þess að börn eiga að drekka meira vatn

Sjö mikilvægar ástæður þess að börn eiga að drekka meira vatn

Sjö mikilvægar ástæður þess að börn eiga að drekka meira vatn

Langflestir vita að vatn er nauðsynlegt öllum lifandi verum, og eru börn þar engin undantekning. Allir krakkar þurfa að drekka nægilegt vatn til að næra líkamann og vaxa á heilbrigðan hátt. Líklegt er að barnið þitt drekki fullt af mjólk, djús og gosi en þessir drykkir koma ekki í stað daglegrar vatnsinntöku. Allir þessir drykkir innihalda sykur sem hefur þurrkandi áhrif á líkamann. Vatn og aðeins vatn telur þegar kemur að vatnsinntöku. Reyndu að fá barnið til að drekka eins mikið vatn og mögulegt er, en börn á skólaaldri ættu að drekka sex til átta bolla af vatni á dag. Þumalputtareglan er einn bolli fyrir hvern aldur til átta ára aldurs. T.d. ætti fjögurra ára barn að drekka fjóra bolla af vatni á dag, sex ára sex bolla o.s.frv.

Svo er ekki nóg að skipa barninu fyrir! Foreldrar ættu að setja gott fordæmi og drekka vatn sjálfir. Gott er að kaupa t.d. flottan vatnsbrúsa fyrir barnið til að fá það til að drekka meira.

1.Vatn hjálpar meltingunni og virkni líffæra

samkvæmt Kids Health er vatns þörf fyrir alla virkni líkamans og líffæranna. Vel vökvaður líkami virkar alltaf betur og á auðveldari hátt. Vatn hjálpar líkamanum að melta matinn, sem er nauðsynlegt einnig til að skila honum út. Því meira vatn sem barnið drekkur, því betur skilar það matnum út og stuðlar að heilbrigðum þörmum. Börn verða að drekka vatn til að forðast hægðatregðu og tengd vandamál.

  1. Vatn hjálpar við svengdartilfinningu

Að drekka vatn hjálpar barninu að vera satt lengur og leiðir það til minni pirrings. Oft, þegar við höldum að við séum svöng, erum við í raun þyrst. Hungur og þorsti geta oft ruglast hjá börnum. Þegar barnið biður um snarl, bjóddu því vatn fyrst. Þú getur líka gert það milli mála eða ef ekki er langur tími síðan það borðaði síðast.

  1. Vatn dregur úr kvíða

Vatn er ekki eingöngu gott fyrir líkamann heldur einnig andlega og tilfinningalega heilsu. Börn sem þjást af kvíða ættu að drekka meira vatn.

 Very Well Family útskýrir í grein að vatn hjálpar til við hormóna- og næringarefnaflutning líkamans, til líffæranna og heilans. Ef barn fær ekki nægilegt vatn getur virkni líkamans hægt á sér og hormónar fara ekki þangað sem þeir eiga að fara sem getur orsakað kvíða

  1. Vatn hressir

Þegar börn eru þyrst verða þau oft þreytt. Það er ofþornun að segja til sín og vatn getur í raun látið barnið vakna , því það hjálpar líkamanum við að framleiða orku og þegar börn drekka ekki nóg verða þau þreytt. Þetta á oft við í skólum ef vatn er ekki aðgengilegt hvar og hvenær sem er. Sendu barnið með vatnsbrúsa í skólann og passaðu að það drekki fyrir og eftir skóla og einnig um helgar

  1. Vatn kemur í veg fyrir ofþornun

Það skiptir miklu að börn hafi nægilegan vökvabúskap. Þau eru lítil og þorna fyrr upp en fullorðnir, sem þýðir: Of lítið vatn, líkaminn starfar ekki eðlilega. Ofþornun getur leitt til höfuðverkja, hægari brennslu og getur haft áhrif á skapið.

  1. Vatn hjálpar ónæmiskerfinu

Þegar vökvabúskapurinn er í lagi, er líkaminn í fullri virkni og er ekki uppspenntur eða í streituástandi. Ef ofþornun á sér stað mun líkaminn ná orku annars staðar frá til að halda áfram að virka. Þetta leiðir til álags á ónæmiskerfið. Þegar barn drekkur nægilega mikið vatn er það í góðum málum.

  1. Vatn heldur húðinni hreinni

Við höfum rætt að vatn sé mikilvægt öllum líffærum og þar er húðin talin með. Ef þú átt barn á gagnfræðaskólaaldri eða ungling sem er að byrja að fá bólur er nauðsynlegt að fræða þau um að vatn heldur húðinni hreinni. Það ætti að ýta undir vatnsdrykkju.

Heimild: KidsHealth.org

Framkoma foreldra við vini barnanna skiptir miklu máli

Framkoma foreldra við vini barnanna skiptir miklu máli

Framkoma foreldra við vini barnanna skiptir miklu máli

Alma Rut skrifar: Þegar ég var lítil átti ég góða vinkonu. Við kynntumst þegar við vorum sex ára og við vorum saman í skóla. Vinkona mín átti mömmu sem var alveg ótrúlega góð við mig. Ég man svo vel eftir því hvernig mér leið heima hjá þeim og í kringum þau. Ég var alltaf svo velkomin og ég fann það. Ég í alvöru fann það.

Alma Rut lítil

Einu sinni þegar ég átti níu ára afmæli tóku vinkona mín og mamma hennar sig saman og komu mér á óvart með afmælisgjöf. Gjöfin var samverustund með þeim, dagur þar sem ég og þær vorum að gera eitthvað skemmtilegt saman. Dagur sem fór í að njóta, verja tíma saman, gleðjast og hafa gaman. Afmælisgjöfin var ekki dót, ekki föt, ekki hlutur heldur tími, minningar, samvera, leikur og gleði.

Mamma vinkonu minnar var perla, algjör perla. Hún átti það til að sitja heilu stundirnar og horfa á okkur sýna leikrit eða tískusýningu. Það var mikið umstang í kringum þessar sýningar og föt út um allt, en mamma vinkonu minnar var með fókusinn á okkur, gleðinni sem fylgdi því sem við vorum að gera og í hennar augum skiptu fötin sem lágu á gólfinu eftir okkur ekki máli heldur við. Tvær litlar stelpur að hlæja, brosa og leika sér.

Alma Rut

Mamma vinkonu minnar var mjög dugleg að taka mig með út um allt og ekki var ég fyrirferðarlítil! Ég fór stundum með þeim í ferðalög. Ég man að í eitt skipti þegar við vorum í ferðalagi ákváðu þau að taka ljósmynd í fallegri fjöru með svörtum sandi. Ljósmynd sem þau ætluðu svo að stækka í ramma. Þegar í fjöruna var komið þá fundu þau stað og vinkona mín stillti sér upp fyrir myndatöku. En þegar hún var búin þá var komið að mér. Þannig var þetta alltaf, ég var alltaf með, ég var alltaf líka. Seinna fengum við vinkonurnar stækkaða mynd af okkur í sitthvoru lagi, brosandi sælar í svörtum sandi.

Alma Rut

Mér þykir svo mikið vænt um hvernig þau voru við mig, hvernig þau létu mér líða og hvernig þau tóku mér. Mér þykir lika svo vænt um hvað þau gáfu mér mikið af skemmtun, gleði og hamingju inn í lífið og fullt af dásamlegum minningum.

Vinir barnanna okkar skipta okkur máli, og skipta börnin okkar máli. Það hvernig við tökum á móti þeim og hvernig við erum þegar þeir eru inni á okkar heimili skiptir lika máli. Ég held í alvöru að ein af ástæðunum, og bókað ein stærsta ástæðan fyrir því að ég hef alltaf verið mjög dugleg að bjóða vinum minna barna heim til okkar og með okkur sé út af mömmu vinkonu minnar, því ég man hvað það skipti mig miklu máli. 

Alma Rut heldur úti síðunni Leikum okkur sem snýst um samveru með börnunum okkar og hvað er sniðugt að gera. 

Smelltu á samfélagsmiðlahnappana að neðan til að fara inn á Instagram og Facebooksíður Ölmu! 

Pin It on Pinterest