Hvernig gera má breytingar auðveldar(i) fyrir börn

Hvernig gera má breytingar auðveldar(i) fyrir börn

Hvernig gera má breytingar auðveldar(i) fyrir börn

Börn eru sjaldan spennt fyrir breytingum, svo mikið vita flestir foreldrar. Að leyfa barninu að finnast það vera við stjórnvölinn getur hjálpað því að verða öruggara þegar kemur að breytingum, vissir þú það?

Þegar kemur að foreldrahlutverkinu eru margar hraðahindranir. Þegar maður heldur að allt sé á hreinu, kemur upp eitthvað nýtt og maður fer að efast. Þó það sé ákveðin barátta er það samt það sem er líka frábært við hlutverkið! Hver einasti dagur býður upp á eitthvað nýtt og foreldrar læra stöðugt með börnunum á þessu ferðalagi.

Mikið af því sem börnum finnst erfitt finnst foreldrum erfitt að skilja því þeir gera hlutina án þess að hugsa of mikið um þá.

Alla daga breyta fullorðnir um verkefni og einbeita sér að öðru. Þeir vakna, fá sér morgunmat, fara í vinnu, fara í hádegismat og svo fara þeir heim. Við hugsum ekki einu sinni um þessa rútínu því hún er inngróin í líf okkar. Við sjáum ekki að þetta eru allt breytingar, ferli. Við förum í gegnum daginn og breytum stöðugt til. Börn sjá þetta á annan hátt en við.

Hvers vegna finnst börnum erfitt að breyta til?

Samkvæmt Charlotte Parent er það ekki óþekkt að börn eigi í erfiðleikum með breytingar og geta þær framkallað sterk tilfinningaviðbrögð sem foreldrar skrifa kannski á „bræðiskast.“ Mamman staldrar ekki við og hugsar af hverju barnið er að taka kast því því var sagt að þrífa sig eftir matinn, eða setja á sig skóna og fara út. Þau eru að mótmæla breytingu á rútínunni, ekki því sem foreldrið var að biðja þau um.

Það eru margar ástæður fyrir því að börnum finnast breytingar erfiðar og það gæti verið einfaldlega að barnið vill ekki hætta að gera eitthvað sem er gaman eða gefur því eitthvað og fara að gera eitthvað annað. Barninu kann að finnast það ekki hafa neina stjórn þegar alltaf er verið að segja því að stoppa það sem það er að gera og hvenær það má.

Skoðaðu dagskrána

Það getur verið sniðugt að skoða dagskrá fjölskyldunnar. Samkvæmt NAEYC er það oftast sérstakar breytingar sem virðast skapa streitu og getur það því verið snjallt ráð að skoða hvernig hægt er að breyta þessari dagskrá til að breytingarnar verði auðveldari. Ef barnið veit hvernig dagurinn kemur til með að líta út, athugaðu hvort þú getir ekki sett myndir inn í dagskrá, upp á töflu t.a.m. svo barnið geti séð hvaða athafnir eru næstar og hvenær þær gerast.

Gefðu eftir smá stjórn

Þar sem ein af ástæðum þess barn kann ekki við breytingar er að þá er það ekki við stjórn, geta foreldrar gefið barninu smá völd. Þegar athöfnin sem barnið er í fer að taka enda, gefið barninu smá viðvörun til að undirbúa að hætta þurfi athöfninni. Þú getur sett tíma, fimm mínútur og þegar tíminn er búinn hringir tækið eða síminn. Þá á barnið að hætta athöfninni. Foreldrar geta einnig gefið barninu valkosti – ef barnið þarf að bursta tennur getur foreldrið sagt að annaðhvort bursti barnið tennur eftir þrjár mínútur eða fimm mínútur. Enn þarf að ljúka verkefninu, en barnið má ráða hvenær.

Notaðu hjálpartæki

Tónlist getur hjálpað foreldrum mikið, enda er hún óspart notuð t.d. í leikskólanum til að kenna börnum hitt og þetta. Foreldrar geta líka fundið upp lög til að syngja þegar hendur eru þvegnar, tennur burstaðar o.s.frv.

Verðlaun og hrós

Það eru ekki allir foreldrar hrifnir af verðlaunum en þau geta verið gagnleg þegar vinna þarf á vanda. Kannski fær barnið límmiða fyrir hvert skipti sem það breytir til án vandræða, og þegar það hefur fengið 10 límmiða (eða hvað sem foreldrar telja æskilegt) mega þeir fá ís eða fara í leik með foreldrum eða eitthvað annað.

Hrós er einnig mikilvægt og lætur barninu líða vel. Þegar breytingar fara illa í barn, geta foreldrar orðið pirraðir og æst sig, en þetta er ekki jákvæð kennsla og getur haft þveröfug áhrif. Í stað þess er betra að taka eftir jákvæðri hegðun og hrósa barninu í hvert skipti sem það höndlar breytingu á réttan hátt. Mundu að það er mikilvægt að hrósa þannig að þú segir barninu nákvæmlega hvað það gerði rétt og hvað þér líkaði við það.

 

Heimild: Moms.com

 

 

Útskýrt fyrir leikskólabörnum muninn á því sem þau „þurfa“ og „vilja“

Útskýrt fyrir leikskólabörnum muninn á því sem þau „þurfa“ og „vilja“

Útskýrt fyrir leikskólabörnum muninn á því sem þau „þurfa“ og „vilja“

Þegar kemur að smábörnum (eins til fjögurra ára) er margt sem við vitum: Þau eru full af orku, þau elska að prakkarast og þau eru sérfræðingar í að henda í eitt gott bræðiskast. Einn af þessum klassísku stöðum er t.d. matvörubúðin, þegar þeim er sagt að þau megi ekki fá eitthvað.

Þegar barn biður um dót eða nammi og mamman segir „nei“ getur stundum hún reiknað með löngu og stundum vandræðalegu kasti. Þó það sé einfalt að skrifa þetta á þrjósku barnsins getur verið dýpri meining á bak við slíkt.

Ein af ástæðunum að barnið virðist bregðast svo ýkt við þegar því er sagt að það geti ekki fengið eitthvað, er því það hefur ekki skilning á muninum á „þörf“ og „löngun,“ eða því sem það langar í og það sem er algerlega bráðnauðsynlegt. Allt sem barnið sér er „nauðsynlegt“ og þar sem þau hafa takmarkaðan skilning á hvernig fjármunir virka geta þau ekki skilið hvers vegna þau geta bara ekki fengið hlutinn.

Eitt sem foreldri getur reynt að gera er að vinna með barninu með því að kenna því hvað sé eitthvað sem barnið vill og hvað sé það sem barnið þarfnast. Þetta getur haft góð áhrif á framtíðarþróun barnsins og skilning þess á hlutum.

Skilningur á löngun og þörf getur komið þegar útskýrt er fyrir barninu hvernig peningar koma til og hvers virði þeir erum. Þegar við kennum börnum muninn á löngun og nauðsyn erum við að kenna þeim hvernig peningar virka. Sem fullorðið fólk eyðum við fyrst í það sem við þurfum til að komast af, svo getum við eytt í það sem okkur langar í. Að innprenta þetta í huga barnsins þegar það er ungt getur bæði komið í veg fyrir misskilning og einnig hefur það góð áhrif á það til framtíðar.

Haltu samræðunum gangandi

Smábörn læra betur þegar þjálfuninni er viðhaldið, ekki bara þegar sest er niður og „messað“ yfir því í stutta stund! Þegar þið eruð í búðinni, talaðu um nauðsyn þess að líkaminn þurfi ávexti og grænmeti, t.d. en sælgæti sé meira það sem barnið vill, eitthvað sem gæti verið fínt að fá stundum, en það þurfi ekki á nammi að halda til að lifa af.

Lestu sögur

Ef þú finnur bækur sem fjalla um málefnið getur það verið stórkostlega hjálplegt.

Vertu fyrirmynd

Börnin okkar drekka í sig þekkingu eins og svampar og stærstu fyrirmyndinar eru þeir sem í kringum þau eru. Þau horfa á mömmu og pabba til að læra um þeirra heim. Þau sjá viðbrögð þeirra og sambönd og nota þau sem viðmið um hvernig þau eiga að hegða sér. Þetta getur hjálpað við að sjá muninn á löngun og nauðsyn. Þó fullorðnir geti að sjálfsögðu tekið sínar eigin ákvarðanir er mikilvægt fyrir barnið að sjá mömmuna „sýna“ muninn – t.d. þegar mamma ákveður að eyða ekki í eitthvað fyrir sig sjálfa getur hún útskýrt fyrir barninu ástæðu þess hún gerði það ekki.

Að læra muninn á nauðsyn og þörf er ekki eitthvað sem gerist yfir nóttu, heldur tekur það margar samræðustundir og leiðbeiningar.

Heimild: Mom.com

Mistök sem foreldrar leikskólabarna eiga til að gera

Mistök sem foreldrar leikskólabarna eiga til að gera

Mistök sem foreldrar leikskólabarna eiga til að gera

Stundum er erfitt að eiga barn á leikskólaaldri…viðurkennum það bara. Þau kunna að ýta á alla takkana okkar og við missum þolinmæðina. Örvæntið ei, því þið eruð ekki ein! Leikskólakrakkar vilja vera sjálfstæð og það getur reynt á taugar foreldranna. Börnin vilja samt sem áður athygli og ást ykkar, það verður ávallt að hafa í huga.

Michele Borba, höfundur bókarinnarThe Big Book of Parenting Solutions, segir: „Þessi aldur (3-5) er athafnasamastur og getur valdið hvað mestum árekstrum í uppeldinu.“

Hér eru átta mistök sem foreldrar gera í uppeldi þessara barna.

Að gefa eftir rútínuna

Stöðugleiki og festa er afskaplega nauðsynleg fyrir leikskólabörn. Ef rútínan fer forgörðum eiga börnin til að verða óróleg, ringluð og geta farið að sýna óæskilega hegðun, eða getur það ýtt undir bræðisköst. Þau skilja ekki að stundum má eitthvað og stundum ekki.

Ef mamma leyfir barninu að leika í 10 mínútur áður en farið er í leikskólann, en daginn eftir þarf það að fara beint út í bíl, eða mamma las sögu fyrir svefn í gærkvöldi en ekki í kvöld, þau eiga mjög erfitt með að skilja slíkt.

Lagaðu það: Vertu samkvæm sjálfri/sjálfum þér eins og þú getur – hvort sem um er að ræða aga, svefnvenjur eða matartíma. Ef þú heldur rútínu 90% tímans og barninu líður vel, þá líður þér einnig vel og það er í lagi að gefa smá slaka.

Einbeita sér að því neikvæða

Það er auðveldara að sjá neikvæða hegðun barnsins – t.d. öskur og læti – og sjá ekki hið góða. Foreldrar kynna að einbeita sér að því sem þeir vilja ekki að barnið geri. Þeir segja: „Ekki lemja. Ekki öskra. Ekki segja „kúkur.““

Lagaðu það: Taktu eftir því þegar barnið hegðar sér vel og verðlaunaðu góða hegðun. Þú getur hrósað barninu, faðmað það eða kysst. Það virkilega gleður börn á þessum aldri. Þú getur líka sagt: „Þetta var flott hjá þér, hvernig þú sast kyrr og hlustaðir,“ eða: „Það var fallegt að sjá hvað þú varst góð/ur við barnið á rólóinum.“

Að taka ekki eftir viðvörunareinkennum

Foreldar eiga það til að reyna að eiga við börnin sín þegar þau eru í bræðiskasti með því að segja: „Slakaðu á, róaðu þig,“ en þú gætir alveg eins reynt að kenna gullfiski eitthvað. Þú hefur tækifæri áður en kastið á sér stað, ekki þegar reiðin tekur öll völd. Þá heyrir barnið ekki neitt.

Lagaðu það: Fylgstu með barninu þínu, sjáðu fyrir hvaða aðstæður barnið á erfitt með að höndla. Oft eru hættumerki hungur, þreyta og leiði. Ekki taka barnið í búðir nema það hafi tekið blund eða borðað áður.

Að hvetja vælið

Ef þú kannast við að væl barnsins fari í taugarnar á þér, t.d. ef þú ert að búa til matinn og barnið fer að skæla og segist vilja fara í heimsókn til vinar síns eða í tölvuna. Oft gefa foreldrar eftir til að kaupa sér frið en sá stundarfriður er dýrkeyptur, því börnin sjá að þetta virkaði og ýtir þetta undir slíka hegðun. Barnið er eldsnöggt að sjá veiku punktana og ýtir á þá aftur og aftur. Það er að átta sig á hvernig hlutirnir virka.

Lagaðu það: Hunsaðu vælið. Svo lengi sem það er ekki alvarlegur grátur, meira væl og kvabb, er betra að hunsa það. Ef þú gefur þig ekki mun barnið að lokum hugsa: „Jæja, þetta virkaði ekki.“

Of mikið að gera

Foreldrar ætla börnum sínum stundum um of. Þeir skrá þau í fótbolta, danstíma og fleira. Svo verða þeir hissa þegar barnið fer ekki upp í rúm og steinsofnar eftir athafnamikinn dag. Vandinn er að þau eru enn upptrekkt og þurfa tíma til að ná sér niður og róast. Öll börn þurfa þess, sérstaklega leikskólabörn. Það er líka áreiti og erfitt að vera í leikskóla í marga klukkutíma á dag.

Lagaðu það: Ekki láta barnið hafa allt of mikið að gera eða skutla því í athafnir, hverja á fætur annarri. Gefðu barninu tíma til að ná sér niður þegar það kemur heim úr leikskólanum.

Að vanmeta mikilvægi leiksins

Mörgum foreldrum finnst að þeir ættu að hafa barnið í einhverskonar „prógrammi“ til að þau fái forskot á lífið. Það er hinsvegar ekki alltaf raunin. Það sem gefur þeim einna mest er frjáls leikur. Það á við um hermileiki, þykjustuleiki og ærslaleiki. Þannig þroskast heili þeirra best. Börnin læra afskaplega mikið í leikjum, bæði um sig sjálf og aðra.

Lagaðu það: Gefðu barninu tíma og rými til að leika sér. Leyfðu því sjálfu að ráða leiknum.

Að láta daglegt áreiti ná yfirhöndinni

Barnið þitt kann að leika sér sjálft og unað sér. Það þarf samt athygli þína. Ef það er eitthvað sem þau þrá er það að mamma eða pabbi setjist á gólfið og leiki við þau. Margir foreldrar vinna heima, gleyma sér í símanum eða sjónvarpsgláp og það kemur niður á samverustundum með barninu.

Lagaðu það: Settu tíma sem þú ætlar að verja með barninu og vertu með því allan tímann. Bara hálftími á dag af slíkum leik þar sem barnið fær óskipta athygli þína getur gefið ykkur mjög mikið. Það er betra en allur dagurinn þar sem foreldrar eru með hugann annarsstaðar.

Að bregðast harkalega við lygum

Stundum verða foreldrar reiðir þegar barnið lýgur. Foreldrar ættu frekar að horfa á slíka hegðun sem tilraunastarfsemi hjá barninu frekar en alvarlegt siðferðisbrot. Þegar börn fara að ljúga er það þroskamerki. Það er bæði spennandi en líka ógnvænlegt. Þau fá ýmsar tilfinningar. Þegar foreldrar „fríka út“ yfir því og halda að barnið endi sem glæpamaður, verða þau að hugsa sig aðeins um, því flest börn gera eitthvað svipað á einhverjum tímapunkti.

Lagaðu það: Ekki bregðast of harkalega við. Að segja ósatt á köflum er eðlilegur hluti þroska barns. Ekki hanga í lyginni sjálfri. Ef barnið neitar að hafa sullað niður geturðu einfaldlega sagt: „Þér líður illa yfir þessu og ég skil það.“

Að vera foreldri tekur tíma, þolinmæði og ást. Það þarf alltaf að hafa hugfast að breytingar eiga sér ekki stað yfir nóttu. Ef það tekst ekki í fyrstu tilraun, reyndu aftur. Og aftur.

 

Heimild: WebMd

 

Börn og bræðisköst: Hvað er til ráða?

Börn og bræðisköst: Hvað er til ráða?

Börn og bræðisköst: Hvað er til ráða?

Bræðisköst barna eru jafn óútreiknanleg og íslenska veðrið. Eina mínútuna eruð þið á veitingastað að njóta góðs matar, hina næstu er barnið þitt að skæla og öskra því rörið er beygt. Börn á aldrinum eins til þriggja ára taka oft bræðisköst.

Þú kannt að hafa áhyggjur af því að þú sért að ala upp harðstjóra en ólíklegt er að barnið sé að reyna að stjórna. Það er líklegra að barnið sé að taka kast vegna einhverra vonbrigða eða vanmáttarkenndar.

Claire B. Kopp, prófessor í sálfræði í Claremont Graduate University, Kaliforníuríki, segir að vandinn liggi í mismunandi skilningi á tungumálinu: „Smábörn eru farin að skilja meira af þeim orðum sem sagt er í kringum þau, samt sem áður er þeirra orðaforði takmarkaður.“

Þegar barnið getur ekki orðað hvað það vill eða hvernig því líður svellur upp reiði og vanmáttarkennd.

Hvernig á að höndla bræðisköst: Sjö ráð

Í fyrsta lagi, ekki láta þér bregða.Bræðiskast er vissulega ekkert skemmtilegt að horfa upp á. Barnið getur sparkað, öskrað og stappað niður fótunum og að auki getur það kastað hlutum, slegið frá sér og jafnvel haldið niðri í sér andanum þar til það verður blátt í framan. Þrátt fyrir að þetta sé afar erfitt að horfa upp á, er það í raun eðlileg hegðun hjá barnið sem er að taka bræðiskast. Þegar barnið er í miðju kasti er ekki hægt að koma að góðum ráðum þó það muni svara – þá á neikvæðan hátt! – þegar þú öskrar á það eða hótar því: „Ég áttaði mig á að því meira sem ég gargaði á Brandon að hætta, því trylltari varð hann,“ segir móðir tveggja ára drengs. Það sem virkaði best fyrir hana var að setjast niður hjá honum og bíða þar til kastið liði hjá.

Almennt séð er góð hugmynd að vera hjá barninu meðan það rasar út. Að rjúka út úr herberginu kann að vera freistandi hugmynd, en það gefur barninu þá tilfinningu að það sé yfirgefið. Holskefla tilfinninga sem barnið ræður ekki við getur hrætt það og það vill hafa þig nálægt sér.

Ef þú finnur að þú getur ekki meira ráðleggja sumir sérfræðingar að fara út úr herberginu, rólega, í nokkrar mínútur og koma aftur þegar barnið er hætt að gráta. Með því að vera róleg/ur verður barnið líka rólegra.

Sumir sérfræðingar mæla með að taka barnið upp og halda á því ef það hentar (sum börn berjast of mikið um). Aðrir segja að það sé betra að verðlauna ekki neikvæða hegðun og betra sé að hunsa kastið þar til barnið róast.

Stundum er líka gott að taka smá hlé eða „pásu“ (e. time-out) en öll börn eru misjöfn þannig foreldrar verða að læra hvaða aðgerð hentar þínu barni. Hvernig sem þú kýst að gera það er stöðugleiki lykillinn að árangri.

Mundu að þú ert fullorðni aðilinn

Hversu lengi sem kastið kann að standa skaltu forðast að láta undan óskynsamlegum kröfum barnsins eða að reyna að semja við það eða „múta“ því.

Það kann að vera freistandi að beita slíku, sérstaklega ef þið eruð úti meðal fólks. Reyndu að hafa ekki áhyggjur af hvað öðrum finnst því allir foreldrar hafa reynslu af svipuðu.

Ekki gefa eftir því þá ertu að kenna barninu að taka kast sé góð leið til að fá það sem það vill og gerir hlutina bara erfiðari í framtíðinni. Fyrir utan það er barnið hrætt við að vera svona stjórnlaust. Það síðasta sem það þarf er að þú sért stjórnlaus líka.

Ef köst barnsins þróast á þann hátt að það slær fólk eða gæludýr, kastar hlutum eða öskrar án afláts skaltu taka það upp og bera það á öruggan stað, s.s. svefnherbergi. Segðu því hvers vegna það er þar („Því þú slóst ömmu“), og láttu það vita að þú munir vera hjá því þar til það róast.

Ef þú ert úti á meðal fólks (vinsæll staður fyrir köst!) vertu þá viðbúin/n því að þurfa að fara þar til barnið róast.

„Þegar dóttir mín var tveggja ára brjálaðist hún á veitingastað þar sem spagettíið sem hún pantaði kom með klipptri steinselju yfir. Þó að ég skildi óánægju hennar ætlaði ég mér ekki að eyðileggja matinn fyrir öllum. Við fórum út þar til hún slakaði á.“

Ekki taka hlé nema það sé nauðsynlegt

Að taka barnið úr aðstæðum, má gerast frá 18 mánaða aldri. Það getur hjálpað barninu við að ná betri tökum á tilfinningum sínum þegar það tekur kast. Það getur verið hjálplegt þegar kastið er sérlega slæmt og önnur ráð bregðast. Að fara með barnið á rólegan stað, eða enn betra – leiðinlegan stað – í smástund (ein mínúta fyrir hvert aldursár) getur verið góð lexía í að ná sér sjálfur niður. Útskýrðu hvað þú ert að gera („Mamma ætlar að leyfa þér að taka smá pásu og mamma verður hér rétt hjá þér“), og láttu það vita að þetta sé ekki refsing. Ef barnið vill ekki vera á réttum stað, færðu það aftur á staðinn rólega og gerðu það sem þú sagðist ætla að gera. Passaðu að barnið sé öruggt en ekki eiga samskipti við það eða gefa því athygli í pásunni.

Talið um atvikið eftir á

Þegar stormurinn líður hjá skaltu taka barnið í fangið og ræða það sem gerðist. Notaðu einföld orð og viðurkenndu að þú skiljir vanmátt barnsins. Hjálpaðu því að koma tilfinningum í orð, t.d. „Þú varst reið því maturinn var ekki eins og þú vildir hafa hann.“

Leyfðu barninu að sjá að um leið og það tjáir sig með orðum skiljir þú það betur. Brostu og segðu: „Mér þykir leiðinlegt að ég skildi þig ekki. Nú ertu ekki að öskra þannig ég get skilið hvað þú vilt.“

Leyfðu barninu að finna að þú elskir það

Um leið og barnið þitt er rólegt og þú hefur fengið tækifæri að ræða kastið, faðmaðu það og segðu þú elskir það. Það er nauðsynlegt að verðlauna góða hegðun, til dæmis að barnið geti sest niður og talað um hlutina.

Reyndu að forðast aðstæður sem setja bræðiskast af stað

Veittu þeim aðstæðum athygli sem geta komið kasti af stað hjá barninu, sem „ýtir á takka“ þess. Gerðu ráðstafanir. Ef barnið brotnar niður þegar það er svangt, hafðu alltaf snarl meðferðis. Ef barnið verður pirrað í eftirmiðdaginn, farðu með það fyrr út á daginn. Ef það á erfitt með að breyta til, fara á milli staða svo dæmi sé tekið, láttu það vita áður. Að láta barnið vita að það sé tími til að fara af rólóinum eða að matur sé að koma gefur því tækifæri á að sætta sig við það í stað þess að bregðast bara við.

Ef þú skynjar að kast er á leiðinni skaltu reyna að dreifa athygli barnsins með því t.d. að breyta um stað, gefa því nýtt leikfang, gera eitthvað sem það býst ekki við, með því að gretta þig eða benda á fugl.

Smábarnið þitt er að verða æ sjálfstæðara þannig þú skalt gefa því kosti þegar hægt er. Engum líkar að vera sífellt skipað fyrir! Segðu t.d. „Viltu kartöflur eða hrísgrjón“ í stað þess að segja „Borðaðu kartöflunar þínar!“ Þannig fær barnið þá tilfinningu að það hafi einhverja stjórn. Skoðaðu hvenær þú segir „nei.“ Ef þú gerir það of oft ertu kannski að skapa streitu hjá ykkur báðum. Veldu slagina þína og reyndu að slaka á.

Passaðu að barnið verði ekki of stressað

Þrátt fyrir að dagleg bræðisköst geti verið eðlileg á þessum aldri er ágætt að hafa augun opin fyrir hugsanlegum vanda. Hafa breytingar átt sér stað í fjölskyldunni? Er mikið um að vera, meira en vanalega? Eru samskipti foreldranna strekkt? Allt þetta kann að koma af stað kasti.

Ef köstin eru óvenju mörg eða slæm eða barnið meiðir sig sjálft eða aðra skaltu leita ráða sérfræðinga. Læknirinn þinn getur rætt við þig um þroska barnisins og hversu langt það er komið með þér þegar þú ferð í skoðun með það.

Þessar heimsóknir gefa gott tækifæri til að ræða áhyggjur sem þú kannt að hafa varðandi hegðun barnsins og þannig getur þú útilokað alvarleg vandamál. Læknirinn kann einnig að hafa ráð við slíkum köstum. Einnig skaltu ræða við lækninn ef barnið þitt heldur niðri í sér andanum of oft. Það eru einhverjar líkur á að slíkt geti bent til járnskorts.

Heimild: Babycenter

Pin It on Pinterest