Þarf að breyta að talað sé um „þreyttar, feitar, sveittar og pirraðar kellingar” á breytingaskeiðinu

Þarf að breyta að talað sé um „þreyttar, feitar, sveittar og pirraðar kellingar” á breytingaskeiðinu

Þarf að breyta að talað sé um „þreyttar, feitar, sveittar og pirraðar kellingar” á breytingaskeiðinu

Halldóra Skúladóttir er sannarlega kjarnakona, enda hefur hún hjálpað fjölmörgum í gegnum tíðina. Breytingaskeið kvenna er henni hugleikið þessa dagana, enda er hún sjálf á breytingaskeiðinu og finnst mikilvægt að breyta hugsunargangi allra og útrýma fordómum gagnvart því, enda um eðlilegt skeið að ræða sem helmingur mannkyns gengur í gegnum!

Halldóra býr í dag með manninum sínum í Þýskalandi, á fjórar dætur og eitt barnabarn. Dæturnar búa þrjár á Bretlandi og ein á Íslandi, „þannig við erum svolítið út um allt,” segir hún.

Í dag er Halldóra í sóttkví uppi í bústað og féllst á að svara nokkrum spurningum mömmunnar um þetta spennandi og dálítið…dularfulla skeið, breytingaskeiðið.

Halldóra segir varðandi sig sjálfa, menntun hennar og nám að hún hafi fyrst hjálpað fólki að bæta lífsstílinn sinn í meira en tvo áratugi: „Fyrst var það mest tengt næringu og hreyfingu en fljótlega fór ég að sjá að ef að hugarfarið var ekki á réttum stað var lífsstíllinn voðalega fljótur að fara aftur í sama gamla farið. Þannig að ég fór að einbeita mér meira að því að hjálpa fólki að breyta hugarfarinu sínu gagnvart lífsstílsbreytingum.

Ég lærði markþjálfun hér heima, en eftir að ég flutti til Bretlands bætti ég við mig diplomu í NLP og núna nýlega kláraði ég diplomu í Lausnamiðaðri dáleiðslu- og sálmeðferð.

Ég starfa í gegnum netið, og þessa dagana er ég mest að einbeita mér að því að hjálpa konum, hef eitthvað einstaklega mikið passion fyrir því. Líklega af því að ég veit af eigin raun hvað við getum verið duglegar í að flækja hlutina í hausnum á okkur…þannig að ég er að hjálpa konum að greiða úr hugarflækjunni.”

Hypno-birthing og breytingaskeiðið

„Ég er í reglulegri endurmenntun í tengslum við dáleiðsluna og núna nýverið lauk ég námi í Hypno-birthing practitioner level1 – en það er mjög vinsælt í Bretlandi að nýta sér það í fæðingarferlinu. Þar kenni ég pörum ýmsar aðferðir sem þau geta notað til að skapa hugarró bæði hjá verðandi móður sem og fæðingarfélaganum, rétt öndun á mismunandi stigum fæðingarinnar og hvernig þau geta verið við stjórnina innra með sér sama hvað gerist í fæðingunni, því stundum fer hún ekki alveg eins og við óskum, en þá er mikilvægt að halda ró. Í tengslum við þetta vinn ég líka með pörum sem hafa farið í gegnum erfiða fæðingu og vilja hjálp við að vinna úr þeirri reynslu.

 Annað endurmenntunarnám sem ég fór líka nýverið í gegnum er hvernig er hægt að hjálpa konum á breytingaskeiðinu að vinna sig í gegnum það tímabil, sem getur reynst mörgum mjög erfitt.

En mjög margar konur fara í gegnum miklar breytingar með tilheyrandi einkennum á þessu tímabili. Einkenni sem tengjast öllum kerfum líkamans, frá toppi til táar, s.s. svefnleysi, hitakóf, kvíða, þunglyndi og pirring, aukna verki í vöðum og liðum, þreyta, meltingarvandamál og svo ótal margt fleira.

Rannsóknir hafa sýnt að dáleiðsla getur hjálpað konum mikið við ráða við einkenni breytingaskeiðsins, sérstaklega hita- og svitakóf.

Í meðferðunum hjá mér blanda ég saman dáleiðslu, sálmeðferð, NLP (NLP er ákveðin tækni til að hjálpa fólki að breyta/endurforrita hugsana- og hegðunarmynstrið sitt, n.k. hugræn atferlismeðferð) og markþjálfun.”

Halldóra Skúladóttir

 

Halldóra gerði óformlega könnun á Instagramsíðu sinni varðandi breytingaskeiðið og niðurstöðurnar komu henni á óvart

Halldóra segir breytingaskeiðið vera sér mjög ofarlega í huga þessa dagana: „Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að ég komst að því síðasta haust að ég væri greinilega komin á þetta „alræmda” skeið! Ég vissi ekkert um þetta – eina hugmyndin sem ég hafði um breytingaskeiðið er að maður ætti að vera að kafna úr hita og svita daginn út og inn, og þar sem ég var ekki að glíma við það datt mér ekki í hug að ég væri komin þangað.

Mér var hins vegar búið að líða mjög illa andlega í nokkurn tíma, tengdi það fyrst við flutningana mína til Þýskalands, en samt ekki því ég var svo engan veginn ég sjálf, var með stöðugan kvíða yfir öllu og engu, mjög döpur og búin að týna gleðinni minni, gat svo bara farið að gráta allt í einu yfir öllu og næstu mínútu var ég síðan bara brjálæðislega pirruð.

Ég hreinlega þekkti sjálfa mig ekki!

Það var síðan bara fyrir tilviljun að ég datt inn á fyrirlestur um heila kvenna að það rann upp fyrir mér að ég væri komin á breytingaskeiðið! Það var ótrúlega mikill léttir að vita að það voru eðlilegar líffræðilegar ástæður fyrir þessari líðan minni.

Þarna fór ég að grúska og komst að svo ótrúlega mörgu sem ég vissi ekki um breytingaskeiðið! Og það sem mér fannst ótrúlegast er að konur eru helmingur mannkynsins og við förum ALLAR í gegnum þetta tímabil – hvort sem okkur líkar betur eða verr – og það veit bara enginn neitt um þetta! Það er engin fræðsla um þetta, það er helst ekki talað um þetta í samfélaginu, það liggur einhver skömm yfir þessu tímabili, konur eru bara að þjást í hljóði af ótta við að það sé gert grín að þeim og að þær séu dæmdar ónýtar og úr leik.

Og það versta er að mjög margir læknar, bæði heimilis- og kvensjúkdómalæknar eru illa upplýstir um þetta skeið í lífi allra kvenna. Þannig að þær konur sem leita sér hjálpar eru oft van- og ranggreindar og vanmeðhöndlaðar. Það er mjög algengt að konur séu t.d. settar á kvíða- og þunglyndislyf á þessum tíma í stað þess að hormónaskorturinn í líkamanum sé meðhöndlaður. Og af því að kvíðinn og þunglyndið er vegna skorts á estrógenni, virka kvíða- og þunglyndislyf oft takmarkað og þær halda áfram að þjást og líða illa, og vita ekkert hvert þær eiga að leita.

Breytingaskeiðið er samt miklu alvarlegra en bara „óþægindi” vegna hitakófa, svefntruflana og pirrings. Konur á breytingaskeiðinu eru mun útsettari fyrir alvarlegri sjúkdómum s.s. beinþynningu, hjartasjúkdómum og Alzheimers – en fyrir hverja þrjá sem greinast með Alzheimers eru tvær konur!

Alzheimer byrjar með neikvæðum breytingum í heilanum mörgum árum ef ekki áratugum áður en klínísk einkenni koma fram, sérstaklega hjá konum.

Læknar og hormónameðferðir

Ég komst líka að því hormónameðferð, sem var búið að fordæma í mörg ár, var ekki eins hættuleg og búið er að halda fram og margir halda ennþá. Ég las rannsóknir og hlustaði á viðtöl við lækna og sérfræðinga eins og Dr. Louise Newson sem er breskur heimilislæknir og sérfræðingur í breytingaskeiði kvenna, og er að umbylta umræðu, greiningu og meðhöndlun kvenna í Bretlandi ásamt því að endurmennta lækna og heilbrigðisstarfsfólk í þessum efnum. Ég las og hlustaði á Dr. Lisa Mosconi sem er með Phd í Neuroscience og Nuclear medicine og rannsakar heila kvenna.

Í kringum aldamótin 2000 var gerð risastór rannsókn á hormónameðferð kvenna á breytingaskeiðinu sem var ekki rétt staðið að og hætt við eftir bara fimm ár, en það voru eingöngu neikvæðar tilgátur úr þessari gölluðu og hálfkláruðu rannsókn sem fóru á flug í fjölmiðlum og nánast á einni nóttu hættu konur að nota hormóna, allir urðu hræddir við aukaverkanirnar, bæði konur og læknar og síðan þá hafa hormónar verið nánast titlaðir sem „verkfæri djöfulsins” og enginn hefur þorað að snerta á þeim. Og í kjölfarið stoppaði bara rannsóknarvinna og þróun í þessum málum og búið að vera erfitt að ná upp þekkingu hvað varðar hormónameðferð, þangað til núna nýlega. Nú eru komnar miklu betri klínískar rannsóknir en því miður eru þær niðurstöður ekki að rata til lækna eða kvenna, margir læknar eru enn hræddir við að ávísa hormónum til kvenna og konur eru líka hræddar og illa upplýstar um ávinning af hormónameðferðum.

Í þessu grúski mínu lærði ég svo mikið um ekki bara einkennin og meðhöndlun breytingaskeiðsins heldur hvað rannsóknir og meðhöndlun á kvennasjúkdómum hafa fengið lítið vægi í vísindasamfélaginu.

Lengi vel voru konur bara skilgreindar sem „litlir kallar” og allt sem ekki rúmaðist undir bikinínu var bara meðhöndlað eins og hjá körlum. Þetta gerði það t.d að verkum að konur fengu oft á tíðum of stóra skammta af lyfjum, skammta sem hentuðu stærri karlmannskroppum með tilheyrandi aukaverkunum.

Eftir þessa uppgötvun ákvað ég að athuga hvort ég gæti mögulega verið sú eina sem var alveg týnd þegar kom að breytingaskeiðinu, sú eina sem vissi ekki um alla þessa tugi einkenna (en einkenna listi kvenna á breytingaskeiðinu getur verið á bilinu 20-40 atriði). Og hvort ég væri sú eina sem vissi ekki um þessa alvarlegu sjúkdóma og að hormónar væru í flestum tilfellum mjög örugg meðferð sem umbyltir oftast líðan og lífsgæðum kvenna.

Kvennaráð og einkenni breytingaskeiðsins

Ég held úti vefsíðu og instagram aðgangi sem heitir kvennarad.is og ég ákvað að gera óformlega könnun á Instagram, setti þar inn allskonar spurningar varðandi breytingaskeiðið og fékk frábær viðbrögð.

Það sem kom út úr þessu var að ég var svo langt frá því að vera sú eina sem vissi ekki neitt, flest allar konur töluðum að þær höfðu ekki hugmynd um öll þessi fjölmörgu einkenni sem við getum fundið fyrir og breytingaskeiðið kom algjörlega aftan að þeim.

Þær voru líka flestar jafn ringlaðar og ég þegar kom að því að fá greiningu og meðhöndlun. Flestar vissu ekki hvernig þær gætu vitað hvort þær væru komnar á breytingaskeiðið – en samkvæmt Dr. Louise Newson þá ættu læknar að styðjast við einkenni fremur en blóðprufur hjá konum sem eru 45 ára eða eldri, þar sem hormónaframleiðslan á þessu fyrsta stigi breytingaskeiðsins getur verið skrykkjótt, góð suma daga en lítil aðra daga og þess vegna getur verið erfitt að fá nákvæma mynd af hormónunum með einni blóðprufu. En það voru einmitt margar konur sem töluðu um að læknirinn hefði sent þær í blóðprufu sem kom „eðlilega” út og þar af leiðandi var ekkert aðhafst meira, þrátt fyrir að þær væru með bullandi einkenni sem var að hafa hamlandi áhrif á lífið þeirra, lífsgæði og líðan.

Þegar ég spurði um hormóna voru mjög margar konur hræddar við að fara á hormónameðferð og ætluðu bara að harka þetta af sér. Þegar ég spurði hvaðan konur fengu upplýsingar um hormóna var það oft bara héðan og þaðan, jafnvel frá læknum, þar sem álitið var að þeir væru stórhættulegir.

En í dag er talað um að með hormónameðferð séum við að bæta upp fyrir hormónaskort, bara svipað og þeir sem þurfa skjaldkirtilshormónameðferð við vanvirkum skjaldkirtli, eða insúlín vegna skorts á insúlínframleiðslu í brisinu.
Hormónameðferð á breytingaskeiðinu er ekkert annað en uppbót fyrir lífsnauðsynlega hormóna sem eru ekki framleiddir lengur í líkamanum.

Það hefur orðið bylting í framleiðslu hormóna í dag, hér áður fyrr voru þeir t.d. framleiddir úr hlandi þungaðra hryssa…já, það var verið að gefa konum hestahormóna!

Í dag er mælt með notkun svokallaðra Body Idendicalhormóna, en þetta eru hormónar unnir úr plöntum sem hafa svipaða mólekúluppbyggingu og líkaminn og eru því auðnýttir.Síðan er ekki sama hvernig hormónar eru teknir inn, sérstaklega estrógen, þar er mælt með að taka það inn í gegnum húð – annaðhvort með plástri, geli eða spreyi, þannig minnkar þáttur lifrarinnar í niðurbrotinu og samkvæmt Dr. Newson er nánast engin hætta á blóðtappa þegar estrógen er tekið á þennan hátt.

Þær konur sem svöruðu því að þær væru að nota hormónameðferð sögðu að ALLT hefði lagast og þær eignast nýtt líf eða fengið lífið sitt aftur þegar þær byrjuðu á hormónum.

Eiginlega engar konur vissu um hættuna á þessum alvarlegu sjúkdómum sem konur geta þróað með sér á þessu tímabili með skorti á estrógeni. En sú vitneskja hafði mest áhrif á mig þegar ég ákvað að fara á hormóna.

 Sumar konur sögðu að þær fengju neikvæð viðbrögð frá vinkonum þegar þær tala um hormónameðferð, mörgum hefur verið neitað um hormóna af læknum, þrátt fyrir að þær hafi beðið um þá og klárlega verið á breytingaskeiðinu og ekki með neina undirliggjandi áhættuþætti eða fjölskyldusögu sem gæfi til kynna að hormónameðferð hentaði þeim ekki.

Mjög margar konur voru að finna fyrir neikvæðum og hamlandi áhrifum breytingaskeiðsins á lífið sitt þar með talið vinnu, áhugamál og sambönd. Sumar konur sögðust hafa verið frá vinnu í lengri tíma, þurft að hætta að sinna ákveðnum áhugamálum og að það væri lítill skilningur á þessu í samfélaginu.

Flest allar konurnar töluðu um að það væri mjög neikvæð ímynd af breytingaskeiðinu, bæði hjá þeim sjálfum og öðrum, það sé talað um þreytta, feita, sveitta, pirraða kellingu þegar er talað um konur á breytingaskeiðinu og jafnvel gert grín að þeim þegar þær tali um líðan sína, sem gerir það að verkum að þær forðast að ræða þetta, jafnvel við vinkonur og maka.

 

Neikvætt viðhorf – hvers vegna telur þú að það sé tilkomið og hvað er hægt að gera til að breyta þessu, koma skeiðinu í umræðuna og fjalla um það á jákvæðan og kannski sjálfsagðan hátt?Eru þetta fordómar því konur fara úr barneign, séu ekki lengur „ungarog ætli það tengist æskudýrkun?

Þegar ég fór að gramsa í þessu uppgötvaði ég að ég var sjálf með fordóma gagnvart þessu skeiði, ætli maður sé ekki svolítið að ýta þessu frá sér því umræðan/hugmyndin hefur verið svolítið á þá leið að þegar maður er komin þangað sé maður bara orðinn gamall. Enginn kona vill missa „kúlið” og vera sett í flokk með þessari þreyttu, sveittu, feitu, pirruðu kellingu.

Og það ríkir mikil æsku- og útlitsdýrkun í samfélaginu, við sjáum sjaldnast lífið eins og það raunverulega er og þar af leiðandi erum við kannski með pínu brenglaða hugmynd af því hvernig við „eigum” að vera, líta út og líða.

En breytingaskeiðið þarf svo sannarlega ekki að vera alslæmt, með réttri meðhöndlun, skilningi í samfélaginu og skilningi hjá konum á því hvað er að gerast í líkamanum þegar þær fara í gegnum þetta tímabil getur ýmislegt jákvætt gerst.

Margar konur í könnuninni töluðu um að í fyrsta lagi væri mjög gott að losna loksins við blæðingar og mjög margar konur sögðu að það færðist yfir þær einhvers konar kæruleysi gagnvart áliti annarra og í fyrsta skipti jafnvel á ævinni væri þeim sama um hvað öðrum finnst og þær væru loksins að ná að hlusta á sig sjálfar og sínar þarfir.

Hvað má gera til að fræða konur frekar, um hormóna, staðreyndir, að breytingaskeiðið þurfi ekki að vera eins erfitt og talið er? Hvernig má breyta umræðunni, hvað getum við gert sjálfar?

Í fyrsta lagi þá þurfum við konur sem erum á þessum stað að tala um þetta, hætta að þagga þetta niður, hætta að gera þetta að einhverju tabúi, fatta að þetta er ekkert til að skammast sín fyrir, við förum allar í gegnum þetta tímabil á lífsleiðinni og lífið er alls ekki búið þegar maður er kominn á breytingaskeiðið, heldur er hægt að líta á þetta sem nýjan kafla í lífinu, kafla sem maður fær kannski svolítið tækifæri á að skrifa sjálfur. Í mínu tilfelli var ég mjög ung þegar ég eignaðist börn, þegar ég var 22 ára var ég komin með þrjú börn undir 2ja ára aldri, var 28 ára komin með fjögur börn! Og var svolítið bara komin á milljón í lífinu og reyna að halda öllum boltunum á lofti.

En þegar breytingaskeiðið kemur erum við margar búnar með þetta tímabil, búnar að ala upp börnin okkar, komnar á okkar stað í vinnunni, komnar í meiri ró og vitum betur hvað við viljum í lífinu, þannig að það gefst oft tækifæri til að hanna þennan kafla á þann hátt sem við viljum.

Það þarf líka að fræða samfélagið, við þurfum að tala um þetta við makann okkar og börnin, það segir sig sjálft að þetta tímabil getur reynt gífurlega á sambönd og samskipti. Við vitum öll hvað það getur verið stuttur þráðurinn hjá okkur eftir eina svefnlitla nótt…en hvað þá þegar þær verða margar í röð, jafnvel svo mánuðum skiptir? Ofan á þetta bætist að konum líður illa, eru hræddar og kvíðnar yfir því sem þær eru að upplifa, vita jafnvel ekki hvað er að gerast, allt í einu hefur líkaminn brugðist þeim og þær þekkja ekki sjálfa sig, upplifa jafnvel vonleysi og finnst þær vera hjálparlausar, vita ekki hvert þær geta leitað, sumar hafa jafnvel reynt að ræða þetta við heimilislækni en upplifað lítinn skilning og jafnvel verið gert lítið úr því sem þær eru að fara í gegnum og ekki fengið neina aðstoð.

Skilnings- og ráðleysi

Ég hef fengið skilaboð frá þó nokkrum konum sem sjá það núna eftir á, að breytingaskeiðið og skilningsleysið því tengt hafi átti stóran þátt í skilnaði þeirra við makann sinn.

Ég og maðurinn minn höfum verið dugleg að ræða þetta allt, hann á ekki til orð yfir hvernig hefur verið staðið að þessu og lítið hlúð að konum á þessu tímabili. Við höfum líka rætt vanmátt makans, að sjálfsögðu eiga þeir erfitt með að skilja hvað er í gangi – konan skilur það ekki einu sinni sjálf – og þar af leiðandi eiga þeir erfitt með að bregðast við á réttan hátt, enda erfitt að ræða eitthvað þegar hvorugur aðilinn veit hvað er í gangi. Þannig að það þarf líka alveg að huga að mökunum, þeir þurfa að skilja hvað er að gerast, ef þeir vita t.d. að ástæðan fyrir kvíðanum, reiðinni, geðsveiflunum, geðdeyfðinni og minnkaðri kynhvöt hjá konunni er út af líffræðilegum ástæðum, minnkuðu estrógeni eru minni líkur á allskonar misskilningi og leiðindum.

Ég hef heyrt af konum sem hafa verið svo langt niðri af kvíða, vonleysi og þunglyndi að þær hafa jafnvel leitt hugann að sjálfsvígi. Ég viðurkenni að ég sjálf fann fyrir hugsunum í þessa átt á mínum verstu dögum en sem betur fer gat ég bægt þeim frá mér.

Allir þurfa fræðslu

Það þarf að uppfræða lækna mun betur, þá sérstaklega heimilislækna því þar er fyrsti viðkomustaður okkar þegar eitthvað bjátar á. Það dettur fáum konum í hug að leita til kvensjúkdómalæknis þegar þær fara allt í einu að upplifa mígreni, hjartsláttarflökt, vöðvaverki, kvíða og þunglyndi. Þarna þarf heimilislæknirinn að vera vakandi og geta gripið inn í, annað hvort með því að veita viðeigandi meðhöndlun eða vísa konum á réttan stað. En ef heimilislæknar vita ekki að þetta geta allt verið einkenni breytingaskeiðsins þá er ansi hætt við að konur séu ranggreindar og meðhöndlaðar t.d. með kvíða- og þunglyndislyfjum í stað hormómameðferðar. En nýleg könnun í Bretlandi sýndi að í 60% tilfella þegar konur leituðu læknis vegna depurðar var þeim boðið upp á þunglyndislyf í stað hormónameðferðar, þrátt fyrir að leiðbeiningar heilbrigðiskerfisins segi annað.

 Með aukinni fræðslu, til bæði kvenna, heilbrigðisstéttarinnar og samfélagsins þá vonandi verður litið á breytingaskeiðið sem eðlilegt ferli í lífi kvenna og þannig myndast vonandi betri skilningur allstaðar í samfélaginu, líkt og þegar konur eru barnshafandi, það hafa allir fullan skilning á því og veita konum mikinn stuðning meðan á því stendur.

Fordómar og skilningsleysi verður ekki upprætt nema með fræðslu og umfjöllun og þar komum við konurnar sjálfar inn.  Við þurfum að vera óhræddar við að krefjast svara og viðeigandi meðferðar, vera óhræddar að tala um þetta við fólkið okkar, láta vita að okkur líður illa og biðja um skilning og umburðarlyndi.

Þegar ég horfi til baka finn ég svo til með konunum sem á undan hafa gengið, ég sé tengingarnar núna við þessa stóru alvarlegu sjúkdóma, man eftir konum sem hafa greinst með Alzheimers, þjáðst af beinbrotum vegna beinþynningar og hreinlega látið lífið af völdum ótímabærra hjartasjúkdóma.

Ég ætla að leggja mitt af mörkum til að það verði breyting á þessu málum, ég á fjórar dætur og vil ekki að þær þurfi að fara í gegnum vanlíðan og skert lífsgæði bara af því að ég sagði ekkert!

Halldóra heldur úti síðunni Kvennarad.is og er með frábæra Instagramsíðu með myndböndum þar sem hún fer ítarlega yfir þessi mál sem henni eru svo hugleikin. Mælum við eindregið með að konur kíki einnig á þessar síður! Linkur inná samfélagsmiðla Kvennaráðs í hnöppum hér fyrir neðan.

Leikur og sköpunarkraftur: Börn verða að kynnast verkum ÞYKJÓ

Leikur og sköpunarkraftur: Börn verða að kynnast verkum ÞYKJÓ

Leikur og sköpunarkraftur: Börn verða að kynnast verkum ÞYKJÓ

Fjórar framúrskarandi konur á sínu sviði sameinast í hönnunarverkefni sem öll börn verða að fá að kynnast. Á HönnunarMars stendur nú yfir sýning í Salnum, Gerðarsafni og Bókasafni Kópavogs sem er opin börnum og foreldrum frá 19.-23. maí.

Sköpunarverk ÞYKJÓ hafa það markmið að örva ímyndunarafl barna og sköpunarkraft í gegnum frjálsan leik. Þær vinna mikið með börnum, til að fá að vita hvað þau vilja og hvað þeim finnst skemmtilegt, mikil áhersla er lögð á samvinnu við börnin sjálf. Einnig leggja hönnuðirnir áherslu á að nota náttúruleg og endurvinnanleg efni, enda hafa þær skýra umhverfisstefnu í vinnu sinni.

Sigríður Sunna Reynisdóttir, leikmynda- og búningahönnuður og Ninna Þórarinsdóttir, barnamenningarhönnuður, hittu blaðakonur Mömmunnar í Kópavogi þar sem þær sýndu blaðakonum afrakstur vinnu sinnar.
Hinir meðlimir ÞYKJÓ eru þær Erla Ólafsdóttir, arkitekt og Sigurbjörg Stefánsdóttir, fatahönnuður og klæðskeri.

Hönnunarteymi ÞYKJÓ. Mynd: Sigga Ella

Kyrrðarrými: Kuðungur, ígulker og snigill

Hönnuðir ÞYKJÓ höfðu listamannadvöl í Stúdíó Gerðar í Gerðarsafni frá janúar til apríl 2021. Skúlptúrar eftir Gerði standa í rýminu og var listakonan ásamt vinnuferli hennar þeim stöllum mikill innblástur í hönnunarferlinu. Í rýminu standa þrjár hönnunarvörur, kuðungur, ígulker og snigill sem þær kalla Kyrrðarrými: Hvíldarhjúp fyrir börn. Enda geta börnin sest inn í Kyrrðarrýmin, lesið bók, slakað á eða leikið sér.

Fyrst unnu þær í ÞYKJÓ með litlar myndir, smálíkön í hlutföllunum 1:5, líkt og Gerður vann sína skúlptúra. Skólabörn í Kópavogi sem fengu að fylgjast með hönnunarferlinu sáu fyrst smálíkönin og fengu svo að sjá afraksturinn síðar: „Þetta var mikill lærdómur fyrir þau“ segir Sigríður Sunna. „Þau fengu innsýn í rannsóknar- og þróunarvinnuna, upplifðu eftirvæntingu að bíða eftir að verkið yrði að veruleika í raunstærð. Þau voru mjög spennt fyrir þessu og eru mörg hver að heimsækja safnið aftur með foreldrum sínum til að fá að prófa lokaútkomuna.“

Kuðungurinn. Takið eftir börðunum undir honum.
Mynd: Sigga Ella

Náttúrufræðistofa Kópavogs lánaði þeim ýmsa gripi og sjá má stærðarinnar kuðung í sýningarrýminu. Kuðungur stækkar, hring eftir hring, og það var í raun eins og kuðungurinn var unninn í ferlinu. Erla Ólafsdóttir arkitekt skoðaði ólíkar gerðir kuðunga og komst að ýmsu áhugaverðu ásamt því að fínpússa hugmyndina. Hægt er nefnilega að lesa í hringina hversu gamall kuðungurinn er, líkt og árhringi í trjám.

Kyrrðarrýmin voru unnin í samstarfi við smiðina Ögmund Jónsson og Luis Castillo Nassur og eru þau afskaplega tilkomumikil að sjá, litrík og mjúk viðkomu. Efnið er lífrænt vottaður harðtrefjaviður sem kallast Valchromat, en hann er gegnumlitaður með lífrænum lit. Nánastekkert er límt eða skrúfað, heldur er notað gamalt handverk, fleygar sem kallast japönsk samskeyti. „Okkur fannst spennandi að nota það. Bæði af fagurfræðilegum ástæðum og svo gegnir það praktísku hlutverki líka, heldur strúktúrnum saman“ segir Sigríður Sunna. Púðarnir í rýmunum hafa áklæði sem einnig eru endurunnin, unnin úr ull sem til fellur til úr tískuiðnaðinum í Ítalíu og er spunninn upp í nýja efnisstranga.

Kuðungur í vinnslu.
Mynd: Sigga Ella

Vísað er í náttúrufyrirbærin á leikrænan hátt í hverju rými fyrir sig – vísað er í brodda ígulkersins og barða kuðungsins í handverkinu, formin endurspegla náttúruna.
Rýmin hvetja til gæðastunda fyrir fjölskyldur, bjóða upp á hvíldarstund og að kúpla sig út…sem ekki er vanþörf á í hraða nútímasamfélagsins.

Fuglasöngvar

Næst er gengið inn í rými í Salnum og það er eins og að ganga inn í skóg, því fuglahljóð eru allsráðandi. Á gólfinu eru þrjú hreiður sem mannabörn geta fengið að prófa og hvíla í, alveg eins og litlir ungar. Börnin sem viðstödd eru í salnum eru augljóslega að njóta sín, slaka á, lesa bækur eða dunda sér með eggin. Eggin eru unnin úr textíl og gefa frá sér mismunandi fuglahljóð.

Slakað á í hreiðri
Mynd: Mamman

„Náttúran er svo magnaður hönnuður,“ segir Sigríður Sunna, og sýnir blaðakonum kassa með eggjum sem eru bæði pínulítil og risastór, í ólíkum litum og af ólíkri lögun sem Náttúrufræðistofa Kópavogs lánaði þeim til að hafa með í rýminu. Þær þurftu að leggjast í mikla rannsóknarvinnu hvað hreiður og egg varðaði og eftir þá rannsóknarvinnu fóru þær í samstarf við tónlistarkonuna Sóleyju Stefánsdóttur og forritaði hún hljóð fuglanna og vann með þau og setti í eggin. Svo er ýtt hér og þar á eggin, togað eða potað og þá heyrast fuglahljóð. „Svo er hægt að stilla eggjunum upp eins og hljóðfærum og búa til tónverk“ segir Sigríður. „Krökkum finnst ótrúlega gaman að leika sér með þetta.“

Allskonar egg.
Mynd: Sigga Ella

Upplýsingaskilti eru allsstaðar í hæð barnanna til fróðleiks, ásamt bókum um fugla.

Eggin stórskemmtilegu í vinnslu.
Mynd: Sigga Ella

Hreiðrin voru svo unnin í samstarfi við Blindravinnustofuna sem hafa áratuga reynslu af því að flétta körfur og vöggur úr tágum. Stefán B. Stefánsson, Denni, á Blindravinnustofunni vann þau ótrúlega hratt og vel, en hann var ekki vanur að vinna með svo óreglulegt form. Hann miðlaði sinni verkþekkingu til Ninnu sem mætti með honum klukkan fimm á morgnana í nokkrar vikur til að vefa hreiðrin.

Ninna vefar hreiður.
Mynd: Sigga Ella

Hreiðrin áttu að vera sem líkust alvöru hreiðrum og mjúk ull er í botninum eins og sumir fuglar nota þegar þeir búa til sín hreiður.

Með mörg egg í einu hreiðri.
Mynd: Mamman

Ofurhetjur jarðar: Búningalína fyrir börn

Í litlu herbergi innan af Bókasafni Kópavogs er svo búningaleikherbergi með búningum sem börn mega prófa og leika sér með. Samstarf ÞYKJÓ hófst með þessari búningalínu og allt efnið í búningunum er 100% endurunnið, ekkert nýtt efni er keypt í þá. Hönnuðirnir vinna í samstarfi við nokkur fyrirtæki á borð við Burstagerðina, Seglagerðina Ægi og Hampiðjuna og nýta afskorninga sem falla til hjá þeim. Hönnuðir ÞYKJÓ eru einnig í samstarfi við Rauða krossinn og kaupa efni þaðan til að endurnýta. Handverkið er ægifagurt og hönnunin sömuleiðis. Blaðakonu verður á orði hvort ekki sé hægt að fá búningana í fullorðinsstærð, svo skemmtilegir eru þeir.

Stórkostlega vandaðir og skemmtilegir búningar.
Mynd: Mamman

„Við vildum vinna þetta svona, það er ótrúlega mikil mengun í textíliðnaði. Hankarnir sem búningarnir eru hengdir á eru meira að segja unnir úr afskorningum frá Kyrrðarrýmunum, við viljum alltaf reyna að vera í sátt við umhverfið,“ segir Sigríður Sunna.

Gaman er að sjá börnin prófa búningana því allt þeirra atferli breytist. Þau fara að gefa frá sér hljóð, baða út öngunum og gogga jafnvel. Allt er þetta markmiðið í sjálfu sér – að örva hreyfiþroskann og einnig hvernig efnin eru viðkomu. Meðal búninganna er Ástarfuglinn og Feludýrið sem horfið getur inn í skel sína!

Sjáið hvað hún er flott!
Mynd: Mamman

Við hvetjum sem flesta til að gera sér ferð í Kópavoginn með börn á öllum aldri. Það er nefnilega svo gaman að leika sér.

Smellið á hnappana að neðan til að skoða Facebook- og Instagramsíður ÞYKJÓ 

Sigga Birna: Armbönd gerð af hlýju frá konu til konu

Sigga Birna: Armbönd gerð af hlýju frá konu til konu

Sigga Birna: Armbönd gerð af hlýju frá konu til konu

Sigga Birna er athafnakona sem heldur úti síðunni armbönd.is kynntist fyrirtækinu Nepali Vibe sem framleiðir afar falleg armbönd fyrir um fjórum árum síðan þar sem hún bjó í Kaupmannahöfn. Aðspurð hvernig hún kynntist þessum fallegu armböndum segir Sigga: „Ég sá konu þar á róló á Islandsbrygge og hún var með eitt af mínum uppáhaldsarmböndum á hendinni. Ég spurði hana hvar hún fékk það og hún skrifaði miða sem á stóð nafnið á Instagramsíðu Nepali Vibe og setti ég hann í veskið mitt. Ég var ekki með Instagram og kunni ekkert á það en gat ekki hætt að hugsa um hversu fallegt mér fannst armbandið. Svo fékk ég mér bara Instagram svo ég gæti haft samband við stelpuna sem var með þessi armbönd. Þannig byrjaði þetta allt saman hjá mér. Ég pantaði mér nokkur fyrst, svo gat ég ekki hætt! Svo þegar ég flutti heim til Íslands og var á leikskólanum að sækja krakkana mína þá sá ein stelpa þau á hendinni minni og alltaf þegar ég mætti henni spurði hún um armböndin!”

Sigga Birna

Sigga ákvað svo í júní 2019 að panta 200 armbönd og prófa þetta til gamans, en vinkona hennar plataði hana í það: „Fyrst var þetta bara til gamans og aðallega fyrir vini mína og fjölskyldu en svo varð áhuginn meiri og ég ákvað að gera eitthvað meira í þessu.“

Armböndin eru afskaplega falleg, til í öllum litum og hægt er að leika sér að því að setja þau saman og vera með eins mörg og fólk vill á hendinni. Nepali Vibe er nafn armbandanna og segir Sigga Birna að boðskapurinn sé: „Fallegur hugur, gert með hlýju frá konu til konu.“

Fyrirtækið sjálft hóf starfsemi fyrir sjö árum síðan í litlu fjallaþorpi í Nepal. Christina, sem er stofnandi og rekur fyrirtækið í Danmörku bjó í fimm ár í Kína þegar hún var að læra. Þar kynntist hún stelpu frá Nepal. Þegar hún heimsótti svo Nepal sjálf sá hún konur á götunum vera að perla svona falleg armbönd saman og varð strax svo hrifin af þeim. Þegar Christina kom aftur til Danmerkur ákvað hún að stofna fyrirtæki í Nepal til að styrkja konurnar og selja armböndin í Danmörku.

Vinkona hennar sá um að finna konur í vinnu, en þær voru sex heimavinnandi húsmæður, systur, frænkur og vinkonur. Þær hittust tvisvar í viku til að perla. Fengu þær bönd og perlur frá Nepali Vibe og algerlega frjálsar hendur, þær þurfa ekki að taka við skipunum frá neinum.

Nepali Vibe armbånd from Thomas Friis on Vimeo.

Sigga segir: „Þetta er svo gaman, við fáum alltaf allskonar munstur sem þær eru að hanna að vild, alltaf eitthvað nýtt. Þetta er handavinnan þeirra, í hverju armbandi eru yfir 1000 glerperlur og sum eru lausari, önnur fastari o.s.frv. Þau passa á allar hendur.“

Fyrirtækið er nú orðið sjö ára og hefur stækkað töluvert, enda nú 44 konur sem starfa hjá því. Þær fá um 30-40% af heildarsölunni. Nota þær peningana til að mennta börnin sín og komast af.

Armbönd.is

Soffía Bæringsdóttir: „Sumum samböndum er ekki ætlað að endast”

Soffía Bæringsdóttir: „Sumum samböndum er ekki ætlað að endast”

Soffía Bæringsdóttir: „Sumum samböndum er ekki ætlað að endast”

Soffía Bæringsdóttir er reyndur fjölskyldufræðingur og doula. Hún rekur fyrirtækið Hönd í hönd sem sinnir fjölskyldu- og parameðferð ásamt fæðingarstuðningi.

Soffía á þrjár stúlkur og er gift.

Við höfðum áhuga á að vita meira um starf Soffíu og þá sérstaklega pararáðgjöfina og var Soffía svo indæl að svara nokkrum spurningum.

Aðspurð segir Soffía að sennilega sé best fyrir pör að leita ráðgjafar þegar þau ná ekki að útkljá mál sín ein, en hvenær sé besti tímapunkturinn sé einstaklingsbundið: „Reynslan sýnir að því fyrr sem gripið er inn,í því líklegra er að náist að leysa málin. Einhverjar rannsóknir segja að pör komi í parameðferð sex árum eftir að þau átta sig á því að þau geta ekki leyst málin sjálf en mér finnst það oft vera frekar í kringum þriðja árið.

Soffía segir fólk ekki hrætt við að leita sér ráðgjafar: „Í dag eru pör og fjölskyldur líka nokkuð öflug í að leita ráðgjafar áður en að málin verða vandi sem er ánægjulegt svo það er allur gangur á þessu.“

Eru einhver pör útsettari en önnur til að upplifa erfiðleika í samskiptum?

„Mér finnst þetta erfið spurning því það er ekki gott að skipta fólki í flokka og öll pör geta lent í erfiðleikum, sambönd ganga í gegnum tímabil eins og flest í lífinu,en það eru ákveðnar áskoranir sem eru meira krefjandi, svo sem: Samsettar fjölskyldur, þegar annað eða bæði glíma við persónulegar áskoranir svo sem þunglyndi og svo reynsla fólks úr lífinu, uppeldi og fyrri samböndum.“

Er á einhverjum tímapunkti nauðsynlegt fyrir fólk að skilja og halda í sitthvora áttina og slíta samvistum?

„Já, tvímælalaust, sumum samböndum er ekki ætlað að endast og ástæðurnar fyrir því að best sé að halda hvort í sína áttina geta verið margar, frá því að upprunalega hafi verið stofnað til sambandsins á veikum grunni, fólk hafi vaxið í sundur, ítrekuð svik sem ekki er hægt að laga og ofbeldissambönd.“

Soffía Bæringsdóttir, fjölskyldufræðingur og doula

Hvað enda mörg sambönd/hjónabönd með skilnaði?

„Á Íslandi er talað um að allt að 40% sambúða sé slitið, 20% para slíta samvistum á fyrsta æviári barns.“

Áttu góð ráð fyrir pör sem er að vinna sig úr erfiðleikum til að byggja upp samband sitt?

„Fyrsta skrefið er að ná að taka skref til baka og kortleggja aðstæður sínar, samskiptamynstur og líðan. Fyrsta skrefið er að ná að fara úr vörn eða átökum og skoða hvað er í gangi, flestir sjá þá fljótt að samskiptamynstrið er mjög svipað,þó ný málefni komi upp. Um leið og maður áttar sig á að maður dettur í mynstur er hægt að byrja að vinna í því að brjóta mynstrið upp og meðvitað bregðast við á annan hátt.

Annað gott ráð er að gefa sér tíma og byrja á því að setja fókusinn á hvað það er sem maður sjálfur getur lagt í betra samband frekar en að bíða eftir því að makinn breytist,“ segir Soffía en tekur fram að taka verði ofbeldissambönd út fyrir rammann hér.

Hún heldur áfram: „Mörgum pörum hefur reynst vel að taka fyrir ákveðið þema eða efni og lesa/hlusta/horfa á saman og endurspegla út frá sínum samskiptum. Á íslensku má finna góð hlaðvörp, greinar hér og hvar og svo er nóg til að bókum um samskipti og sambönd. Lykillinn er að bæði taki þátt í verkefninu!“

Hvað eru óheilbrigð samskipti og hvað eru heilbrigð samskipti?

„Heilbrigð samskipti pars byggja á jafnræði og virðingu. Í heilbrigðu sambandi ná styrkleikar hvors um sig að skína, traust ríkir og parið leggur sig fram um að sýna gagnkvæman skilning og virðingu. Í heilbrigðu sambandi talar fólk oft um að makinn sé besti vinur þeirra, þau viti að þau geti fengið stuðning og hægt er að ræða málin. Langanir og þarfir beggja eru uppi á yfirborðinu og virtar og mörk og þörf fyrir prívatlíf virt.“ Hvað óheilbrigð samskipti varðar segir Soffía: „Óheilbrigð samskipti geta birst á ólíkan máta en í þeim er ekki jafnræði, andúð og niðurbrjótandi tal og oft miklar sveiflur.“

Er fólki einhver greiði gerður að halda sambandi áfram vegna barnanna?

„Ég held að heilt yfir sé fólk sammála um að börnum er ekki greiði gerður að foreldrar þeirra séu í sambandi þeirra vegna. Það setur mikla og óþarfa ábyrgð á börn. Þegar fólk á börn saman er það þeirra skylda að skoða samband sitt vel og bera ábyrgð á því til að sjá hvort það geti gengið- barnanna vegna en þegar ljóst er að svo er ekki er það ábyrgð og skylda foreldra að fara hvort í sína áttina. Mín reynsla er að fólk með börn hefur ítarlega og vandlega hugsað málið hvort sambandsslit séu besti kosturinn og komist að því að svo sé.“

Getur fólk byrjað á núllpunkti eftir heiftúðleg rifrildi og langvarandi deilur?

„Allt er hægt,“ segir Soffía, „en eftir langvarandi deilur er oft komin djúp gjá á milli fólks þar sem tengingin er farin og traustið lítið. Við hvert rifrildi verður sárið stærra og gjáin dýpri og lengra á milli fólks en með því að staldra við, með góðri aðstoð, miklum vilja og sjálfsvinnu er það hægt og fólk þarf að gefa sér tíma í það.“

Er eitthvað annað sem þú vilt koma áleiðis?

„Takk fyrir þína góðu vinnu!“

 

Drifkrafturinn er að skapa og miðla af reynslu

Drifkrafturinn er að skapa og miðla af reynslu

Nýverið opnaði María Gomez fallega lífsstílssíðu sem ber nafnið www.paz.is. María sem er ættuð frá Spáni, er ferðamálafræðingur að mennt, mikill áhugaljósmyndari og fagurkeri sem tekur flest allar myndir fyrir síðuna sína sjálf. Hún á einnig alveg einstaklega smekklegt og fallegt heimili sem fær oftar en ekki að njóta sín sem myndefni á síðunni hennar og instagramreikning Paz.is. María sem er 38 ára er gift Ragnari Má Reynissyni og móðir þeirra Gabríelu 18 ára, Reynis Leo 4 ára, Mikaels 3 ára og Viktoríu Ölbu sem er alveg að verða 2 ára. Í júlí 2016 keyptu María og Ragnar fallegt einbýlishús á Álftanesi fyrir fjölskylduna sem þau tóku allt í gegn og gjörbreyttu eftir sínu höfði.

María ætlar að deila með okkur hvernig hugmyndin að Paz.is varð til, segja okkur frá breytingunum á heimilinu og hvernig er að eiga þrjú börn með stuttu millibili. Hún ætlar einnig að gefa okkur uppskrift af girnilegum spænskum rétt.

Hvað varð til þess að þú opnaðir lífstílssíðuna paz.is, hver er þinn helsti drifkraftur og fyrirmynd og hvaðan er nafnið Paz komið frá?

Mig var búið að langa til að opna bloggsíðu í heilt ár áður en ég lét verða að því loksins í apríl sl. Þegar við stóðum í kaupferlinu á húsinu okkar var maður að láta sig dreyma og plana um hvernig við ætluðum að breyta því. Ég notaði mikið pinterest og erlend blogg sem ég fékk ýmsar hugmyndir frá og þar vaknaði áhuginn á að stofna mitt eigið blogg.

Mynd Anton Brink

Drifkrafturinn minn er í raun bara að fá að skapa, miðla af reynslu og koma með nýjungar hvað varðar mat og framkvæmdir og fleira. Mér finnst mjög gaman að, baka og elda, eiga börn, breyta og bæta á heimilinu og hef áhuga á heilsu og matarræði. Einnig finnst mér mjög gaman að skrifa og taka myndir og þarna fæ ég útrás fyrir alla þessa sköpun sem gefur mér mikla lífsgleði. Eftir að bloggið opnaði, þá er það enn meiri drifkraftur að sjá áhugann hjá lesendum og fá jákvætt feedback.

 Þegar ég var í ferlinu að hanna síðuna mína átti ég enn eftir að finna blogginu nafn. Mér datt einhvernveginn ekkert í hug, þar til einn daginn þá bara skaust nafnið á spænsku förðurömmu minni upp í kollinn á mér. Amma mín hét Paz og einnig uppáhaldsföðursystir mín sem ég er í miklu sambandi við. Báðar þessar konur eru miklar og góðar fyrirmyndir í mínu lífi. Ég hef lært mikið af þeim í lífinu og í eldhúsinu hjá þeim líka, en þær bjuggu alltaf saman þar til amma dó og voru og eru þvílíkt klárar í eldhúsinu. Þar sem ég ætlaði mér alltaf að hafa spænsku ræturnar mínar með á blogginu þá fannst mér nafnið Paz alveg tilvalið og er ég mjög ánægð með það, enda stutt og auðvelt að muna. Ég var svo heppinn að allt sem tengdist Paz, bæði instagramm og lén fyrir síðuna var laust og því var ekki að þessu að spyrja.

Nú keyptuð þið húsið ykkar í allt öðru standi en það er í dag, fylgdi ekki mikil vinna því að taka það allt í geng?

Jú þetta var algjör bilun frá upphafi til enda…..fyrst var algjört vesen allt í söluferlinu en við stóðum í svokallaðri keðjusölu þar sem voru fyrirvarar hægri vinstri í allri keðjunni og þrír mismunandi fasteignasalar. Mæli alls ekki með því. Ferlið tók rosa á og tók í allt 3 mánuði í allskyns óvissu og drama. Þegar það var svo allt klappað og klárt og húsið komið í höfn var maður eiginlega bara alveg orðin úrvinda. Síðan kom kappið við að finna iðnaðarmenn sem í dag er eins og að finna gull eða vinna í lottó. Því miður vorum við rosalega óheppin með okkar iðnaðarmenn sem höfði lofað öllu fögru og ekkert stóðst. Auk þess að vinnubrögðin lyktuðu af mikilli vanvirðingu fyrir verkinu og eigninni okkar. Eiginlega fór allt úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis og endaði það á því að við létum þá fara og tókum flest allt að okkur sjálf nema pípulagninga og flísavinnu. Allt annað gerðum við sjálf eins og að brjóta niður veggi, mála, parketleggja færa til og setja upp innréttingar og skápa og eiginlega bara allt sem þurfti að gera. Ferlið hefði getað orðið mjög skemmtilegt svo sem, nema tíminn sem við höfðum var frá 13. júlí til 1. ágúst til að klára allt það helsta svo pressan var gígantísk. Auk þess voru öll börnin okkar í sumarfríi og eiginlega flestir sem við þekktum. Svo það var enga hjálp að fá frá vinum eða ættingjum. Við stóðum því í þessu algjörlega tvö með Gabríelu elstu dótturina við hlið okkar sem passaði öll kvöld meðan við unnum bæði í húsinu. Á daginn vann Raggi algjörlega í húsinu meðan ég var heima með krakkana að pakka. Á kvöldin fórum við svo saman upp í hús að vinna og svona rúllaði þetta allar 3 vikurnar sem við höfðum. Mér leið oft eins og ég væri að taka þátt í Amazing race eða the block eða eitthvað því pressan var biluð á þessum tíma og man ég varla eftir honum! Á þessum tíma var yngsta barnið 8 mánaða og hinir árinu og tveimur árum eldri en hún. Við erum svo smátt og smátt búin að vera að klára húsið þar til s.l apríl en þá var því lokið hér að innan. Núna erum við svo að mála allt húsið að utan, en það er enginn pressa og bara gaman.  

Í dag líður okkur  frábærlega í húsinu og þá sér maður að allt erfiðið var algjörlega þess virði og að þetta mikla fall okkar í byrjun var okkur fararheill.

Þið eruð með þrjú ung börn, er ekki full vinna að skipuleggja heimilið og plana allt sem börnunum tengist, hvernig nærðu að halda góðu dagsskipulagi?

Jú þetta er alveg svakalega mikil og oftast skemmtileg vinna. Þetta krefst mjög mikillar skipulagni dagsdaglega og ef maður fer aðeins út frá skipulaginu eru hlutirnir fljótir að fara í klessu. Ef ég t.d. sleppi því að þvo þvott í eitt og eitt skipti þá hrannast allt upp og mín bíður stórt þvottafjall að klífa sem dæmi. Það eru margir sem eiga þrjú og fjögur börn og láta hlutina rúlla svo ég er kannski ekkert sérstök fyrir þær sakir að eiga 4 börn en það sem kannski gerir okkur frábrugðin er hvað er stutt á milli þrjú yngstu barnanna, en þau eru öll fædd á sitthvoru árinu á árunum 2013,2014 og 2015 sem er alveg svoldið bilað (hahaha).

Þetta er í raun alveg þrælmikið hark en við reynum að njóta þess og vera ekki að hugsa hluti eins og að geta ekki beðið eftir að þau verði eldri svo allt verði auðveldara.

Við erum mjög dugleg hjónin að vinna saman og plana allt og gera ” to do” lista sem við skiptum á milli okkar. Svo bara rúllar þetta og dæmið gengur upp. Núna eru allir krakkarnir í sumarfríi og þá er allt farið í klessu og ég eiginlega bara búin að henda öllu skipulagi tímabundið út um gluggan…..húsið er á hvofii og meira að segja garðurinn líka. Maður bara tekur djúpt andan og labbar í gegnum draslið og reynir eiginlega bara að komast í gegnum daginn, annars myndum við bara missa vitið. En á meðan leikskólarnir eru starfandi þá gengur þetta bara afsklaplega vel allt saman.

Nú áttu mjög fallegt heimili sem er einstaklega stílhreint og hvítt. Hvernig gengur að vera með þrjú lítil börn og halda öllu hreinu og fínu?

Það gengur vel en þó misjafnlega samt. Virku dagana er lítið mál að halda húsinu í standi en um helgar fer allt í klessu og á hvolf og þá bara er það þannig…ég er alveg búin að sætta mig við það. Við reynum samt svoldið að kenna krökkunum að ganga frá eftir sig og setja allt á sinn stað aftur. Hengja upp eftir sig yfirhafnir og raða skóm og þ.h. Einnig setjum við þeim fyrir verkefni sem þau ráða við eins og að leggja á borð eða hjálpa til við að setja í uppþvottavél og annað. Það getur munað svo miklu að kenna krökkunum að ganga frá og verður það partur af þeirra rútínu. Einnig reynum við að kenna þeim að ganga um hlutina eins og sófann sem er hvítur en þau vita að þau mega ekki fara með matvæli í sófann og virða það alveg. Ég myndi segja að það gangi vel að halda öllu svona yfirborðsfínu eins og drasli í skefjum og ryki….en viðurkenni þó að maður er svoldið mikið í kattarþvottinum með svona marga litla krakka meira en í stórum hreingerningum algjörlega vegna anna og tímaskorts.

Þú ert ættuð frá Spáni, myndir þú segja að uppskriftirnar þínar og stíll sé undir spænskum áhrifum?

Já algjörlega, ég reyni alltaf að setja inn spænskar uppskriftir en ég hef alltaf frá því ég byrjaði að elda sjálf eldað spænskan mat. Þegar ég flutti til Íslands 5 ára gömul saknaði ég mikið matarins á Spáni. Þá var ekki auðvelt að kaupa í spænskan mat á þeim tíma, en í hann þarf oft sjávarrétti  eins og heilar rækjur með haus, skelfisk  og grænmeti sem þá fékkst ekki í búðunum hér heima. Þá var mest til hvítkál, guldrætur og rófur. Það er alveg ótrúlegt að hugsa um það hvað er stutt síðan að við fengum fjölbreyttar tegundir af grænmeti í verslanir hér heima. Mér fannst íslenski maturinn mjög skrítinn og átti erfitt með  að borða kjötfars og fiskibollur og þ.h. og því var ég ekki lengi að taka upp á spænskri matseld þegar fjölbreytnin í búðunum jókst og ég fór að búa sjálf.

Hvað stílinn á heimilinu varðar myndi ég segja að hann sé ekki mjög suðrænn í þetta skiptið þar sem hann er mjög skandinavískur en þar sem við bjuggum áður en við fluttum hingað var heimilið undir spænskum áhrifum já. Svo hef ég alltaf haldið fast í spænskar hefðir eins og t.d. að setja eyrnalokka strax í stelpurnar mínar þegar þær fæðast en báðar fengu þær eyrnalokka nokkra daga gamlar. Sú eldri 8 daga og hin 5 daga gömul. Amma mín Paz hafði gefið Gabríelu fyrstu lokkana og fékk sú yngri þá líka í eyrun svo Amma Paz er okkur alltaf efst í hjarta með marga hluti.

Viltu gefa okkur eina góða uppskrift af spænskum rétt?

Já endilega, rétturinn sem ég ætla að gefa ykkur uppskrift af kallast Arroz con Pollo eða Hrísgrjón með kjúkling. Þessi réttur er svona stóra frænka Paellunar en hann er mjög svipaður henni nema meira svona hversdags og eldaður mun oftar en Paella á spænskum heimilum.

Arroz con Pollo

  • 1 bakki af úrbeinuðum kjúklingalærum
  • 1 græna papríku
  • 1-2 rauðar papríkur
  • 1 lauk
  • 1 hvítlauk
  • 1 bolla af grænum baunum (ég nota frosnar)
  • 1 -2 kjúklingasoðstening
  • 1 fiskisoðstening
  • 1-2 stóra tómata eða 5-7 litla plómutómata
  • 1 og hálft glas af grautarhrísgrjónum (mjög mikilvægt að þessi grjón séu notuð, keypti mín í Hagkaup)
  • 4 vatnsglös
  • Gulan lit sem kallast colorante (fæst ekki hér á Íslandi en hægt er að nota saffran frá Costco eða Turmerik fyrir litinn eða kippa colorante með sér heim úr sumarfríinu á Spáni en það fæst í öllum súpermörkuðum á Spáni)
  • Salt og pipar
  • ½ dl Ólifuolíu

 

Aðferð 

  • Skerið laukinn í smátt og merjið hvítlaukinn.
  • Skerið papríkurnar í langa þykka strimla og tómatana í litla bita
  • Sneiðið lærin í tvennt
  • Hitið ólífuolíu á stórri pönnu og setjið lauk og hvítlauk út á og saltið létt yfir og piprið.
  • Þegar laukurinn er orðin mjúkur setjið þá papríkurnar og tómatana út á og saltið aftur létt yfir og leyfið þeim að mýkjast við vægan hita. Passið að brenna ekki laukinn.
  • Næst er svo kjúklingurinn settur yfir allt á pönnuna og hrært í öllu og saltað og piprað aftur. Þegar kjúklingurinn er aðeins byrjaður að hvítna setjið þá grjónin yfir allt og hrærið vel í svo þau blandist vel saman við hin hráefnin.
  • Hellið nú grænum baunum yfir allt saman.
  • Næst er svo vatnið soðið í katli og teningarnir leystir upp í því. Því er svo hellt út á allt saman og hrært í síðasta skitpið saman. Athugið ekki hræra í réttinum neitt meir á meðan hann er að sjóða.
  • Látið sjóða í 25 mínútur við vægan hita.
  • Þegar rétturinn er til eiga grjónin að vera orðin mjúk og smá aukasoð á að vera á honum, ekki hafa áhyggjur af að vatnið sé ekki allt gufað upp því svona á hann vera.

 Berið svo fram með góðu snittubrauði sem er gott að dýfa í soðið!

Við þökkum Maríu Gomez kærlega fyrir að gefa sér tíma til að svara spurningum okkar og gefa okkur þessa grinilegu uppskrift! Eins óskum við henni til hamingju með flottu bloggsíðuna sína www.paz.is 

 

Auður Eva Ásberg

 

Arite Fricke flugdrekahönnuður

Arite Fricke flugdrekahönnuður

Nafn: Arite Fricke
Nokkur hlutverk: Flugdrekahönnuður, grafískur hönnuður, kennari, nemandi og mamma
Hjúskaparstaða: Gift
Börn: Magnús 10 ára og Heiðrún 8 ára.

Hver er þinn náms og starfsferill?

Ég lærði skiltagerð og lauk sveinsprófi árið 1997 í Þýskalandi og útskrifaðist sem grafískur hönnuður árið 2001 frá Fachschule für Werbegestaltung í Stuttgart. Ég vann aðallega sem grafískur hönnuður bæði á auglýsingastofum og heima sem freelance hönnuður. Árið 2010 hlaut ég postgraduate diploma í International Hospitality Management og vann bæði á hótelum og ferðaskrifstofum til 2013. Ég fór síðan aftur í skóla árið 2013 og kláraði meistaranám í hönnun frá LHÍ árið 2015. Undanfarið hef ég verið að kenna skapandi flugdrekagerð og klára diplomanám í listkennslu frá LHÍ og útskrifast þaðan í júni 2016.

Það er fyrirhugað að ég muni kenna sumarnámskeið í Myndlistaskólanum í Reykjavík, Listasafni Árnesinga og í Búðardal núna næsta sumar, svo það verður mikið um að vera hjá mér á næstunni!

Hvernig tekst þér að sameina foreldrahlutverkið vinnunni?

Það krefst mikils skipulags og hæfileika til að vera í núinu. Vera vakandi fyrir því hvað er nauðsynlegt og hverju má sleppa. Við deilum áhuga á  flugdrekum sem fjölskylda. Það er verið að pæla í eðlisfræðilegum lögmálum þegar flugdrekinn er smíðaður, prófa ný efni eða liti eða bara að vera úti og velja besta flugdrekan fyrir vindinn þann daginn. Í sumarfríinu förum við lika saman að veiða og ætlum að reyna að vera að minnsta kosti eina viku í sumar í tjaldvagni. Svo er Magnús oftast úti með vinum sínum á þeim fótboltavöllum sem eru nærri miðbænum. Heiðrún er hestaáhugastelpa og er hún á námskeiði einu sinni í viku.

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum virkum degi?

Við borðum alltaf saman morgunmat, svo fer ég gangandi eða hjólandi í skólann ef veður leyfir. Ég er að klára námið og þarf að skrifa mikið. Svo er ég lika að pæla mikið í flugdrekunum, að reyna finna minn eigin stíl. Ég mun halda sýningu í lok maí svo það er nóg að gera! :-).  Seinni partinn eða eftir klukkan fjögur á daginn kem ég heim og er með krakkana. Þá er smá leiktími heima svo er lestur eða annar heimalærdómur. Á kvöldmatartíma eldum við mat og eftir matinn er svo fljótlega farið í rúmið til að lesa fyrir svefninn. Við hjónin horfum oft saman á bæði íslenskar og þýskar fréttir á netinu þar sem við erum ekki með sjónvarp. Stundum horfum við líka á þýska spennuþætti en ég fer eiginlega aldrei seint að sofa. Nægur svefn er mér mjög mikilvægur.

Hvað finnst ykkur gaman að gera um helgar?

Við höfum byggt okkur hús í sveitinni. Það er bara frábært að hafa þann möguleika að skreppa úr bænum og breyta til. Þarna er ýmislegt hægt að gera. Við erum mikið fuglaáhugafólk og bíðum spennt eftir vorinu, og t.d. núna í vetur höfum við séð uglu og ref á sveimi. Við förum mikið í sund og erum úti eins mikið og hægt er, t.d. við smíðar, í gönguferðum eða bara í frjálsum leik.

Geturðu lýst í stuttu máli muninum á þínum uppvexti og svo uppvexti barnanna þinna?

Heiðrún með hestana sína tvo sem hún sinnir vel

Þegar ég var að alast upp í sósialísku ríki Austur-Þýskalands var mikill agi og lögð áhersla á að uppfylla reglur og væntingar samfélagsins. Það þótti ekki gott að tjá sig um eða hafa eigin skoðanir á ákveðnum málum ef þær stönguðust á við stefnu stjórnvalda. Í náminu minu undanfarin þrjú ár gekk ég í gegnum þá mikilvægu og stundum erfiðu vinnu að finna “sjálfa mig” og mitt hlutverk utan heimilis og hvað mig langaði virkilega að gera.

Við sem foreldrar leggjum hinsvegar mikla áherslu á að leyfa börnunum að rækta sín áhugamál og byggja upp sjálfstraust og góða sjálfsmynd. Mér finnst mikilvægt að virkja þau til að hugsa sjálfstætt og finna lausnir og svör við ýmsum spurningum sjálf í staðinn fyrir að við sem foreldrar séum að mata þau. Einnig kennum við þeim að bera virðingu fyrir öðrum og skoðunum þeirra, en standa samt með sjálfum sér.

Hvað er framundan hjá þér?

Ég er að þróa áfram meistaraverkefni mitt Hugarflug eða Playful Workshops. Ég mun kenna á ýmsum stöðum í vor og sumar eins og í Gerðubergi, Listasafni Árnesinga í Hveragerði, í Búðardal. Einnig verð ég með sumarnámskeið í Myndlistaskólanum í Reykjavík.

Ég fékk nýsköpunarstyrk fyrir hugmynd um náms- og kennsluvefinn Loft- og Vatn þar sem ég mun safna flottum verkefnum sem kennarar eru að vinna með nemendum sínum þar sem þeir nýta sér vind- eða vatnsorku. Þessi vefur á að veita innblástur fyrir kennara, nemendur og foreldra þar sem fræðsla og leikgleði sameinast.

Verkefnin eru mörg en spennandi og snúast um það sem mér þykir skemmtilegast að gera. Ég er þakklát fyrir það.

DSCF4143

Vefur Arite: hugarflug.net

Viðtal tók: Helga Óskarsdóttir
Ljósmyndir: Una Haraldsdóttir

Pin It on Pinterest