Slit á meðgöngu

Slit á meðgöngu

Í olíunni er að finna rósmarín og mintu sem róa erta húð. Þessi olía eykur teygjanleika húðarinnar og minnkar þannig líkurnar á sliti á meðgöngu.
Í olíunni er að finna rósmarín og mintu sem róa erta húð. Þessi olía eykur teygjanleika húðarinnar og minnkar þannig líkurnar á sliti á meðgöngu.

Þó svo að slit séu bara falleg minning um það að þú hafir borið það dýrmætasta sem þú átt í níu mánuði þá vilja flestar konur koma í veg fyrir að slitna á meðgöngu. Slit geta komið af mörgum ástæðum, hormónar eru eitt, svo spilar líka teygjanleiki húðar inn í og eins er meiri hætta á sliti ef húðin er þurr og vannærð. En vatnsdrykkja er alltaf mikilvæg og við megum ekki vanmeta það. Eins eru olíur til inntöku mjög mikilvægar og omega olíur eru einstaklega nærandi fyrir húðina. Ekki henta samt allar vörur óléttum konum og sumar vörur geta innihaldið efni sem eru ekki heppileg á meðgöngu.

Clarins hefur um árabil boðið upp á vörur sem eru sérstaklega ætlaðar til notkunar á meðgöngu. Um er að ræða olíu sem er 100% náttúruleg og innheldur meðal annars heslihnetur sem eru einstaklega rakagefandi. Einnig er að finna í henni rósmarín og mintu sem róa erta húð. Þessi olía eykur teygjanleika húðarinnar og minnkar þannig líkurnar á sliti á meðgöngu. Það er líka gott að nota hana eftir barnsburð til að hjálpa húðinni að komast í sitt fyrra horf. Sjálf hef ég reynslu af þessari olíu því ég notaði hana á öllum mínum þremur meðgöngum og ég slitnaði ekki neitt. Fyrsta meðgangan mín var árið 2000, önnur 2005 og sú síðasta 2014 svo þessi olía er ekki ný af nálinni. Það hvarflaði því ekki að mér annað en að kaupa olíuna aftur og aftur. Lyktin getur verið sterk til að byrja með en ilmurinn af rósmarín og mintu finnst vel. Það truflaði mig aðeins fyrstu vikurnar þegar ógleðin var sem mest, því ég byrjaði að bera á mig olíuna um leið og ég fékk tvö strik á þungurnarprófinu. Á meðan ég tókst á við morgunógleði truflaði lykt mig mikið þannig að það er lítið að marka en þegar ég var komin yfir það tímabil þá fannst mér lyktin bara frískandi og góð.

Ljósmynd: Krissý

Fyrstu skórnir

Fyrstu skórnir

Við kaup á fyrstu skónum þarf að huga að ýmsu. Við spurðum því hana Kristínu Johanssen eiganda skóverslunarinnar Fló um hvað hafa ber í huga við fyrstu skókaupin.

Hvað ber að hafa í huga við kaup á fyrsta skóparinu fyrir barnið? 

Við kaup á fyrstu skóm er gott að þreifa á skónum til að ganga úr skugga um að þeir séu úr mjúku og góðu leðri, nái upp á ökklann og séu með mátulega sveigjanlegan sóla. Sólinn má ekki vera of stífur og ef barnið er enn valt á fótunum er betra að hafa sólann sveigjanlegri þar sem það er enn að skríða heilmikið. Einnig þarf sólinn að vera stamur til að börnin renni ekki á sléttum gólfflötum. Skórnir þurfa að vera rúmir en þó má ekki muna meira en 1cm á lengdina..Það er mikilvægt að kaupa skó sem passa, því þá eru börnin örugg á fótunum og beita þeim síður rangt. Svo skoðar maður hvernig börnin bera sig í skónum og ef þau bera sig vel og eru glöð er það yfirleitt merki um að þeim líði vel í þeim. Ef þau eru hikandi að ganga eða setjast alltaf niður þegar þau eru í skónum þá þarf að finna aðra.

Er einhver litur að koma sterkur inn fyrir vor og sumar þetta árið?

Mér finnst klassískir litir vera ráðandi fyrir strákana eins og cognac brúnn og dökkblár, og fölbleikur, silfur og gull hjá stelpunum. Í sumar verða sandgrár og mintugrænn einnig áberandi.

Eru miklar tískubylgjur í skófatnaði barna?

Ekki kannski eins miklar og hjá fullorðnum en auðvitað eru viss snið vinsælli en önnur og helst það þá oft í hendur við þann fatnað sem er í tísku. Annars finnst mér gaman að reyna að halda í fjölbreytnina því hún er mikil en svo er alltaf smekkur fólks misjafn.

Einhver “tips” sem þið viljið gefa að lokum?

Það er alltaf gott að minna á að góðir skór eru einn af undirstöðuþáttum vellíðunar, ef þú ert í óþægilegum skóm líður þér ekki vel. Það er því mikilvægt að vanda valið þegar kemur að skóm.

Arite Fricke flugdrekahönnuður

Arite Fricke flugdrekahönnuður

Nafn: Arite Fricke
Nokkur hlutverk: Flugdrekahönnuður, grafískur hönnuður, kennari, nemandi og mamma
Hjúskaparstaða: Gift
Börn: Magnús 10 ára og Heiðrún 8 ára.

Hver er þinn náms og starfsferill?

Ég lærði skiltagerð og lauk sveinsprófi árið 1997 í Þýskalandi og útskrifaðist sem grafískur hönnuður árið 2001 frá Fachschule für Werbegestaltung í Stuttgart. Ég vann aðallega sem grafískur hönnuður bæði á auglýsingastofum og heima sem freelance hönnuður. Árið 2010 hlaut ég postgraduate diploma í International Hospitality Management og vann bæði á hótelum og ferðaskrifstofum til 2013. Ég fór síðan aftur í skóla árið 2013 og kláraði meistaranám í hönnun frá LHÍ árið 2015. Undanfarið hef ég verið að kenna skapandi flugdrekagerð og klára diplomanám í listkennslu frá LHÍ og útskrifast þaðan í júni 2016.

Það er fyrirhugað að ég muni kenna sumarnámskeið í Myndlistaskólanum í Reykjavík, Listasafni Árnesinga og í Búðardal núna næsta sumar, svo það verður mikið um að vera hjá mér á næstunni!

Hvernig tekst þér að sameina foreldrahlutverkið vinnunni?

Það krefst mikils skipulags og hæfileika til að vera í núinu. Vera vakandi fyrir því hvað er nauðsynlegt og hverju má sleppa. Við deilum áhuga á  flugdrekum sem fjölskylda. Það er verið að pæla í eðlisfræðilegum lögmálum þegar flugdrekinn er smíðaður, prófa ný efni eða liti eða bara að vera úti og velja besta flugdrekan fyrir vindinn þann daginn. Í sumarfríinu förum við lika saman að veiða og ætlum að reyna að vera að minnsta kosti eina viku í sumar í tjaldvagni. Svo er Magnús oftast úti með vinum sínum á þeim fótboltavöllum sem eru nærri miðbænum. Heiðrún er hestaáhugastelpa og er hún á námskeiði einu sinni í viku.

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum virkum degi?

Við borðum alltaf saman morgunmat, svo fer ég gangandi eða hjólandi í skólann ef veður leyfir. Ég er að klára námið og þarf að skrifa mikið. Svo er ég lika að pæla mikið í flugdrekunum, að reyna finna minn eigin stíl. Ég mun halda sýningu í lok maí svo það er nóg að gera! :-).  Seinni partinn eða eftir klukkan fjögur á daginn kem ég heim og er með krakkana. Þá er smá leiktími heima svo er lestur eða annar heimalærdómur. Á kvöldmatartíma eldum við mat og eftir matinn er svo fljótlega farið í rúmið til að lesa fyrir svefninn. Við hjónin horfum oft saman á bæði íslenskar og þýskar fréttir á netinu þar sem við erum ekki með sjónvarp. Stundum horfum við líka á þýska spennuþætti en ég fer eiginlega aldrei seint að sofa. Nægur svefn er mér mjög mikilvægur.

Hvað finnst ykkur gaman að gera um helgar?

Við höfum byggt okkur hús í sveitinni. Það er bara frábært að hafa þann möguleika að skreppa úr bænum og breyta til. Þarna er ýmislegt hægt að gera. Við erum mikið fuglaáhugafólk og bíðum spennt eftir vorinu, og t.d. núna í vetur höfum við séð uglu og ref á sveimi. Við förum mikið í sund og erum úti eins mikið og hægt er, t.d. við smíðar, í gönguferðum eða bara í frjálsum leik.

Geturðu lýst í stuttu máli muninum á þínum uppvexti og svo uppvexti barnanna þinna?

Heiðrún með hestana sína tvo sem hún sinnir vel

Þegar ég var að alast upp í sósialísku ríki Austur-Þýskalands var mikill agi og lögð áhersla á að uppfylla reglur og væntingar samfélagsins. Það þótti ekki gott að tjá sig um eða hafa eigin skoðanir á ákveðnum málum ef þær stönguðust á við stefnu stjórnvalda. Í náminu minu undanfarin þrjú ár gekk ég í gegnum þá mikilvægu og stundum erfiðu vinnu að finna “sjálfa mig” og mitt hlutverk utan heimilis og hvað mig langaði virkilega að gera.

Við sem foreldrar leggjum hinsvegar mikla áherslu á að leyfa börnunum að rækta sín áhugamál og byggja upp sjálfstraust og góða sjálfsmynd. Mér finnst mikilvægt að virkja þau til að hugsa sjálfstætt og finna lausnir og svör við ýmsum spurningum sjálf í staðinn fyrir að við sem foreldrar séum að mata þau. Einnig kennum við þeim að bera virðingu fyrir öðrum og skoðunum þeirra, en standa samt með sjálfum sér.

Hvað er framundan hjá þér?

Ég er að þróa áfram meistaraverkefni mitt Hugarflug eða Playful Workshops. Ég mun kenna á ýmsum stöðum í vor og sumar eins og í Gerðubergi, Listasafni Árnesinga í Hveragerði, í Búðardal. Einnig verð ég með sumarnámskeið í Myndlistaskólanum í Reykjavík.

Ég fékk nýsköpunarstyrk fyrir hugmynd um náms- og kennsluvefinn Loft- og Vatn þar sem ég mun safna flottum verkefnum sem kennarar eru að vinna með nemendum sínum þar sem þeir nýta sér vind- eða vatnsorku. Þessi vefur á að veita innblástur fyrir kennara, nemendur og foreldra þar sem fræðsla og leikgleði sameinast.

Verkefnin eru mörg en spennandi og snúast um það sem mér þykir skemmtilegast að gera. Ég er þakklát fyrir það.

DSCF4143

Vefur Arite: hugarflug.net

Viðtal tók: Helga Óskarsdóttir
Ljósmyndir: Una Haraldsdóttir

Um hormónið Oxytoxin

Um hormónið Oxytoxin

Oxytoxin er stórmerkilegt hormón sem kemur mikið við sögu í fæðingum. Það er oft nefnt ástarhormónið og undanfarið hefur það fengið verðskuldaða athygli í fæðingarheiminum, því við erum farin að skilja hormónið og virkni þess mun betur. Oxýtoxin gerir allt aðeins auðveldara.

Oxýtoxin er stundum kallað kósý hormón, við finnum fyrir áhrifum af því þegar okkur líður vel, þegar við borðum góðan mat, hlæjum, njótum ásta og þegar við upplifum okkur örugg. Þegar því seytir fram veitir það okkur vellíðan. Þannig að þegar okkur líður vel og við erum örugg þá streymir hormónið um en ef við finnum fyrir óöryggi og hlutirnir ganga ekki vel þá stoppar það. Ástarhormónið er auðtruflað og Michel Odent segir að það sé feimið. Oxýtoxin spilar lykihlutverk í fæðingum en hagar sér á sama hátt og venjulega við þær aðstæður. Því seytir fram í öruggu umhverfi en dregur úr virkni sinni við ótta og kvíða eða þegar adrenalín er að trufla.

Michel Odent, franskur fæðingarlæknir, hefur verið óþreytandi í að benda á að til þess að oxýtoxinið streymi um konur í fæðingu verði að skapa aðstæður þar sem hún erum afslöppuð, róleg og örugg. Vera á stað þar sem hún er örugg og getur slökkt á heilanum (neo-cortexinu) s.s. þarf ekki að svara spurningum, spjalla, spá í útvíkkun eða annað álíka áreiti. Með því að slökkva á neo-cortexinu þá getur kona farið á fullt inn í fæðingu barns síns, oxýtoxinið flæðir fram og gerir sitt til að flýta framvindu.

Jafnframt er mikilvægt að vera í umhverfi þar sem fæðandi kona hefur það ekki á tilfinningunni að verið sé að fylgjast með henni eða vakta hana. Sú tilfinning getur komið af nærveru utanaðkomandi aðila og tölvur, myndavélar og símar hafa sömu áhrif. Upplifi kona að verið sé að fylgjast með henni ,,kveikir hún á sér” og fer að huga að umhverfinu og þannig hægist á ferlinu.

Þá skiptir máli að staðurinn sé dimmur og engin skær ljós til staðar. Gott er að hafa dregið fyrir og/eða kveikt á kertum til að dempa birtuna. Allt þetta hjálpar til við að örva oxýtoxinið. Þá verður staðurinn að vera hlýr, mikilvægt er að hafa herbergið heitt og jafnvel hitara í gangi (kerti eða kamínu ef það má kveikja á svoleiðis) eða heitt vatn á réttum tíma. Allt getur þetta lagt sitt að mörkum til að örva oxýtoxinið.

Síðast en ekki síst er mikilvægt að halda adrenalíni í lágmarki. Adrenalín er mjög merkilegt hormón og getur það verið smitandi. Ef kona er stressuð, kvíðin og hrædd í fæðingu getur hún auðveldlega smitað aðra og fer þá öðru fólki í fæðingarrýminu ósjálfrátt að líða eins. Því er mikilvægt fyrir þá sem eru viðstaddir fæðingu að vera rólegir og ef ekki, taka á öllu sínu til að róa sig niður og í sumum tilfellum mælir Michel Odent hreinlega með því að fólk sem er stressað og gefur frá sér adrenalín yfirgefi herbergið, fái sér göngutúr og komi til baka þegar það hefur náð að róa sig.

Kannski hljómar þetta eins og það sé alls ekki hægt að vinna með þessi atriði í venjulegri fæðingu sem fer fram á spítala en það er auðveldara en maður heldur. Maður getur passað upp á að móðurinni sé hlýtt allan tímann og hún getur beðið um að hafa ljósin slökkt og dregið fyrir. Ef fylgjast þarf með hjartslættinum að hafa ekki kveikt á hljóðinu í mónitornum og passa að lítið sé talað við konuna. Jafnvel er hægt að nota bara eyrnatappa og benda henni á að loka augunum!

Svo getur viðvera doulu eða stuðningsaðila sem þekkir fæðingar hjálpað verðandi foreldrum mikið með rólegri nærveru og þannig viðhaldið eðlilegu flæði oxýtoxins.

Soffía Bæringsdóttir
doula og fæðingafræðari

Barnajóga

Barnajóga

Jóga fyrir fullorðna er fyrir löngu orðið útbreitt um allan heim og nú er jóga fyrir börn farið að öðlast sífellt meiri vinsældir. Það er víða kennt í skólum og jafnvel í leikskólum. Líf barna er orðið flóknara og hraðinn hefur aukist með meira vinnuálagi foreldra og fleiri tómstundum utan skóla og því er jóga kærkomið inni í dagskrá skólanna sem stund milli stríða.

Sem jógakennari barna á leikskólaaldri, tveggja til sex ára, hef ég orðið vitni að því hvernig börn bregðast við jóga og hvaða áhrif það hefur á þau. Kennsluna þarf að sníða eftir þeirra áhuga og úthaldi og það er gaman að leika dýr, tré, stríðsmenn og gyðjur. Þessar æfingar efla líka samhæfingu, athygli og líkamlega getu barnanna.

Börnin sækja í rónna sem fylgir jógatímunum. Að anda djúpt, loka augunum og einbeita sér að því sem er að gerast í þeirra eigin líkama í stað þess að hugsa um hvað sé að gerast hjá vinkonum og vinum. Það er svo áhugavert að sjá hvað gerist hjá þeim þegar þau beina athyglinni inn á við, loka augunum og finna hvernig þeim líður þá stundina í tásunum, eyrunum eða nefinu. Það er álag að vera stöðugt að fylgjast með því hvað er að gerast í kringum þig og bregðast við áreitum frá umhverfinu. Þessar æfingar eru góð hvíld frá því.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að jóga hefur margvísleg jákvæð áhrif á börn. Það eykur liðleika samhæfingu, athygli,einbeitingu og sjálfstraust og þroskar að auki jafnvægisskynið. Sérlega áhugavert er þó að jóga hefur einstaklega góð áhrif á börn sem eiga að einhverju leyti erfitt uppdráttar, til dæmis börn með einhverfu eða með ofvirkni og athyglisbrest. Það dregur úr kvíða og eykur sjálfstjórn og þar af leiðandi getur það dregið úr félagslegri einangrun og óæskilegri hegðun eins og árásargirni.

Það mætti segja að jóga sé orðinn hluti af lífi margra barna frá því í móðurkviði en meðgöngujóga er ákaflega vinsælt meðal verðandi mæðra. Það er talið geta hjálpað bæði á meðgöngu og ekki síður í fæðingunni. Öndunin sem þar er kennd hjálpar við að beina athyglinni inn á við auk þess sem jóga eykur líkamsvitund og auðveldar konum í fæðingu að treysta líkamanum til að gera það sem hann er hannaður til að gera, sem hjálpar þeim að slaka á. Að sjálfsögðu geta fæðingar farið á alla vegu en jóga felst ekki síst í að sleppa takinu og taka við öllu því sem lífið færir okkur, gera okkar besta með það sem við höfum í hvert skipti.

Frá því börnin eru 6 – 8 vikna er hægt að stunda svokallað mömmujóga og eftir mömmujóga tekur svo við barnajóga sem hentar börnum frá 6 mánaða aldri. Líklega hefur jóga fyrir svo ung börn ekki meiri eða betri áhrif á þau en önnur hreyfing á þessum aldri en það er vissulega ein tegund af mjúkri hreyfingu sem mælt er með fyrir ungbörn.

Jóga er frábær blanda af hreyfingu og andlegri heilsurækt og hentar flestum þeim sem áhuga hafa. Ef vel er staðið að kennslunni getur hún verið sterkur grunnur fyrir börn til að byggja á fyrir líkamlega og andlega færni en jóga er ekki síst stórskemmtilegt og góð æfing í gleði og leik.

Frekari upplýsingar:          

http://www.koreascience.or.kr/article/ArticleFullRecord.jsp?cn=TJHOBI_2011_v1n1_4.1

http://www.parents.com/fun/sports/exercise/the-benefits-of-yoga-for-kids/

http://www.yogajournal.com/article/family/yoga-kids/

Pin It on Pinterest