by Mamman | 30.01.2017 | Uppskriftir
Hana Heiðu þarf vart að kynna en við hjá mamman.is höfum verið duglegar að birta girnilegar og hollar uppskriftir frá henni. Að þessu sinni ætlum við að birta uppskrift að girnilegri sykurlausri eplaköku. Heiða er snillingur í að búa til sykurlausar kökur og brauð og það er einstaklega gaman að fylgjast með snappinu hennar, heidifitfarmer. Þar birtir hún alls konar ráð um hollan og góðann lífsstíl. Heiða von á sínu fyrsta barni í maí og við hjá mamman.is höfum fylgst spenntar með meðgönunni.
Heiða heldur úti bloggi á síðunni www.heidiola.is en þar er að finna fjöldann allan af alls konar fróðleik og hollum uppskriftum. Við mælum hiklaust með að kíkja á þá síðu.
Hér er uppskriftin að sykurlausri eplaköku frá Heiðu.
Byrjið á því að hita ofnin upp í 175°c.
- 1 pakki Kökumix frá Sukrin.
- 4 stór egg.
- 2 dl vatn.
- 1 dl olía eða brætt smjör (ég notaði 50 gr brætt smjör og fyllti uppí með olíu).
Ofan á kökuna:
- 4 epli (ég notaði græn epli)
- 2msk Sukrin gold
- 1tsk kanill
Blandið saman öllum hráefnum nema eplum í skál og bætið við kökumixinu frá Sukrin. Hrærið vel saman eða þar til deigið er laust við alla kjekki. Setjið í bökunarform. Flysjið eplin og skerið í sneiðar. Raðið yfir kökudeigið og stráið svo blöndu af 2 msk Sukrin Gold og 1 tsk kanil yfir eplin. Bakið í miðjum ofni í ca. 30 mín.
Best að bera eplakökuna fram heita með þeyttum rjóma eða ís. Ég gerði mína að degi til og fór svo með hana sem dessert í matarboð um kvöldið. Ég hitaði hana bara aðeins upp í ofninum áður en ég bar hana fram.
Mæli einnig með að prófa þessa útgáfu af eplaköku með sukrin í stað sykurs.
http://sukrin.com/is/recipes/applecake/
Auður Eva
by Mamman | 17.01.2017 | Uppskriftir
Mér finnst fátt skemmtilegra en að dúlla mér í eldhúsinu enda mikil áhugamanneskja um að elda og borða góðan mat. Ekki er alltaf mikill tími sem gefst í eitthvað dúll svo þegar ég er að flýta mér þá hendi ég í þetta pasta. Það er ekki bara hollt heldur einnig alveg stórkostlega gott! Þessi uppskrift kemur úr minni eigin smiðju og ætla ég að deila henni hér með ykkur:
- Pasta að eigin vali t.d. skrúfur eða slaufur.
- 2 dósir túnfiskur í vatni.
- Ferskur blaðlaukur, eftir smekk.
- Spínat (1/4 poki) eða klettasaltsblanda (1/2 poki).
- Kirsuberjatómatar, hálft box.
- Gúrka, ég nota sirka 1/3.
- Sólþurrkaðir tómatar (sirka 5-6 stk).
- Rauð paprika, sirka hálf.
- Avakadó.
- Ólívuolía, 2 msk.
- Salt og pipar, eftir smekk.
Pastað eldað samkvæmt leiðbeiningum. Á meðan pastað sýður þá blanda ég öllu hráefninu saman. Þessi uppskrift dugir auðveldlega fyrir 2-3 manneskjur. Ég tek innan úr gúrkunni til þess að salatið verði ekki of blautt og sker grænmetið frekar smátt. Helli síðan smá ólívuolíu yfir þegar allt hráefnið er komið í skálina. Krydda að lokum með smá sjávarsalti og grófum pipar og blanda vel saman. Þegar pastað er tilbúið þá set ég það í sigti og kæli með köldu vatni.
Þá er bara að setja pasta á disk, skella salatinu yfir og njóta!
Elsa Kristinsdóttir
by Mamman | 16.01.2017 | Foreldrar
Una Haraldsdóttir fagnar 23 ára afmælsideginum sínum í dag. Hún er einnig nýbökuð móðir lítillar stúlku sem hún eignaðist með unnasta sínum Orra Eiríkssyni fyrir um mánuði síðan. Litla stúlkan var plönuð en margir urðu hissa á því hvers vegna þau drifu sig í barneignum, enda kornungt parið enn að mennta sig og “nægur” tími til barneigna eða hvað?
Hún Una skrifaði pistil og birti á Facebook síðu sinni í gær. Ég fékk góðfúslegt leyfi hennar til að birta færsluna í heild sinni. Þar kemur berlega í ljós að stundum þarf að breyta forgangsröðinni í lífinu til þess að verða þess aðnjótandi að eignast barn og ganga með. Takk fyrir að deila þessari lífsreynslu með okkur og gangi þér vel í nýja hlutverkinu.
Hér er færslan hennar Unu.
Á morgun verð ég 23 ára. Í stóra samhenginu er það sjálfsagt ekki hár aldur en eggjastokkarnir mínir virðast ekki vera alveg á sama máli.
Fyrir rúmu ári síðan lenti ég á tali við stelpu sem var nokkrum árum eldri en ég. Hún átti barn sem hún hafði eignast 22 ára. Þar sem framtíðarplan mitt og flestra sem ég þekkti voru nokkurn veginn á þennan veg: klára nám (án þess svo sem að vita þá hvað ég vildi læra), fá góða vinnu (án þess að vita hvað ég vildi vinna við), finna mér maka (var reyndar vel sett í þeim málum), kaupa fallegt hús (svo fjarlægt markmið að það glitti ekki einu sinni í það) og þegar allt þetta væri komið á hreint; eignast börn, þá fékk ég það út að það hlyti að vera mjög ópraktískt að vera eitthvað að rugla í kerfinu og færa barneignir framar í röðina. Ég skildi ómögulega hvernig hún hefði farið að því að ná sér bæði í gráðu og góða vinnu og stússast í að ala upp krakka á meðan. Ég gerðist svo djörf að spyrja hana hvort barnið hefði verið planað eða hvort hún hefði “óvart” orðið ólétt. Hún sagði mér að hún hefði farið í blóðprufu sem sagði til um eggjafjölda hennar og komist að því að hún hefði ekki mörg ár til þess að eignast börn. Þess vegna ákváðu hún og kærastinn hennar að drífa í því á meðan þau gætu. Hún sagði mér líka að hún hefði ekki séð eftir því einn einasta dag.
Þessi umrædda blóðprufa sat í mér í marga daga á eftir. Ég losnaði ekki við þá tilfinningu að ég ætti að láta athuga þetta hjá mér en þar sem ég get státað mig af ansi skrautlegri sjúkrasögu fannst mér ekkert svo ólíklegt að það gæti hafa haft áhrif á eggjabúskapinn. Verandi glasabarn sem á tvö ættleidd systkini vissi ég líka að frjósemi er ekki sjálfsagður hlutur og að í mörgum tilvikum koma börnin alls ekki af sjálfu sér. Ég fékk tíma hjá lækni sem skoðaði mig í bak og fyrir og þrátt fyrir vægt legslímuflakk leit allt eðlilega út. Þegar ég nefndi blóðprufuna voru fyrstu viðbrögð læknisins að hún væri óþörf, ég væri bara 21 árs og það væri að öllum líkindum engar áhyggjur að hafa. Það endaði með því að ég fór samt í hana og 3 vikum seinna hringdi læknirinn og sagði að niðurstöðurnar væru aðrar en við hafði búist. Að ef ég ætlaði mér að eignast börn þá ætti ég ekki að bíða lengi með það, helst bara sem styst.
Þetta var ákveðið áfall, barnahlutinn hafði nú einu sinni verið rúsínan í pylsuenda hinnar fullkomnu framtíðaráætlunar. Ég var ekki einu sinni byrjuð í draumanáminu, hvað sem það þá yrði. Mér varð hugsað til stelpunnar, hún hafði aldrei séð eftir þessu og aðlagaði líf sitt og áætlanir bara að því að eiga barn í stað þess að láta það stöðva sig í einhverju. Eftir að hafa svoleiðis baðað höfuðið í bleytu komst ég alltaf að sömu niðurstöðunni. Hún var sú að af öllum áföngum plansins var bara einn þeirra sem ég var 100% viss um – og það var að einn daginn myndi ég vilja börn.
Ég var svo heppin að eiga mann sem stóð sem klettur við bakið á mér í gegnum allan tilfinningarússíbanann og var ekki lengi að gúddera uppkastið að hinu nýja plani. Stuttu seinna tók við 13 vikna gubbuveisla með öllu tilheyrandi, sem við tókum heldur betur fagnandi. Flestir fögnuðu með okkur en þó var fólk héðan og þaðan sem tilkynnti mér að það hefði nú verið sniðugt að bíða með þetta þar til eftir háskólanám. Barnlaust fólk væri nefnilega frekar ráðið í vinnu, svo ekki væri minnst á að spara fyrir fasteign, það væri nánast ómögulegt með barn eins og staðan væri í dag. Þetta voru nákvæmlega þau sömu, þröngsýnu sjónarmið og ég sjálf hafði haft nokkrum mánuðum áður (þó ég hefði kannski sleppt því að messa þeim yfir aðila sem á von á barni). Það er nefnilega þannig að nútímasamfélagið okkar er ótrúlega litað af þessari fyrrnefndu röð aðgerða, sjálf sá ég enga aðra leið fyrr en ég var svo gott sem þvinguð til þess. En mikið er ég þakklát stelpunni sem sagði mér frá blessaðri blóðprufunni því að án hennar hefði mér örugglega ekki dottið í hug að hætta á pillunni fyrr en eftir mörg ár, þegar það hefði að öllum líkindum orðið of seint fyrir mig að ganga með barn. En að sama skapi finnst mér sorglegt að í báðum tilvikum hafi smár tímarammi haft áhrif á ákvörðun okkar um að eignast barn á þessum aldri, en ekki það að okkur hafi langað það af fyrra bragði og þorað að fylgja þeirri tilfinningu.
Í dag er ég 22 ára og við Orri eigum 1 mánaðar gamlan sólargeisla sem glæðir lífið svo sannarlega nýjum tilgangi. Og viti menn, ég kláraði önn í arkitektúr kasólétt og hlakka til að halda áfram að vinna í framtíðarplaninu góða samhliða því að vera mamma.
En nú er þessi pistill orðinn alltof langur, upprunalegi tilgangur hans var að reyna að vekja athygli á því að þessi blóðprufa væri möguleiki fyrir hvaða konu sem er, því að mér finnst allt of lítið talað um hana. Einnig vona ég að ef einhver les þetta sem hefur framtíðina jafn meitlaða í stein og ég gerði, gefi sér tóm til að breikka sjóndeildarhringinn og sjái að það eru fleiri en ein braut sem maður getur fetað í gegnum þetta líf. Ég vona allavega að þessi skrif hafi einhver áhrif, þó svo það væri ekki nema að þau breyti einhverju fyrir eina manneskju sem er í sömu stöðu og ég fyrir rúmu ári.
Ljósmyndir Einar Rafnsson.
by Mamman | 16.01.2017 | Dekur & dúllerí
Falleg og vönduð förðun getur gert algjöra töfra en það skiptir gríðarlega miklu máli að nota ekki bara einhverjar vörur. Þess vegna mæli ég með að konur gefi sér góðan tíma þegar kemur að vali á förðunarvörum og fái faglega aðstoð til þess að kaupa það sem hentar hverri og einni.
Frænka mín varð fimmtug í desember síðastliðinn og fékk mig til þess að gera sig fína fyrir afmælisveisluna. Ég notaði góðan fljótandi farða, laust púður og matta augnskugga í jarðarlitum en ég setti smá highlighter í augnkrókana.
Hér koma nokkur förðunartips fyrir konur 50 ára og eldri.
- Ekki nota fast púður eða “kökumeik”, veldu þér fallegan, léttan og fljótandi farða sem hentar þinni húðgerð. Gott er að setja örlítið laust púður yfir með bursta til að fá fallegri áferð. Fastur farði sest í hrukkur og línur og gerir þær meira áberandi. Gott er að setja primer undir farðann til þess að fá sléttari og mýkri áferð.
- Bleikur mattur kinnalitur getur gert algjört kraftaverk sé hann notaður rétt. Veldu þér fallegan bleikan kinnalit og settu hann á eplin í kinnunum, og passaðu að blanda vel yfir skilin. Réttur kinnalitur getur látið þig líta út fyrir að vera mun yngri, ég mæli með að nota ekki rauðann þar sem hann getur látið mann líta út fyrir að vera eldri.
- Veldu þér svartann maskara en ekki brúnann! Eldri konur ættu að velja sér maskara sem þykkir augnhárin og ég mæli með svörtum til þess að ná meiri dýpt. Til að fá meiri dýpt í augun þá er mjög flott að setja svartann blýant inn í efri augnlínuna, augnhárin virka mun þykkari sé það gert.
- Notaðu matta augnskugga en ekki sanseraða! Mattir augnskuggar láta þig líta út fyrir að vera mun yngri. Sanseraðir augnskuggar gera fínar línur og hrukkur mun meira áberandi og ef þú ert komin með smá augnpoka þá verða þeir miklu meira áberandi sértu að nota sanseraða augnskugga. Ég mæli einnig með að nota frekar augnskugga þegar þú setur á þig eyeliner þar sem fljótandi eyeliner getur látið þig líta út fyrir að vera eldri.
- Notaðu bjartan varalit! Ekki nota sanseraðan eða litlausan varalit, stígðu út fyrir þægindaramman og veldu þér fallegan bjartan lit. Fallegur bleikur litur gerir mjög mikið fyrir konur sem eru komnar yfir fimmtugt. Fyrir þær sem þora þá er fallegur rauður litur líka algjörlega málið!
Svo er um að gera að vera dugleg að prufa sig áfram og gera eitthvað nýtt. Fyrir þær sem eru komnar lengra í förðun þá eru blautar snyrtivörur algjörlega málið en séu þær notaðar vitlaust þá geta þær líka verið algjör hryllingur. Til eru endalaus video á Youtube til að gera fallegar farðanir svo ef þú átt lausa stund þá er um að gera að æfa sig.
Elsa Kristinsdóttir
by Mamman | 4.01.2017 | Andlega hliðin
Ég rakst á þessi frábæru áramótaheit hjá vinkonu minni á Facebook og fannst þau hreint út sagt frábær. Sjálf hef ég verið að velta því fyrir mér hvaða markmið mig langaði að setja fyrir árið og eru mörg þeirra að finna á þessum lista, meðal annars að gefa flíkur sem eru ekki í notkun, eyða minna, bera ábyrð á eigin líðan, sleppa tökum á fortíðinni og vera besta útgáfan af sjálfri mér. Tökum á móti nýju ári með opnum huga og jákvæðni. Megi árið gefa okkur öllum það besta sem það hefur uppá að bjóða.
Hér er svo að finna listann en ef þig vantar hugmyndir þá er hann frábær til að styðjast við. Hvort sem þú velur þér nokkur markmið eða bara allan listann eins og leggur sig!
- Eyddu minna en þú aflar.
- Skilaðu öllu sem þú færð lánað.
- Ekki kenna öðrum um
.
- Viðurkenndu mistökin þín.
-
Gefðu flíkur sem ekki eru í notkun til bágstaddra.
- Gerðu góðverk án þess að láta á því bera.
-
Hlustaðu og hættu að blaðra sjálfur/sjálf.
-
Farðu í hálftíma göngutúr á hverjum degi.
-
Stefndu á góðan árangur en ekki fullkomnun
.
- Vertu stundvís
.
- Hættu að afsaka þig.
- Ekki nöldra
.
- Vertu skipulagður/lögð.
- Vertu almennilegur/leg við fólk, líka óvingjarnlegt fólk
.
- Hleyptu fólki fram fyrir þig í biðröðinni.
- Taktu frá tíma fyrir einveru
.
- Ræktaðu með þér fallega framkomu.
-
Vertu auðmjúkur/auðmjúk
.
- Gerðu þér grein fyrir því og sættu þig við það að tilveran er óréttlát.
- Vertu meðvitaður/meðvituð um hvenær þú átt ekki að tala.
-
Farðu í gegnum heilan dag án þess að gagnrýna aðra
.
- Lærðu af fortíðinni.
- Gerðu áætlanir um framtíðina.
-
Lifðu í núinu
.
- Ekki pirra þig yfir smámunum.
Gangi þér svo vel með áramótaheitin þín og mundu að það er allt í lagi að gera mistök sem lengi sem þú lærir af þeim!