Elskar fallegar barnavörur sem passa sem stofustáss
Elskar fallegar barnavörur sem passa sem stofustáss
Hulan er heildverslun sem flytur inn einstaklega falleg barnaleikföng og húsgögn. Á bak við Huluna stendur hún Elva Kristín Arnardóttir sem finnst mjög mikilvægt að þær vörur sem hún flytur inn séu það fallegar að þær passi jafnt sem fallegur fylgihlutur inn í stofu sem og leikfang í barnaherbergið. Elva leggur mikið uppúr góðri og persónulegri þjónustu og ber svo sannarlega með sér góðan þokka þegar hún tók vel á móti blaðakonu Mamman.is sem hitti hana á fallegu heimili hennar í Úlfarsárdal í létt spjall.
-Segðu okkur aðeins frá fyrirtækinu þínu.
“Hulan.is var stofnað 2008. Ég kom síðan inn í fyrirtækið árið 2018. Á bak við Huluna er Skjaldbaka ehf sem er heildverslun og er með umboð fyrir öll okkar vörumerki á Íslandi. Vörurnar seljum við síðan víðs vegar um allt land. Hulan.is er síðan netverslun sem við rekum þar sem er að finna allar okkar fallegu vörur. Einnig eru sérvaldar vörur þar inni sem fást einungis inn á Hulunni” segir Elva.
“Ég legg mikið upp úr góðri og persónulegri þjónustu. Kúnnarnir mínir eiga stóran sess í hjarta mínu hvort um sé að ræða Hulu kúnnar eða eigendur og starfsfólk í búðunum” bætir Elva við.
-Segðu okkur aðeins frá vörunum ykkar?
“Ég myndi segja að vörurnar eigi það allar sameiginlegt að vera alveg gríðarlega fallegar. Mér finnst mjög mikilvægt að vörurnar séu það fallegar að þig langi mest til að hafa þær upp í hillu inn í stofu hjá þér og einnig finnst mér skipta mjög miklu máli úr hverju þær eru gerðar” segir Elva og hlær.
En á hún Elva sér eitthvað uppáhalds merki af þeim vörum sem hún er að flytja inn?
“Nei ég get alls ekki valið, er svo ánægð með öll þau merki sem fylgdu heildsölunni á sínum tíma og þau merki sem ég er búin að bæta við svo er ég að sjálfsögðu alltaf með augun opin fyrir nýjungum” segir Elva glöð í bragði.
Elva er gift og á tvö börn með manninum sínum, þau Agnesi Bríet 3 ára og Mikael Mána 9 ára. Elva er sjálf fædd og uppalin austur á Vopnafirði og fluttist til Reykjavíkur 19 ára og hefur verið búsett í Reykjavík síðan þá, fyrir utan stuttan tíma sem hún og maðurinn hennar bjuggu í Prag. En hvað finnst fjölskyldunni skemmtilegast að gera saman?
“Við höfum verið mjög dugleg að ferðast og við elskum að vera við ána að veiða, segir Elva og bætir við. “Sumar og sól er bara alltaf best og ef ég ætti að nefna einn stað sem uppáhaldstað fjölskyldunnar þá er Florída efst á lista. En annars eigum við líka eftir að prufa nokkur lönd sem heilla okkur.” Aðspurð segir hún fjölskylduna sakna þess að ferðast utanlands. “Já svo sannarlega söknum við þess, enda hugsa ég að við nýtum fyrsta tækifæri sem gefst til að skella okkur út í smá frí”segir Elva að lokum hlæjandi.
Hér fyrir neðan má sjá fallegar myndir af tréleikföngum og kökudiskum sem fást í vefverslun Hulunnar. Einnig er að finna samfélagsmiðlahnappa beint inná Facebook & Instagram hjá Hulan.is neðst á síðunni.