Það er engin leið að koma í veg fyrir að börn gráti. Þannig tjá þau svengd, sársauka, hræðslu, þreytu og fleira. Hvernig á maður samt að vita nákvæmlega hvað barnið er að reyna að segja manni? Það getur verið snúið að túlka grát barnsins, sérstaklega í fyrstu.
Svengd
Þetta er sennilega það fyrsta sem þú hugsar um þegar barnið þitt grætur. Að þekkja merki um svengd hjálpar þér að gefa barninu að borða áður en það fer að gráta. Sum merki geta komið þér í skilning um að barnið sé svangt áður en það fer að gráta eru órói, smellir í munni, hendur að munni eða barnið snýr höfðinu að hönd þinni ef þú strýkur vanga þess.
Uppþemba
Magavandi sem tengist uppþembu eða lofti geta valdið miklum gráti. Hin dularfulla magakveisa er skilgreind sem óstöðvandi og óhuggandi grátur í a.m.k. þrjár stundir á dag, allavega í þrjár vikur í röð.
Ef barnið þitt er óvært og grætur rétt eftir að hafa fengið að borða getur verið að því sé illt í maganum. Sumir foreldrar hafa leitað á náðir apóteksins og keypt lyf sem minnka loftmyndun, en þau er hægt að fá án lyfseðils. Ekki hefur þó tekist að sýna fram á lækningamátt þeirra lyfja. Leitið alltaf ráða hjá lækni áður en slík lyf eru notuð.
Þrátt fyrir að barnið hafi ekki látið ófriðlega eftir máltíð, geta vindverkir valdið því sársauka þar til það líður hjá. Ef þig grunar að barnið hafi slíka verki er hægt að láta barnið á bakið, taka í fæturna og láta það „hjóla“ rólega.
„Einu sinni þegar dóttir mín var níu mánaða grét hún óstjórnlega í tvær klukkustundur. Hún hafði aldrei gert það áður og vildi ekki einu sinni drekka. Læknirinn sagði mér að taka hana á næstu heilsugæslustöð. Á meðan við biðum eftir lækninum á biðstofunni prumpaði hún hátt, og eftir það var allt í lagi. Þetta voru bara vindverkir.“
-Kata
„Þegar dóttir mín var lítil fékk hún oft loft í magann og grét og öskraði af sársauka. Ég gaf henni dropa, lagði hana á rúmið mitt á bakið og ýtti hnjánum hennar rólega upp að maganum og söng lítið lag. Eftir smá stund leysti hún smá vind og varð strax miklu betri.“
-Tveggja barna móðir
„Ef barnið þitt er í einhverskonar buxum, sérstaklega einhverjum sem eru með teygju í mittinu, prófaðu að leysa aðeins um magann, sjá hvort það hjálpar. Stundum er þessi litli þrýstingur valdur að óþægindum hjá þeim.“
-Selma
„Ég uppgötvaði nýlega hvers vegna barnið mitt hefur verið að gráta í einn og hálfan sólarhring – hann var stíflaður! Hann loksins losaði kúk sem var sex sentimetra langur og mjög, mjög harður. Endaþarmsstílar gera kraftaverk.“
-Tori
Þarf að ropa
Það er ekki skylda að ropa eftir mat, en ef barnið grætur eftir að hafa fengið að borða þarf það kannski að ropa. Börn gleypa loft þegar þau sjúga brjóstið eða pela og það kann að valda óþægindum ef loftið kemst ekki út. Sum börn finna mikið fyrir því ef loft er fast en önnur virðast ekki hafa þörf fyrir það.
„Litli minn grætur oft því hann á erfitt með að ropa eftir mat, jafnvel þó ég nuddi og klappi á honum bakið. Ég áttaði mig á að það hjálpar gríðarlega að hafa hann á maganum. Hann ropaði oft hátt eftir að hafa verið nokkrar mínútur á maganum.“
-Mamma
Skítug bleyja
Sum börn láta vita um leið og þarf að skipta á þeim. Önnur þola skítuga bleyju í lengri tíma.
Svefnvana
Maður skyldi ætla að börn gætu farið að sofa hvar sem er, hvenær sem er. En það er erfiðara en það hljómar. Í stað þess að blunda vært, eru sum börn óróleg og gráta – sérstaklega þegar þau eru ofurþreytt.
„Ég hef tekið eftir að ef dóttir mín fer að gráta þegar leikið er við hana, skipt á henni eða þegar hún borðar og hún hefur verið vakandi í einhvern tíma, þá er hún bara ofurþreytt! Ég bara held henni nálægt mér, tala rólega við hana og leyfi henni að gráta. Hún grætur ekki sárt þegar ég held á henni þannig. Hún gefur frá sér pirrandi, fyndin hljóð svo með augun lokuð. Eftir smástund er hún steinsofnuð.“
-Stephanie
„Stórt „usssssss“ virkar ótrúlega vel. Ég þurfti að búa til upptöku þar sem ég var orðinn ringlaður að gera það lengi fyrir dóttur mína. Upptakan er 48 mínútur og hún virkar í hvert einasta skipti!“
-Rob
Vill láta halda á sér
Börn þurfa stöðuga athygli og knús. Þau vilja sjá andlit foreldra sinna, heyra raddir þeirra og hlusta á hjartslátt þeirra. Þau þekkja jafnvel lyktina af þeim. Grátur getur verið merki um að þau þurfi á foreldrunum að halda. Það er ekki hægt að spilla barni með því að halda of mikið á því fyrstu mánuðina. Þú getur fengið þér burðartösku eða álíka til að hvíla handleggina.
„Sonur minn elskar að heyra röddina mína, þannig þegar hann grætur mikið held ég honum upp að bringunni og segi honum að mamma sé hér og muni passa hann. Innan fáeinna mínútna er hann steinsofnaður í fanginu mínu!“
-Jey
Of heitt eða of kalt
Ef barninu þínu verður kalt þegar þú skiptir um bleyju eða föt getur það grátið til að mótmæla. Nýfædd börn elska að vera reifuð og í hlýju umhverfi, en þó ekki of heitu. Þumalputtareglan er sú að þau þurfa að vera í einni flík fleiri en þú til að líða vel. Börn kvarta síður yfir að vera of heitt heldur en kalt og munu þá ekki gráta jafn sárt.
Óútskýrður sársauki
Það getur truflað börn heilmikið eitthvað sem okkur finnst ekkert mál, t.d. hár sem er fast á litlaputta eða tá og hindrar blóðflæði á einhvern hátt. Sum börn þola illa ullarpeysur eða eitthvað sem þau klæjar undan. Þau geta einnig verið mjög kröfuhörð varðandi stellingu sem þau eru í, t.d. þegar haldið er á þeim.
„Það hjálpar mér að hugsa: „Hvað væri að pirra mig og láta mér líða óþægilega ef ég væri hún?“ Möguleikarnir eru margir: Er fingur eða fótur fastur í einhverju? Þarf ég að sitja eða liggja öðruvísi? Er snuddan orðin ógeðsleg og þarf að þvo hana? Kannski er ljósið of skært eða sjónvarpið of hátt stillt. Það getur verið svo margt.“
-Marie
Tanntaka
Það getur verið virkilega sárt að fá tennur í fyrsta sinn! Ný tönn finnur sér leið í gegnum gómana og sum börn þjást meira en önnur. Flest eru þó líklegt til að gráta mikið á einhverjum tímapunkti. Ef þú sérð að barnið þitt finnur til sársauka prófaðu að nudda gómana með fingrinum. Það er svolítið skrýtið að finna það, en fyrsta tönnin getur komið á aldrinum 4-7 mánaða, stundum fyrr.
Minna áreiti
Börn læra af áreitinu í kringum þau, en stundum eiga þau erfitt með að innbyrða allt þetta nýja – ljósin, hávaðinn, að allskonar fólk sé að halda á þeim. Grátur getur verið leið barnsins til að segja: „Ég er búin/n að fá nóg!“
Sum börn elska að vera reifuð. Það gefur þeim öryggiskennd þegar heimurinn verður þeim ofviða. Ef barnið þitt er of gamalt fyrir að vera reifað eða einfaldlega líkar það ekki, er hægt að fara með barnið á rólegan stað og láta það ná sér þar.
„Reifun er mikil hjálp, sérstaklega fyrir ungabörn. Að vera reifuð þétt minnir dóttur mína sennilega á veruna í leginu og hún elskar það.“
-Tiffany
Vill meiri örvun
„Krefjandi“ barn kann að vera opið og spennt að sjá heiminn. Oft er eina leiðin til að kæfa niður grát og pirring að fara með það á flakk. Þetta getur auðvitað verið þreytandi fyrir foreldrana!
Hægt er að hafa barnið í burðarpoka framan á sér og barnið snýr fram til það missi ekki af neinu. Ákveðið daginn. Hittið börn og aðra foreldra. Farið á barnvæna staði.
„Sonur minn, sjö mánaða, vill alltaf hafa allt á fullu í kringum sig. Ef ég set hann á gólfið meðan ég er í tölvunni verður hann pirraður. Hann er glaðastur þegar ég set hann í kerruna á meðan ég geri heimilisstörfin. Hann er líka ótrúlega rólegur og góður í búðum og á mannmörgum stöðum því hann er bara svo forvitinn um heiminn.“
-Joe
Vanlíðan
Ef þú hefur mætt öllum þörfum barnsins þíns og huggað það og það grætur enn gæti það hreinlega verið að veikjast. Athugaðu hitann og önnur einkenni. Barnið gæti grátið öðruvísi þegar það er veikt. Ef þér finnst gráturinn hljóma einkennilega ættirðu að treysta innsæinu og fara á læknavaktina.
Hvað á að gera ef barnið grætur enn?
Fullur magi? Hrein bleyja? Enginn hiti?
Hvers vegna grætur þá barnið enn?
Börn hafa sínar eigin góðu ástæður. Þau hafa engin orð til að segja okkur hvað er að og meira að segja klárustu foreldrar geta ekki lesið hugsanir barnsins síns. Samt sem áður geta foreldrar alltaf huggað börnin sín, þó þau viti ekki hvað sé að hrjá þau.
Þýtt og endursagt af Babycenter.com