Soffía Bæringsdóttir: „Sumum samböndum er ekki ætlað að endast”

Soffía Bæringsdóttir: „Sumum samböndum er ekki ætlað að endast”

Soffía Bæringsdóttir: „Sumum samböndum er ekki ætlað að endast”

Soffía Bæringsdóttir er reyndur fjölskyldufræðingur og doula. Hún rekur fyrirtækið Hönd í hönd sem sinnir fjölskyldu- og parameðferð ásamt fæðingarstuðningi.

Soffía á þrjár stúlkur og er gift.

Við höfðum áhuga á að vita meira um starf Soffíu og þá sérstaklega pararáðgjöfina og var Soffía svo indæl að svara nokkrum spurningum.

Aðspurð segir Soffía að sennilega sé best fyrir pör að leita ráðgjafar þegar þau ná ekki að útkljá mál sín ein, en hvenær sé besti tímapunkturinn sé einstaklingsbundið: „Reynslan sýnir að því fyrr sem gripið er inn,í því líklegra er að náist að leysa málin. Einhverjar rannsóknir segja að pör komi í parameðferð sex árum eftir að þau átta sig á því að þau geta ekki leyst málin sjálf en mér finnst það oft vera frekar í kringum þriðja árið.

Soffía segir fólk ekki hrætt við að leita sér ráðgjafar: „Í dag eru pör og fjölskyldur líka nokkuð öflug í að leita ráðgjafar áður en að málin verða vandi sem er ánægjulegt svo það er allur gangur á þessu.“

Eru einhver pör útsettari en önnur til að upplifa erfiðleika í samskiptum?

„Mér finnst þetta erfið spurning því það er ekki gott að skipta fólki í flokka og öll pör geta lent í erfiðleikum, sambönd ganga í gegnum tímabil eins og flest í lífinu,en það eru ákveðnar áskoranir sem eru meira krefjandi, svo sem: Samsettar fjölskyldur, þegar annað eða bæði glíma við persónulegar áskoranir svo sem þunglyndi og svo reynsla fólks úr lífinu, uppeldi og fyrri samböndum.“

Er á einhverjum tímapunkti nauðsynlegt fyrir fólk að skilja og halda í sitthvora áttina og slíta samvistum?

„Já, tvímælalaust, sumum samböndum er ekki ætlað að endast og ástæðurnar fyrir því að best sé að halda hvort í sína áttina geta verið margar, frá því að upprunalega hafi verið stofnað til sambandsins á veikum grunni, fólk hafi vaxið í sundur, ítrekuð svik sem ekki er hægt að laga og ofbeldissambönd.“

Soffía Bæringsdóttir, fjölskyldufræðingur og doula

Hvað enda mörg sambönd/hjónabönd með skilnaði?

„Á Íslandi er talað um að allt að 40% sambúða sé slitið, 20% para slíta samvistum á fyrsta æviári barns.“

Áttu góð ráð fyrir pör sem er að vinna sig úr erfiðleikum til að byggja upp samband sitt?

„Fyrsta skrefið er að ná að taka skref til baka og kortleggja aðstæður sínar, samskiptamynstur og líðan. Fyrsta skrefið er að ná að fara úr vörn eða átökum og skoða hvað er í gangi, flestir sjá þá fljótt að samskiptamynstrið er mjög svipað,þó ný málefni komi upp. Um leið og maður áttar sig á að maður dettur í mynstur er hægt að byrja að vinna í því að brjóta mynstrið upp og meðvitað bregðast við á annan hátt.

Annað gott ráð er að gefa sér tíma og byrja á því að setja fókusinn á hvað það er sem maður sjálfur getur lagt í betra samband frekar en að bíða eftir því að makinn breytist,“ segir Soffía en tekur fram að taka verði ofbeldissambönd út fyrir rammann hér.

Hún heldur áfram: „Mörgum pörum hefur reynst vel að taka fyrir ákveðið þema eða efni og lesa/hlusta/horfa á saman og endurspegla út frá sínum samskiptum. Á íslensku má finna góð hlaðvörp, greinar hér og hvar og svo er nóg til að bókum um samskipti og sambönd. Lykillinn er að bæði taki þátt í verkefninu!“

Hvað eru óheilbrigð samskipti og hvað eru heilbrigð samskipti?

„Heilbrigð samskipti pars byggja á jafnræði og virðingu. Í heilbrigðu sambandi ná styrkleikar hvors um sig að skína, traust ríkir og parið leggur sig fram um að sýna gagnkvæman skilning og virðingu. Í heilbrigðu sambandi talar fólk oft um að makinn sé besti vinur þeirra, þau viti að þau geti fengið stuðning og hægt er að ræða málin. Langanir og þarfir beggja eru uppi á yfirborðinu og virtar og mörk og þörf fyrir prívatlíf virt.“ Hvað óheilbrigð samskipti varðar segir Soffía: „Óheilbrigð samskipti geta birst á ólíkan máta en í þeim er ekki jafnræði, andúð og niðurbrjótandi tal og oft miklar sveiflur.“

Er fólki einhver greiði gerður að halda sambandi áfram vegna barnanna?

„Ég held að heilt yfir sé fólk sammála um að börnum er ekki greiði gerður að foreldrar þeirra séu í sambandi þeirra vegna. Það setur mikla og óþarfa ábyrgð á börn. Þegar fólk á börn saman er það þeirra skylda að skoða samband sitt vel og bera ábyrgð á því til að sjá hvort það geti gengið- barnanna vegna en þegar ljóst er að svo er ekki er það ábyrgð og skylda foreldra að fara hvort í sína áttina. Mín reynsla er að fólk með börn hefur ítarlega og vandlega hugsað málið hvort sambandsslit séu besti kosturinn og komist að því að svo sé.“

Getur fólk byrjað á núllpunkti eftir heiftúðleg rifrildi og langvarandi deilur?

„Allt er hægt,“ segir Soffía, „en eftir langvarandi deilur er oft komin djúp gjá á milli fólks þar sem tengingin er farin og traustið lítið. Við hvert rifrildi verður sárið stærra og gjáin dýpri og lengra á milli fólks en með því að staldra við, með góðri aðstoð, miklum vilja og sjálfsvinnu er það hægt og fólk þarf að gefa sér tíma í það.“

Er eitthvað annað sem þú vilt koma áleiðis?

„Takk fyrir þína góðu vinnu!“

 

Hvettu börnin þín til að leika sér!

Hvettu börnin þín til að leika sér!

Hvettu börnin þín til að leika sér!

Foreldrar hafa sennilega alltaf sagt við orkumikil börn: „Farðu út að leika þér!“ Þrátt fyrir það, hafa þau sennilega ekki haft hugmynd um að þau væru að ýta undir tilfinninga-og taugaþroska, vitrænan þroska, aukna tungumálafærni og sjálfsstjórn barna ásamt félagsþroska og breytingu á heilaþroska sem hjálpar börnum í markmiðasetningu og færni í að draga úr áreiti.

Með öðrum orðum: Leikurinn er heilbrigður þroski. Fjölmargar rannsóknir í gegnum árin hafa einmitt sýnt sömu niðurstöður, og nýjasta rannsóknin sem birt var á dögunum í tímaritinu Pediatrics, segir að leikurinn hjálpi einnig börnum að eiga við streitu. Það sem meira er, leikurinn ýtir undir góð, stöðug og nærandi sambönd við umönnunaraðilana sem börnin þurfa á að halda til að þrífast.

Skilgreining leiksins er ekki einföld eða hægt að útskýra til fullnustu en rannsakendur eru sammála um að leikurinn þróist á náttúrulegan hátt, noti virka þátttöku og leiði til hamingju og uppgötvanna. Hann er einnig valkvæður, skemmtilegur og óvæntur, með engu sérstöku markmiði.

BarnasálfræðingurinnEileen Kennedy-Moore, PhD, segir að til séu tvær gerðir leiks: „Leikurinn er barnsmiðaður, hann snýst um að kanna hluti. Smábarnið setur allt í munninn á sér, það er forvitið um heiminn. Líkamlegur leikur snýst um átök og að veltast um, börn hlaupa og hreyfa sig. Félagslegur leikur getur snúist um að barn fylgist með öðru barni leika sér, leikur sér við hlið þess, og fer svo að taka þátt í honum og þau deila sameiginlegum markmiðum. Hermileikur er þegar börn bregða sér í hlutverk, t.d. verður mamman eða pabbinn. Það er áhugavert að þetta gerist á sama þroskaskeiði hjá öllum börnum víða um veröld, sérstaklega á leikskólaaldrinum.“

Frjáls leikur hvetur börn til að finna út hvað þau vilja sjálf, hverju þau hafa áhuga á. Ef fullorðinn stýrir leiknum er hann meira til lærdóms og hefur sérstakt markmið í huga.

Kennedy-Moore segir: „Fullorðinsstýrður leikur snýst ekki um að hinn fullorðni sé að leggja börnum línurnar heldur spyr hann börnin spurninga sem hvetur þau til að hugsa. T.a.m. ef foreldri situr með barni að leysa púsluspil gæti hann sagt: „Ég sé að guli liturinn er hér ráðandi. Sérð þú einhver gul púsl?“ Að spyrja spurninga án þess að gefa svörin gefur barninu tækifæri á að sanna sig, vita rétta svarið.

Leikurinn er einnig leið barnsins til að losa um streitu. Búi barnið í mjög streituvaldandi umhverfi er nauðsynlegt fyrir það að fá tíma til að leika sér.

Leik-ráð frá Kennedy-Moore

Engin tæki. Það er engin rétt tímalengd fyrir börn að leika sér – en fylgstu með skjátíma barnanna. Hún segir: „Að spila tölvuleik við vini sína er ekki það sama og í raunheimi, þar sem börnin semja reglurnar, stunda samvinnu og keppa við hvert annað.“

Að leika einn er gott…upp að vissu marki: „Að leika sér eitt getur verið yndislegt og það eykur ímyndunaraflið. Til dæmis elska börn að leika ein með Lego.“ Leiki barnið alltaf eitt getur það verið viðvörunarmerki vegna félagslegrar einangrunar.

Fagnaðu óskipulögðum leik. Börnin segja: „Mér leiðist!“ og foreldrarnir stökkva til björgunar. Kennedy-Moore segir: „Ef foreldrar geta staðist það, kvartar barnið sáran og svo – gerist dálítið dásamlegt: Börn finna sér eitthvað að gera. Það er einstakur hæfileiki að fylgja eigin forvitni, skemmta sér sjálfum og stjórna tilfinningum.“

Leikurinn sjálfur er málið. „Leikurinn er mikilvægur og dýrmætur, þrátt fyrir að hann sé ekki í stöðugri, sýnilegri þróun í hvert skipti. Leikurinn er eins og listin – að læra að kunna að meta hann.“

Heimild: WebMd

 

 

Svona vilja krakkar að pabbar séu

Svona vilja krakkar að pabbar séu

Svona vilja krakkar að pabbar séu

Ef börn eru beðin um að lýsa föður sínum koma þau öll með skemmtilegar og afar ólíkar lýsingar. Rannsókn sem var gerð meðal barna þar sem þau voru beðin um að segja hvað það þýddi fyrir þeim að vera pabbi kom í ljós algengt þema. Þau áttu að skrifa niður hvað þeim fannst.

Dæmigert var að börn lýstu skemmtilegum hlutum til að gera með pabba sínum eða hvernig hann sýndi þeim ást og umhyggju. Í lokin sögðu mjög mörg börn: „Ef það er eitt sem ég vildi að væri öðruvísi við pabba minn væri að við gætum gert meira saman.“

Ef við eigum að vera hreinskilin geta margir pabbar játað að þeir vildu gefa börnunum sínum meiri tíma.

Feður spila óendanlega stórt hlutverk í lífum barna sinna og því meiri tíma sem þeir verja með þeim, því meira hagnast þau á samverunni. Það koma stundir til kennslu, að móta persónuleikann, bindast sterkum böndum og koma á framfæri gildum og skoðunum…allt sem frábærir feður gera.

Það sem skapar minningar er samveran. Það sem skapar minningar eru samtölin. Því meiri samvera, því betra.

Best er að búa til plan, vikuplan eða dagsplan, til að koma samveru með börnunum að til að þessar dýrmætu stundir verði ekki útundan. Fara á sérstaka staði með dótturinni eða syninum og búa til rútínu. Þau þurfa á óskiptri athygli pabbans að halda.

Hafið samverstundirnar stundum öll saman, stundum bara tvö. Fáið ykkur ís, farið í fótbolta eða bara í göngutúr. Að fara yfir nótt eitthvert er ævintýri út af fyrir sig. Best er að slökkva á símanum til að athyglin fari öll á stundina ykkar saman. Það skiptir í raun ekki máli hvað er gert, svo lengi sem þið eigið gæðastund saman.

Heimild: Fathers.com

10 ástæður þess afar og ömmur eru mikilvægasta fólk í heimi!

10 ástæður þess afar og ömmur eru mikilvægasta fólk í heimi!

10 ástæður þess afar og ömmur eru mikilvægasta fólk í heimi!

Að eyða tíma með ömmu og afa getur haft afar góð áhrif á börn, bæði á tilfinningagreind þeirra sem og innsæi og taugaþroska. Kostir þess að eiga gott samband við afa og ömmu eru svo sannarlega óendanlega margir. Hér eru nokkrir örfáir nefndir:

  1. Eykur tilfinningagreind

Afar og ömmur vita hvernig á að fylla upp í það skarð þegar foreldrar eru einstæðir eða haldnir ofur-álagi. Rannsókn sem framkvæmd var í Bretlandi sýndi að börn sem vörðu miklum tíma með afa og ömmu voru í minni hættu á að hafa tilfinninga- og hegðunartengd vandkvæði og höfðu betri tilfinningagreind en þau börn sem ekki voru svo heppin að hafa afa og ömmu í lífi sínu. Ef þú vilt að börnin þín séu hamingjusöm og kunni á tilfinningar sínar, bjóddu afa í mat!

2. Nærir hamingjutilfinningar

Ömmur og afar hafa næstum yfirnáttúrulegan kraft til að láta barnabörnin brosa. Foreldrar, sérstaklega þeir sem eiga mjög ung börn, eru stundum „búnir með bensínið“ og þrá bara smá hvíld eða þögn í nokkrar mínútur. Ef afi og amma búa ekki nálægt getur verið mjög dýrmætt fyrir alla aðila að viðhalda sambandi. Afarnir og ömmurnar kunna að vera farin á eftirlaun og hafa meiri tíma, orku og þolinmæði að leika við krakkana, plús að foreldrarnir fá smá pásu. Allir vinna!

3. Eykur félagslega hæfni

Stuðningur ömmu og afa geta aukið félagshæfni barnabarnanna og bætt frammistöðu þeirra í skóla. Rannsókn er sneri að 10-14 ára börnum einstæðra foreldra sem og í sambúð sýndi að þetta var raunin. Stuðningur og samvera með ömmu og afa sýndi að barnið jók með sér hluttekningu með öðrum.

4. Dregur úr depurð

Máttur afa og ömmu er mikill, hann dregur jafnvel úr depurðartilfinningum. Náið samband milli afa, ömmu og barnabarnanna hefur verið tengt við gleði og talið geta dregið úr þunglyndiseinkennum samkvæmt rannsókn sem var gerð. Öfum og ömmum fannst í þessari rannsókn að þau gætu stutt barnabörnin, sérstaklega þegar þau skildi hvað börnin voru að ganga í gegnum.

5. Eykur skilning á fjölskyldunni 

Ömmur og afar hafa oft mikinn áhuga á og njóta þess að deila fjölskyldusögum. Að kenna börnunum hvaðan þau koma ásamt sögum af sorgum og sigrum fjölskyldunnar hjálpa börnunum að skilja sögu fjölskyldunnar. Afar og ömmur kunna að hafa ættargripi, myndaalbúm, jafnvel uppskriftir og aðra fjársjóði til að deila og halda minningum á lofti sem hlýtur að teljast afar dýrmætt.

Mynd: Philip Goldsberry

6. Ótal tækifæri til að knúsast

Það er ekkert eins og gott faðmlag frá afa eða ömmu. Knús framleiða oxýtósín fyrir báða aðila þegar þeir faðmast. Það þýðir að þegar amma knúsar barnið losa báðir heilar þeirra hormón sem eykur ást, tengingu og öryggi.

7. Annað sjónarhorn á foreldra

Afar og ömmur kunna líka sögur af foreldrunum sem börnin hafa áhuga á að heyra. Oft eru börn forvitin um æsku og uppeldisaðstæður foreldra sinna sem afar og ömmur kunna og fá þau þannig annað sjónarhorn á þau. Þau geta munað eftir fyndnum atriðum eða sniðugum sem foreldrarnir eru kannski búnir að gleyma. Þetta hjálpar til við tengingu innan fjölskyldunnar.

8. Býr til tækifæri á nýjum hæfileikum

Ömmur og afar voru uppi á allt öðrum tíma en börnin eins og gefur að skilja! Þau hafa kannski notað aðferðir við ýmislegt sem þekkist ekki í dag. Kannski kunna þau að sauma, elda, skera út í við eða prjóna sem foreldrarnir kunna ekki. Þetta býður upp á endalaus tækifæri.

9. Styrkir fjölskyldubönd

Að verja tíma með afa og ömmu styrkir fjölskyldubörnin. Þetta kennir barnabörnunum að þróa og viðhalda samböndum við fólk sem er á allt öðrum aldri en þau. Að viðhalda slíku sambandi er lærdómsríkt fyrir alla aðila.

10. Skilyrðislaus ást

Ömmur og afar geta boðið barnabörnunum sínum skilyrðislausa ást og það þýðir fullt af gjöfum og ánægjulegum stundum. Þar sem þau eru ekki í hlutverki foreldra hafa þau meiri tíma og orku að gefa, ásamt endalausri athygli, hjálplegum ráðum og tilfinningalegum stuðningi, en slíkt verður ekki metið til fjár.

Enginn sefur á heimili Jessicu Biel og Justins Timberlake

Enginn sefur á heimili Jessicu Biel og Justins Timberlake

Enginn sefur á heimili Jessicu Biel og Justins Timberlake

Leikkonan Jessica Biel opnaði sig á dögunum í þætti Ellenar DeGeneres um foreldrahlutverkið og syni sína tvo Phineas og Silas.Jessica er, sem kunnugt er, eiginkona leikarans Justins Timberlake.

Þau buðu soninn Phineas velkominn í heiminn í júlí 2020, öllum að óvörum, enda héldu þau meðgöngunni leyndri og sögðu engum frá því fyrr en í janúar á þessu ári.

Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera foreldri, eins og flestir foreldrar kannast við og það eru engar undartekningar gerðar, þó þú sért Hollywoodstjarna!

Eitt af erfiðleikunum voru svefn og tanntaka og sagði Jessica við Ellen: „Honum gekk svo vel og svo fóru tennurnar að koma“

„Nú sefur enginn á heimilinu,“ sagði hún.

Jessica segir að þau hafi notað svefnþjálfun sem felst í að barnið grætur sig í svefn. Segir hún að það hafi verið „mjög erfitt“ að horfa upp á sem móðir.

„Það er svo erfitt að láta þau gráta bara í nokkrar mínútur. Og það er svefnþjálfunin sem við erum að nota sem er…þú bara lætur þau gráta í nokkrar mínútur og svo ferðu inn og segir: „Það er allt í lagi, þú ert góður,“ og bætti við að Phineas sé að standa sig mjög vel.

Jessica með Silas

Bætti hún við að eiga tvö börn væri erfiðara en hún hafði búist við og kallaði reynsluna „brjálaða, skemmtilega rússíbanareið.“

„Vitur vinur minn sagði um börn: „Eitt er mikið, tvö er eins og þúsund,““ sagði Jessica og grínaðist með það. „Það er nákvæmlega eins og það er.“

Hið góða segir Jessica að þeim bræðrum kemur vel saman, en Silas er sex ára: „Það er svo sætt að sjá þá tvo saman, því þeim finnst þeir svo fyndnir. Silas er „skemmtikrafturinn“ og vill alltaf vera svo fyndinn og öll athyglin á að vera á honum. Phineas er meira opinn og hlédrægur og elskar stóra bróður sinn. Alls sem Silar gerir er sjúklega fyndið og svo allt sem Phin gerir er fyndið. Svo hlæja þeir bara saman allan daginn!“

Heimild: UsaToday 

Aldur þinn og frjósemi: Er erfiðara að verða ólétt eftir þrítugt?

Aldur þinn og frjósemi: Er erfiðara að verða ólétt eftir þrítugt?

Aldur þinn og frjósemi: Er erfiðara að verða ólétt eftir þrítugt?

Ef þú hefur tekið þá spennandi ákvörðun að eignast barn ertu eflaust að hugsa um hversu lengi það getur tekið að verða ólétt.

Margar konur reyna oft að finna „rétta tímann“ til að eignast börn. Svo verða þær þrítugar og eldri og velta þá fyrir sér hversu frjósamar þær eru.

Þú veist að konur eru frjósamastar á þrítugsaldri þannig hver er staða þín í dag?

Í dag kjósa konur oft að eignast börn á fertugsaldri fremur en fyrr og á síðustu áratugum hafa þær tölur einungis farið hækkandi.

Hefur aldur áhrif á frjósemi?

Í stuttu máli sagt: „Já.“

Frá þrítugu fer frjósemin minnkandi og enn hraðar niður á við frá 35 ára aldri. Því eldri sem konur verða, því minni líkur á getnaði og því meiri líkur á ófrjósemi.

Flestar konur geta átt börn á eðlilegan hátt og fæða heilbrigð börn ef þær verða óléttar 35 ára. Eftir 35 ára aldurinn fer hluti þeirra kvenna sem upplifa ófrjósemi, fósturlát eða vandkvæði vegna barns hækkandi. Eftir fertugt hafa aðeins tvær af hverjum fimm sem óska sér að eignast barn möguleika á því.

Meðalaldur þeirra kvenna sem fara í tæknifrjóvgun fer hækkandi. Þetta endurspeglar aukningu á ófrjósemi vegna aldurs. Vel heppnaðar tæknifrjóvganir meðal kvenna yfir fertugt eru sjaldgæfar og hafa þær tölur ekki farið hækkandi á síðastliðnum áratug.

Frá líffræðilegu sjónarmiði er best að reyna að eignast börn áður en þú ert 35 ára.

Karlmenn eru frjósamari mun lengur en konur. Þó frjósemi þeirra fari einnig dalandi með aldri gerist það mun hægar og yfir langt tímabil.

Á meðan margir menn eru frjósamir enn á sextugsaldri er hluti þeirra er glímir við galla er tengjast sæði þeirra aukandi. Heilsa þeirra barna sem getin eru af eldri föður er slakari.

Það er annað sem þú þarft að taka til athugunar ætlir þú að eignast barn eldri en 35 ára. Það eru meiri líkur á fjölburafæðingum. Í raun, því eldri sem þú ert, því líklegri ertu að eignast tvíeggja tvíbura. Talið er að líkaminn þurfi að framleiða meira af hormónum sem hjálpa til við egglos eftir því sem konur eldast. Hormónið er kallast FSH (e. follicle stimulating hormone) og framleiðir líkaminn meira af því, því það eru færri lífvænleg egg í eggjastokkunum þínum.

Þessi offramleiðsla FSH getur valdið því að meira en eitt egg frjóvgast, þ.a.l. fleiri en eitt barn!

Þú gætir orðið himinlifandi að fá fregnir af möguleikanum á tvíburum. Að eignast draumafjölskylduna á einu bretti gæti hljómað frábærlega, en samt ber að hafa í huga að eignast tvíbura krefst meiri tíma, tilfinninga og líka fjárhagslega en eitt barn. Einnig gætir þú þurft meiri umönnun á slíkri meðgöngu.

Mun það taka lengri tíma að verða ólétt eftir því sem ég eldist?

Líkurnar á að verða ólétt strax fara eftir aldri. Konur eru frjósamastar á aldrinum 20-24 ára. Það mun mjög líklega taka lengri tíma eftir að þú ert á seinni hluta fertugsaldurs eða á fimmtugsaldri. Einnig eru líkur á vandamálum því tengdu.

Flest pör (um 85%) verða með barni innan árs ef þau hætta að nota getnaðarvarnir og stunda reglulegt kynlíf. Það þýðir kynlíf á tveggja til þriggja daga fresti allan tíðahringinn. Þetta gefur mestar líkur á getnaði.

Helmingur þeirra kvenna sem ekki verða vanfærar á fyrsta ári munu verða það næsta árið á eftir. Eitt prósent kvenna verður svo ólétt reyni þær í ár í viðbót eftir það. Þannig það borgar sig að halda áfram að reyna. Það þýðir að um þrjú prósent para mun ekki verða með barni innan þriggja ára.

Tölurnar fyrir konur sem eru 35 ára eru svipaðar – 94% verða þungaðar innan þriggja ára. 38 ára konur: 77% verða þungaðar innan þriggja ára.

Ef þú ert eldri en 35 ára og ert farin að lengja eftir þessu jákvæða þungunarprófi, er best að leita ráðgjafar fyrr en seinna. Ef þú hefur reynt í u.þ.b. hálft ár skaltu hitta lækninn þinn.

Hví dvínar frjósemi kvenna svo hratt?

Tvær meginástæður þess eru vandkvæði við egglos og stíflaðir eggjaleiðarar sem kemur til oft vegna sýkingar.

Egglosvandi eykst með aldrinum því fá góð egg eru eftir sem þýðir að erfiðara er að verða þunguð. Eggjafjöldi minnkar með aldrinum. Þú getur keypt próf til að sjá hvar þú stendur, en athugaðu að prófið sýnir fjölda eggja, ekki gæði þeirra.

Um eitt prósent kvenna fer í gegnum breytingaskeið fyrr en vanalega og hætta að framleiða egg fyrir fertugt. Blæðingar kunna að verða óreglulegar. Þegar þú nálgast breytingaskeiðið fara blæðingar að verða færri og lengra á milli þeirra, sem þýðir að egglos verður líka óreglulegt. Stíflur í eggjaleiðurum geta verið orsök sýkinga á lífsleiðinni eða annarra heilsufarsvandamála.

Þannig að – á hvaða aldri sem þú ert, ef þú ert að reyna að eignast barn þarftu að hugsa vel um þig. Það þýðir að bæði líkamleg og kynferðisleg heilsa þarf að vera í forgangi.

Eftir því sem konur eldast er líklegra að þær hafi gengið með óuppgötvaðan sjúkdóm, s.s. klamidíu. Þetta getur komið í veg fyrir frjósemi eða aukið líkur á utanlegsfóstri.

Endómetríósa eða legslímuflakk getur orsakað þykkari eggjaleiðara, og getur það haft áhrif, sérstaklega þar sem það eykst með aldri.

Hnútar í legi eru algengari hjá konum eldri en þrítugt og geta valdið vandkvæðum við getnað.

Einnig þarf að hafa í huga að sértu að glíma við ofþyngd getur það valdið vandkvæðum.

Best er svo að hafa í huga að verður þú ekki þunguð um leið, reyndu að slaka á og halda áfram að reyna. Læknir mun segja þér að hafa óvarðar, reglulegar samfarir í ár áður en ástæða er til að hafa áhyggjur. Samt muntu ef til vill vilja hafa samband fyrr hafir þú glímt við eitt af eftirfarandi:

  • Óreglulegar blæðingar
  • Kynsjúkdóma
  • PCOS (fjölblöðrueggjastokkaheilkenni)
  • Maki þinn hefur þekkt frjósemisvandamál

Ef þið hafið reynt í marga mánuði og kynlífið er farið að verða þreytt, hvers vegna ekki að fara í rómantíska ferð saman?

Heimild: BabyCenter

Pin It on Pinterest