Átta góð ráð til að halda ró sinni sem foreldri

Átta góð ráð til að halda ró sinni sem foreldri

Átta góð ráð til að halda ró sinni sem foreldri

Að vera foreldri er streitufullt og það er varla augnablik þar sem hægt er að slaka algerlega á. Hugurinn er á sífelldu iði og einhver þarf alltaf eitthvað frá okkur. Stundum virðist sem foreldrar hafi ofurkrafta miðað við allt sem þeir koma í verk, en það er samt ekki svo.

Þegar foreldrahlutverkið reynir virkilega á, slæmur dagur á sér stað getur skapið fokið út í veður og vind.

Þegar við finnum að slæma skapið er á leiðinni er það oftast því hlutirnir gengu ekki alveg eins og áætlað var. Kannski var það í okkar valdi, kannski ekki. Verum bara hreinskilin – fullt getur farið úrskeiðis á degi hverjum!

Barnið er að taka bræðiskast…aftur

Þið eruð of sein í skólann…aftur

Enginn hlustar…enn og aftur

Barnið hreytti í þig ónotum…aftur

Þið sjáið mynstrið hér, enda þekkja þetta allir foreldrar. Suma dagana viljum við bara öskra, fara aftur upp í rúm eða keyra á ókunnan stað og byrja upp á nýtt! Þessir dagar eiga sér stað, og það er eðlilegt. Þú ættir samt ekki að þurfa að þjást því geðheilsan þín skiptir fjölskylduna miklu máli og hvernig þú átt við streitu er stór hluti andlegrar vellíðanar. Breyttu sjónarhorninu og eigðu þessi ráð í „verkfæratöskunni“ upp á að hlaupa.

1. Settu mynd á

Ef dagurinn virðist vera á leið með að verða óstöðugur er engin skömm í því að setja bara mynd í tækið. Ef foreldrar hefðu getað, hefðu þeir líka gert það á öldum áður. Láttu alla vera sammála ef hægt er og þá verða allir ánægðir og gleyma sér. Ef þig langar ekki að sjá myndina geturðu laumast í burt og notið einverunnar.

2. Búðu til heitan drykk

Sumir foreldrar lifa á kaffi. Ef þú átt slæman dag, gerðu þér dagamun og búðu til kakó eða kauptu bolla á kaffihúsi. Andaðu að þér ilminum og njóttu. Auka koffín gerir oft gæfumuninn og getur breytt deginum fyrir þig. Stoppaðu allt sem er í gangi og hugsaðu um þig í nokkrar mínútur.

3. Gefðu knús

Nei, ekki bara til hvers sem er, heldur faðmaðu krakkana og fjölskylduna! Eitt einfalt faðmlag sleppir endorfíni til heilans og þú verður rólegri og glaðari. Ef þú ert að verða reið/ur og í slæmu skapi, taktu börnin í fangið. Þú ert foreldrið og þau vilja sjá þig sýna ástúð fremur en reiði. Knúsið hjálpar ykkur báðum og breytir skynjuninni.

4. Slepptu tökunum

Stór hluti foreldrahlutverksins snýst um stjórnun. Þú stjórnar heimilinu og krökkunum. Þú fylgist með athöfnum, keyrir til og frá með þau, þarft að muna hvað hverjum finnst gott að borða, og það sem mamma eða pabbi segir, það á að standa. Ef þú ert leið/ur eru allir leiðir. Ef dagurinn er ekki að fara samkvæmt áætlun, taktu djúpan andardrátt, slakaðu á öxlunum og slepptu tökum á stjórninni. Þú stjórnar kannski ekki deginum en þú getur stjórnað hvernig þú bregst við honum. Bregstu við af reisn og hógværð.

5. Farið út

Erfiðasta sem foreldrar ganga í gegnum þegar þeir eiga slæman dag er að komast úr þessu vonda skapi. Það er stundum erfitt inni á heimilinu. Breyttu því um umhverfi og farið út úr húsinu. Það getur hreinlega bjargað deginum. Þó það sé bara að fara út í garð, skiptir það samt máli. Krakkarnir hlaupa um og ferskt loft hjálpar öllum.

6. Leggðu þig

Þegar þú ert með litla krakka er kannski erfiðara en að segja það að leggja þig. Ef þú ert samt heima með makanum, vinkonu eða eldra barni er kannski sniðugt að leggjast inn í rúm, þó það sé ekki nema 20 mínútur. Leggstu niður, lokaðu augunum og ýttu á „reset“ takkann! Taktu djúpa andardrætti, hægðu á önduninni.

7. Jóga

Ef þú kannt jóga er það alger snilld. Settu myndband á YouTube og fáðu krakkana með, ef þeir geta. Teygðu þig og fáðu blóðflæðið í gang. Yogi Approved hefur allskonar hreyfingar fyrir upptekna foreldra að gera með börnunum sínum. Þannig breytirðu andrúmsloftinu á heimilinu og það hjálpar líka við þennan bakverk! Þú getur losnað við heilmikið af streitu með jógaæfingum.

8. Biðstu afsökunar

Það er mjög gott fyrir foreldra að biðja börnin hreinlega afsökunar ef þeir hafa gengið of langt. Þó að þú hafir ekki verið að garga, útskýrðu fyrir þeim að þú eigir slæman dag og þú viljir ekki að það bitni á þeim. Skap foreldranna hefur áhrif á alla á heimilinu og getur hangið eins og þrumuský yfir öllu. Biddu þau afsökunar og kenndu þeim að það er í lagi að eiga slæman dag, en ekki taka tilfinningarnar út á öðrum.

 

 

Ættirðu að halda sameiginlega veislu fyrir barnið með fyrrverandi?

Ættirðu að halda sameiginlega veislu fyrir barnið með fyrrverandi?

Ættirðu að halda sameiginlega veislu fyrir barnið með fyrrverandi?

Ef ósk barnsins er að halda sameiginlega afmælisveislu en foreldrarnir hafa slitið samvistum og kemur ekki saman – hvað er þá til ráða?Foreldrar sem hafa skilið getur annaðhvort: A) Komið vel saman, eða B) Ekki komið vel saman. Þetta vita flestir þeir sem hafa skilið.Sum börn halda í þá hugmynd að allir geti verið vinir, en hvað er til ráða ef slík staða kemur upp?

Þetta er klassísk foreldraklemma, þarfir og óskir barnsins eru þvert á það sem þeir fullorðnir vilja. Auðvitað er skiljanlegt að barnið vilji hafa sína nánustu í kringum sig til að halda upp á stóra daginn, hvort sem um afmælis- eða fermingarveislu eða álíka er að ræða.

Stundum er undirliggjandi ósk barnsins að allir komi saman og hafi gaman, undir sama þaki og bara helst alltaf! Raunin er hinsvegar sú í foreldraheimi að hinir fullorðnu hafa haldið áfram með líf sitt og eru oftast sáttir að vera án hins aðilans. Þetta getur verið bæði flókið og alvarlegt og er mjög einstaklingsbundið.

Sumir sérfræðingar segja að þarfir og óskir barnsins ættu að vega meira en hinna fullorðnu, en í svona tilfelli er kannski „ekkert rétt svar.“ Það eru mismunandi leiðir að taka þessa ákvörðun þannig best er að hugsa málið alveg í gegn. Þú þekkir þitt barn og fjölskyldumeðlimina best, þannig best er kannski að hugsa málið til enda.

Kostur a) Halda sameiginlega veislu

Til að reyna að fá sem besta útkomu þarf að „ofhugsa“ dálítið (oftast er það ekki gott fyrir geðheilsu fullorðinna, en þetta snýst um eitt skipti!)

Þú gætir þurft að upphugsa einhvern ramma og jafnvel reglur (ekki tala um pólitík eða bannað er að rifja upp leiðindaatvik fyrir 10 árum sem allir fara að rífast um). Slíkt myndi algerlega eyðileggja daginn og það þarfnast mikillar íhugunar af þinni hálfu hvaða reglur þyrfti að setja til að allir hegðuðu sér sem best. Þannig þarf að komast að samkomulagi við gestina og þeir þurfa að vera sammála og það verður að vera hægt að treysta hinum aðilanum/aðilunum. Eins og áður sagði – þú verður að vega og meta hvort þetta sé möguleiki.

Þar að auki gætirðu skipulagt viðburðinn þannig að lítil hætta sé á árekstrum (að koma með skemmtiatriði, leik eða eitthvað álíka) svo allir geti bara fylgst með og þurfi ekki að lenda á „tjatti.“

Hafðu tímatakmörk („afmælið mun standa yfir frá 15-17). Þá er minni hætta á að fólk fari að dvelja lengur og barnaafmæli ættu svosem ekki að vera mikið lengur en tveir tímar.

Svo er líka gott að undirbúa barnið og útskýra á því máli sem það skilur að stundum séu samskipti fullorðinna erfið eða á einhvern hátt og þeim finnist kannski ekki skemmtilegast í heimi að vera í kringum hvort annað. Þú þarft ekki að fara út í smáatriði, bara koma því til skila á snyrtilegan hátt. Það sem máli skipti að þau elski barnið öll og ef einhver fari í fýlu sé það ekki barnsins vegna.

Kostur b) Ekki halda sameiginlega veislu

Þetta er síðan seinni kosturinn. Aftur – þar sem þú þekkir fjölskylduna best veistu hvað gæti gerst og gæti það endað á að eyðileggja afmælisveislu barnsins. Sem er sennilega verra en að þurfa að útskýra fyrir barninu af hverju það fær ekki veisluna sem það óskar.

Það getur verið að þú treystir þér ekki í slíka samkomu og streitan sem samskiptin kunna að valda eyðileggi fyrir þér getuna til að halda öllu saman og á góðu nótunum. Sem gerir það svo að verkum að þú getur ekki verið til staðar fyrir barnið, sem er það mikilvægasta. Þrátt fyrir að þetta sé veisla barnsins, en ekki þín veisla, þarftu að vera til staðar og halda góða skapinu. Það er líka erfitt að halda afmæli, jafnvel undir bestu kringumstæðunum.

Barnið kann að vera of ungt til að skilja slíkan samskiptavanda en sé barnið líka viðkvæmt getur samkoma sem þessi líka haft neikvæð áhrif á það.

Stundum – með því að gefa ekki eftir ósk barnsins gerir þetta bærilegra, bæði fyrir barnið og þig.

Þú getur sagt: „Nei, það mun ekki virka að halda afmælið með mömmu þinni/pabba þínum,“ en best er auðvitað að útskýra á því máli sem barnið skilur að fólk sé hamingjusamara án samskipta við hvert annað.

Þannig geturðu vonandi komið í veg fyrir suð, árekstra eða bræðisköst.

Enginn sér fyrir hvernig viðburðurinn myndi fara, en best er að gera hið besta úr hvorri ákvörðuninni sem þú tekur. Minntu sjálfa/n þig á að þú ert að hugsa um það besta fyrir barnið (eins og 90% af uppeldi snýst um!). Mundu að hugsa um báðar hliðar og barnið fær veislu og þú færð að fagna tilveru þess.

 

Isabel Anne vinnur með Christian Bruun: Sættist loks við námið og vinnur nú sem leirgerðarkona

Isabel Anne vinnur með Christian Bruun: Sættist loks við námið og vinnur nú sem leirgerðarkona

Isabel Anne vinnur með Christian Bruun: Sættist loks við námið og vinnur nú sem leirgerðarkona

Isabel Anne er útskrifaður dýrafræðingur frá Háskólanum í Glasgow sem ákvað síðan að venda kvæði sínu í kross og skella sér í diplomanám á keramikbraut í Myndlistarskólanum í Reykjavík. Eftir útskrift í Myndlistaskólanum lá leið hennar til Kaupmannahafnar þar sem hún hefur dvalið síðastliðna mánuði sem lærlingur hjá Christian Bruun sem er einn af virtustu leirlistamönnum Danmerkur. 

„Vinnan mín fyrir Christian er endalaust fjölbreytt, það er aldrei leiðinlegt! Hann hefur verið ótrúlega styðjandi yfirmaður og vill að ég læri af þessari vinnu ásamt því að stækka mína eigin sköpun og finna leið til að ég geti orðið sjálfstæð”, segir Isabel þegar við spurðum hana hvernig það er að vinna fyrir svona virtan hönnuð.

Aðspurð segist Isabel illa geta skilgreint hvaðan hún er, en reynir þó: „Ég er spænsk/ensk, fædd og uppalin í Belgíu en ég hef búið á svo mörgum stöðum í gegnum tíðina að það er erfitt að segja hvaðan ég er, nákvæmlega! Ég bý eins og er í Kaupmannahöfn þar sem ég er að vinna að verkefni sem styrkt er af Erasmus+ og er nú lærlingur hjá leirlistamanninum Christian Bruun. Ég vonast til að geta unnið sem leirgerðarkona í hjáverkum í framtíðinni, að vinna mína eigin listmuni og selja þá á netinu,” segir Isabel.

Sættist að lokum við dýrafræðina

Þegar leitað er eftir hvaðan Isabel fær innblásturinn segir hún hann alltaf leita í bakgrunn hennar í dýrafræðinni: „Þegar ég var á síðasta árinu mínu í náminu að skrifa lokaverkefni og læra fyrir lokaprófið hataði ég dýrafræðina. Ég þurfti að finna einhverjar flóttaleið og þannig uppgötvaði ég leirinn. Á fyrsta árinu mínu í MÍR (Myndlistarskólinn í Reykjavík) vildi ég ekki að dýrafræðin yrði minn aðalinnblástur, ég ýtti því frá mér. Sérstaklega þar sem þessar stressandi minningar frá því að klára námið voru mér ferskar í minni.” 

„Á þessum árum þar sem ég var að læra í MÍR sættist ég við að þó námið í dýrafræðinni hafi verið tilfinningalega krefjandi, elskaði ég fagið samt sem áður. Ég held að það sé erfitt að deila um að nokkurn listamann sé að finna sem EKKI sækir innblástur sinn í náttúruna. Allavega ÞEIRRA útgáfu af náttúru, umhverfið í kringum þá eða landslagið sem þeir sækja í. Náttúran er bara þannig afl allt í kringum okkur sem allir finna fyrir, og það er mjög kraftmikið afl til sköpunar.”

„Dýrafræðin gerði mér kleift að stúdera þennan kraft á mjög vísindalegan, sundurskorinn og magnvirkan hátt. Að vinna með leir leyfir mér að skilja náttúruna á þennan hátt, án hafta og stífra vísindalegra mælinga.” 

„Útskriftarverkefnið mitt hjá Mír var kallað Architecture for Insects (fornleifafræði handa skordýrum) og það var algerlega og skammarlaust innblásið af námi mínu í dýrafræði. Það verkefni var í raun ég að sætta mig við að ég ætti ekki að skammast mín fyrir það sem ég gerði áður en ég varð listamaður. Að það sé ekki listfræðilegt nám, þýðir ekki að listfræðilegt sé ekki „nytsamlegt.” Segir Isabel og heldur áfram.

„Það sem ég áttaði mig á í þessu verkefni að gerði mig öðruvísi var þessi fortíð og þessi bakgrunnur og þessvegna væri ég einstök sem leirkerasmiður. Það er tvískipting í persónuleikanum mínum, bæði sem vísindamaður og sem listamaður og ég fann loksins leið til að láta þetta tvennt vinna saman til að verða styrkur minn og innblástur,” segir Isabel.

En af hverju kallaði leirinn á hana?

„Leir er svo sérstakur. Það er engin önnur leið til að lýsa honum. Hann hefur ótrúlegt aðdráttarafl, lofar svo mörgu, veldur endalausum vonbrigðum, og samt gefur þér eitthvað alveg einstakt, það er ótrúlegt. Það getur tekið mannsævi að fullgera leirverk og samt er eiginlega ekki hægt að segja að einhver geti fullkomnað það. Leirinn er sinn eigin meistari, og hann gerir oft það sem hann vill.”

„Ég held að það sé það sem dregur mig helst að honum. Það er þetta óþekkta og endalausa lærdómskúrva, maður vonast eftir litlum óvæntum hlutum sem koma oft með ánægjulegum slysum,” segir Isabel og brosir.

Nú hefur þú opnað þína eigin vefsíðu með hönnuninni þinni, segðu okkur frá því og framtíðarplönunum.

„Ég er nú á síðustu viku í Erasmus+ verkefninu og mér finnst að þetta sé bara byrjunin. Ég er með svo mörg spennandi járn í eldinum, sérstaklega námskeiðin sem ég mun halda í stúdíóinu hans Christians í sumar og öðrum keramikstúdíóum í Kaupmannahöfn (Yonobi og Let’s Clay). Að vinna með leir er eitthvað sem hefur komið mér í gegnum erfiða tíma og ég vil geta gefið öðru fólki þessa sömu tilfinningu,” segir Isabel einlæg.

„Að vinna sjálfstætt og sem listamaður er ekki eitthvað sem þú myndir tengja við „fjárhagslega velgengni.” En ég áttaði mig fyrir löngu síðan að ég myndi frekar vilja gera eitthvað sem ég elskaði og léti mig brosa þegar ég vakna á morgnana frekar en að vinna vinnu sem borgar reikiningana en mér liði ömurlega. Sem betur fer hefur Kaupmannahöfn svo mörg tækifæri og það er borg sem getur virkilega virkað fyrir sjálfstætt starfandi fólk og listafólk sem vill búa til list og lifa á henni. Það eru ekki margir þannig staðir í heiminum.” 

„Í dag er ég að skapa nýja línu sem ég er mjög spennt fyrir og ég get ekki beðið með að deila henni með fólki. Ég get ekki beðið eftir að halda ferðalaginu áfram og sjá hvert leirheimurinn tekur mig, “ segir Isabel að lokum.

Samfélagsmiðlahnappar hér fyrir neðan eru beint inná Instagram & Facebook hjá Isabel.

Heiðdís Halla: „Helmingsblanda af heimsborgara og sveitatúttu“

Heiðdís Halla: „Helmingsblanda af heimsborgara og sveitatúttu“

Heiðdís Halla: „Helmingsblanda af heimsborgara og sveitatúttu“

Heiðdís Halla rekur hönnunarfyrirtæki á Egilsstöðum og heldur úti vefsíðunni www.artless.is þar sem hún selur sína fallegu hönnun. Mamman var að skrolla á Instagram, eins og svo oft áður, í leit að skemmtilegum viðmælendum þegar hún rakst á reikninginn hennar Heiðdísar Höllu. Við fengum að senda á hana nokkrar spurningar og hér situr hún fyrir svörum. 

Hver er Heiðdís Halla?

„Ég er helmingsblanda af heimsborgara og sveitatúttu. Ég er fljótfær með fullkomnunaráráttu. Mamma segir að ég sé „fegurðarsjúklingur”, það er líklega rétt hjá henni. Ég trúi því að maður eigi að gera það sem mann langar, fylgja hjartanu, það gerir það enginn fyrir mann þó svo gott fólk geti stutt mann áfram,” segir Heiðdís og heldur áfram.

„Ég er uppalin á Egilsstöðum, farin að heiman sextán ára með fiðrildi í maganum. Hef búið síðan á Akureyri, í París, Kaupmannahöfn, Reykjavík, og er nýlega flutt aftur heim í faðm fjölskyldunnar á Egilsstöðum og verð hér þangað til annað kemur í ljós.

Ég hef tekið að mér allskonar verkefni og hef unnið á mörgum stöðum. Flugfreyja, þjónustufulltrúi í banka, hótelstýra, ræstitæknir, afgreiðsludama í sjoppu og verslunarstjóri í tískubúð, kennari svo eitthvað sé nefnt. En ég er með stúdentspróf af málabraut Menntaskólans á Akureyri, með BA próf í frönsku og diplóma í kennslufræði. Ég elska að kenna. Ég er líka menntaður grafískur hönnuður. Ástríða mín er að skapa og hanna. Ég held að minn kaótíski lífstíll og stefna hafi gefið mér skilning og næmni á alls konar fyrirbæri og fólk sem nýtist mér í minni sköpun,” segir Heiðdís. 

„Í dag rek ég mitt eigið hönnunarfyrirtæki á Egilsstöðum og vefverslunina www.artless.is þar sem ég sel mína eigin hönnun.“

Segðu okkur frá artless:

„artless er vörumerkið mitt. Ég valdi nafnið þegar ég ákvað að opna vefverslun með minni eign hönnun. Mig langaði að skapa eigið nafn/vörumerki án þess að hafa eiginnafnið mitt á öllu og á bak við allt. Ég er með fullt af hugmyndum um hvert ég vil fara með vefverslunina og ætla mér að þróa hana áfram.

Mér fannst enska orðið artless ná vel utan um vörumerkið og  hönnun mína. Artless þýðir í raun; laus við tilgerð, einfalt, náttúrulegt en það getur líka þýtt laust við list og mér finnst það kallast skemmtilega á við að ég vinn flest mín verk í tölvu.“

Þegar Heiðdís Halla byrjaði í myndlistarskólanum á Akureyri var hún fyrst skráð í fagurlistadeild en fann fljótlega að önnur deild heillaði hana meira: „Ég byrjaði í fagurlistadeild en eftir einhverja mánuði fann ég mjög sterkt að ég var ekki endilega á réttum stað og fékk að skipta yfir í grafíska hönnun sem ég er mjög þakklát fyrir. Ég fann það strax að ég hafði breytt rétt og hef alltaf verið sátt við að hafa skipt milli deilda. En það er svolítið undarlegt að í grafískri hönnun leitast ég mest í að skapa list, og nálgun mín er líklega blönduð nálgun af grafík og list.”


Ljósmynd/Sigga Ella

Heiðdís Halla opnaði artless.is á afmælisdaginn sinn, 4. september 2020, svo vefverslunin er ekki orðin ársgömul: „Móttökurnar hafa farið fram úr mínum björtustu vonum og gefið mér byr undir báða vængi til að halda áfram að skapa, hlusta á innsæið og framkvæma. Maður á að framkvæma ef mann langar til þess. Maður þarf að bera virðingu fyrir ferlinu og leyfa hlutunum að þróast. Ég er rosalega óþolinmóð og ég vil alltaf gera allt strax en ég er orðin betri í að muna að góðir hlutir gerast hægt. Ég er með margar hugmyndir og mörg járn í eldinum en ætla að leyfa mér að hafa tímalínuna á mínum forsendum þar sem ég sé um allt sjálf innan fyrirtækisins, nema að ég er reyndar með bókara í vinnu sem sér um pappírana, annars væri allt í rugli,” segir Heiðdís Halla og hlær.

Hvað veitir þér innblástur í þinni hönnun?

“Ég held að ég sé alltaf að leita að innblæstri og ég horfi og pæli mikið í litum og litasametningum. Ég tek myndir af áhugaverðum litasamsetningum, fjöllum og því sem vekur áhuga minn hverju sinni og styðst oft við þær myndir ef mig vantar kraft eða innblástur. Ég les mikið af hönnunarblöðum og skoða hönnunarsíður á netinu og er voða mikið með hausinn stilltan á innblásturs- og hugmyndaleit alla daga. Ég elska líka að keyra ein. Bara keyra og horfa. Þá koma oft hugmyndirnar bara sjálfkrafa til mín.”

Upplifir þú það hamlandi eða styrkjandi að koma hönnun þinni og verkum á framfæri búandi í litlu bæjarfélagi út á landi?

„Þetta er frábær spurning. Nefnilega bæði! Það er klárlega jákvæðni og kraftur sem ég fæ frá fólkinu í kringum mig hér úti á landi og fólk er mjög reiðubúið til að aðstoða og styðja mig og ég er mjög þakklát fyrir það. Ég vil líka nýta þá þjónustu sem er í boði á svæðinu við framleiðslu á vörunum þá er ég að  hugsa um vistsporið sem framleiðslunni og flutningunum fylgir og um að styrkja atvinnulífið á svæðinu,“ segir Heiðdís Halla.

„En það er nú bara þannig að ég fæ ekki næstum því allt sem mig vantar hér. Hvorki þjónustu né hráefni og því þarf ég að sækja margt til Reykjavíkur eða Akureyrar. Það er líka mjög dýrt að fá hluti senda og þegar ég kaupi textíl, plakathólka, sérstakan pappír, prentun á ál og allskonar þjónustu. Kostnaðurinn er alltaf miklu hærri út af flutningskostnaði sem hægt væri að sleppa við ef ég byggi í Reykjavík. Það munar helling. Þar að auki get ég ekki skotist með pakkana sjálf í heimkeyrslu í borginni, en þangað fara langflestar vörurnar, allt fer með póstinum suður. Stundum þarf ég líka að leggja allt mitt traust á einhvern í símanum sem segir mér hvernig eitthvað muni koma út eða muni virka og svo vona ég bara það besta, það getur líka verið dýrt spaug þó það gangi líka oft upp. Ég þarf að vera þolinmóð og anda því hlutirnir taka bara hreinlega lengri tíma vegna alls konar flækjustiga. En ég er orðin sjóuð í að gera lista og gjörnýti allar mínar ferðir til að skoða og ná í það sem mig vantar. Þannig að þessi frábæra spurning er með allskonar svör. Ég gæti eflaust framkvæmt hraðar og meira ef ég byggi enn í borginni. Það þýðir ekkert að hugsa bara um það og gera ekkert. Maður nýtir það sem maður hefur og nær í hitt, þó það taki lengri tíma og sé dýrara, þá er það bara það sem þarf að gera til að framkvæma það sem mann langar til!” segir Heiðdís Halla að lokum.

Ljósmyndir Auðunn Nilsson og í einkaeigu.

Smellið á hnappana að neðan til að skoða Facebook- og Instagramsíður Artless.

Leikur og sköpunarkraftur: Börn verða að kynnast verkum ÞYKJÓ

Leikur og sköpunarkraftur: Börn verða að kynnast verkum ÞYKJÓ

Leikur og sköpunarkraftur: Börn verða að kynnast verkum ÞYKJÓ

Fjórar framúrskarandi konur á sínu sviði sameinast í hönnunarverkefni sem öll börn verða að fá að kynnast. Á HönnunarMars stendur nú yfir sýning í Salnum, Gerðarsafni og Bókasafni Kópavogs sem er opin börnum og foreldrum frá 19.-23. maí.

Sköpunarverk ÞYKJÓ hafa það markmið að örva ímyndunarafl barna og sköpunarkraft í gegnum frjálsan leik. Þær vinna mikið með börnum, til að fá að vita hvað þau vilja og hvað þeim finnst skemmtilegt, mikil áhersla er lögð á samvinnu við börnin sjálf. Einnig leggja hönnuðirnir áherslu á að nota náttúruleg og endurvinnanleg efni, enda hafa þær skýra umhverfisstefnu í vinnu sinni.

Sigríður Sunna Reynisdóttir, leikmynda- og búningahönnuður og Ninna Þórarinsdóttir, barnamenningarhönnuður, hittu blaðakonur Mömmunnar í Kópavogi þar sem þær sýndu blaðakonum afrakstur vinnu sinnar.
Hinir meðlimir ÞYKJÓ eru þær Erla Ólafsdóttir, arkitekt og Sigurbjörg Stefánsdóttir, fatahönnuður og klæðskeri.

Hönnunarteymi ÞYKJÓ. Mynd: Sigga Ella

Kyrrðarrými: Kuðungur, ígulker og snigill

Hönnuðir ÞYKJÓ höfðu listamannadvöl í Stúdíó Gerðar í Gerðarsafni frá janúar til apríl 2021. Skúlptúrar eftir Gerði standa í rýminu og var listakonan ásamt vinnuferli hennar þeim stöllum mikill innblástur í hönnunarferlinu. Í rýminu standa þrjár hönnunarvörur, kuðungur, ígulker og snigill sem þær kalla Kyrrðarrými: Hvíldarhjúp fyrir börn. Enda geta börnin sest inn í Kyrrðarrýmin, lesið bók, slakað á eða leikið sér.

Fyrst unnu þær í ÞYKJÓ með litlar myndir, smálíkön í hlutföllunum 1:5, líkt og Gerður vann sína skúlptúra. Skólabörn í Kópavogi sem fengu að fylgjast með hönnunarferlinu sáu fyrst smálíkönin og fengu svo að sjá afraksturinn síðar: „Þetta var mikill lærdómur fyrir þau“ segir Sigríður Sunna. „Þau fengu innsýn í rannsóknar- og þróunarvinnuna, upplifðu eftirvæntingu að bíða eftir að verkið yrði að veruleika í raunstærð. Þau voru mjög spennt fyrir þessu og eru mörg hver að heimsækja safnið aftur með foreldrum sínum til að fá að prófa lokaútkomuna.“

Kuðungurinn. Takið eftir börðunum undir honum.
Mynd: Sigga Ella

Náttúrufræðistofa Kópavogs lánaði þeim ýmsa gripi og sjá má stærðarinnar kuðung í sýningarrýminu. Kuðungur stækkar, hring eftir hring, og það var í raun eins og kuðungurinn var unninn í ferlinu. Erla Ólafsdóttir arkitekt skoðaði ólíkar gerðir kuðunga og komst að ýmsu áhugaverðu ásamt því að fínpússa hugmyndina. Hægt er nefnilega að lesa í hringina hversu gamall kuðungurinn er, líkt og árhringi í trjám.

Kyrrðarrýmin voru unnin í samstarfi við smiðina Ögmund Jónsson og Luis Castillo Nassur og eru þau afskaplega tilkomumikil að sjá, litrík og mjúk viðkomu. Efnið er lífrænt vottaður harðtrefjaviður sem kallast Valchromat, en hann er gegnumlitaður með lífrænum lit. Nánastekkert er límt eða skrúfað, heldur er notað gamalt handverk, fleygar sem kallast japönsk samskeyti. „Okkur fannst spennandi að nota það. Bæði af fagurfræðilegum ástæðum og svo gegnir það praktísku hlutverki líka, heldur strúktúrnum saman“ segir Sigríður Sunna. Púðarnir í rýmunum hafa áklæði sem einnig eru endurunnin, unnin úr ull sem til fellur til úr tískuiðnaðinum í Ítalíu og er spunninn upp í nýja efnisstranga.

Kuðungur í vinnslu.
Mynd: Sigga Ella

Vísað er í náttúrufyrirbærin á leikrænan hátt í hverju rými fyrir sig – vísað er í brodda ígulkersins og barða kuðungsins í handverkinu, formin endurspegla náttúruna.
Rýmin hvetja til gæðastunda fyrir fjölskyldur, bjóða upp á hvíldarstund og að kúpla sig út…sem ekki er vanþörf á í hraða nútímasamfélagsins.

Fuglasöngvar

Næst er gengið inn í rými í Salnum og það er eins og að ganga inn í skóg, því fuglahljóð eru allsráðandi. Á gólfinu eru þrjú hreiður sem mannabörn geta fengið að prófa og hvíla í, alveg eins og litlir ungar. Börnin sem viðstödd eru í salnum eru augljóslega að njóta sín, slaka á, lesa bækur eða dunda sér með eggin. Eggin eru unnin úr textíl og gefa frá sér mismunandi fuglahljóð.

Slakað á í hreiðri
Mynd: Mamman

„Náttúran er svo magnaður hönnuður,“ segir Sigríður Sunna, og sýnir blaðakonum kassa með eggjum sem eru bæði pínulítil og risastór, í ólíkum litum og af ólíkri lögun sem Náttúrufræðistofa Kópavogs lánaði þeim til að hafa með í rýminu. Þær þurftu að leggjast í mikla rannsóknarvinnu hvað hreiður og egg varðaði og eftir þá rannsóknarvinnu fóru þær í samstarf við tónlistarkonuna Sóleyju Stefánsdóttur og forritaði hún hljóð fuglanna og vann með þau og setti í eggin. Svo er ýtt hér og þar á eggin, togað eða potað og þá heyrast fuglahljóð. „Svo er hægt að stilla eggjunum upp eins og hljóðfærum og búa til tónverk“ segir Sigríður. „Krökkum finnst ótrúlega gaman að leika sér með þetta.“

Allskonar egg.
Mynd: Sigga Ella

Upplýsingaskilti eru allsstaðar í hæð barnanna til fróðleiks, ásamt bókum um fugla.

Eggin stórskemmtilegu í vinnslu.
Mynd: Sigga Ella

Hreiðrin voru svo unnin í samstarfi við Blindravinnustofuna sem hafa áratuga reynslu af því að flétta körfur og vöggur úr tágum. Stefán B. Stefánsson, Denni, á Blindravinnustofunni vann þau ótrúlega hratt og vel, en hann var ekki vanur að vinna með svo óreglulegt form. Hann miðlaði sinni verkþekkingu til Ninnu sem mætti með honum klukkan fimm á morgnana í nokkrar vikur til að vefa hreiðrin.

Ninna vefar hreiður.
Mynd: Sigga Ella

Hreiðrin áttu að vera sem líkust alvöru hreiðrum og mjúk ull er í botninum eins og sumir fuglar nota þegar þeir búa til sín hreiður.

Með mörg egg í einu hreiðri.
Mynd: Mamman

Ofurhetjur jarðar: Búningalína fyrir börn

Í litlu herbergi innan af Bókasafni Kópavogs er svo búningaleikherbergi með búningum sem börn mega prófa og leika sér með. Samstarf ÞYKJÓ hófst með þessari búningalínu og allt efnið í búningunum er 100% endurunnið, ekkert nýtt efni er keypt í þá. Hönnuðirnir vinna í samstarfi við nokkur fyrirtæki á borð við Burstagerðina, Seglagerðina Ægi og Hampiðjuna og nýta afskorninga sem falla til hjá þeim. Hönnuðir ÞYKJÓ eru einnig í samstarfi við Rauða krossinn og kaupa efni þaðan til að endurnýta. Handverkið er ægifagurt og hönnunin sömuleiðis. Blaðakonu verður á orði hvort ekki sé hægt að fá búningana í fullorðinsstærð, svo skemmtilegir eru þeir.

Stórkostlega vandaðir og skemmtilegir búningar.
Mynd: Mamman

„Við vildum vinna þetta svona, það er ótrúlega mikil mengun í textíliðnaði. Hankarnir sem búningarnir eru hengdir á eru meira að segja unnir úr afskorningum frá Kyrrðarrýmunum, við viljum alltaf reyna að vera í sátt við umhverfið,“ segir Sigríður Sunna.

Gaman er að sjá börnin prófa búningana því allt þeirra atferli breytist. Þau fara að gefa frá sér hljóð, baða út öngunum og gogga jafnvel. Allt er þetta markmiðið í sjálfu sér – að örva hreyfiþroskann og einnig hvernig efnin eru viðkomu. Meðal búninganna er Ástarfuglinn og Feludýrið sem horfið getur inn í skel sína!

Sjáið hvað hún er flott!
Mynd: Mamman

Við hvetjum sem flesta til að gera sér ferð í Kópavoginn með börn á öllum aldri. Það er nefnilega svo gaman að leika sér.

Smellið á hnappana að neðan til að skoða Facebook- og Instagramsíður ÞYKJÓ 

Elskar fallegar barnavörur sem passa sem stofustáss

Elskar fallegar barnavörur sem passa sem stofustáss

Elskar fallegar barnavörur sem passa sem stofustáss

Hulan er heildverslun sem flytur inn einstaklega falleg barnaleikföng og húsgögn. Á bak við Huluna stendur hún Elva Kristín Arnardóttir sem finnst mjög mikilvægt að þær vörur sem hún flytur inn séu það fallegar að þær passi jafnt sem fallegur fylgihlutur inn í stofu sem og leikfang í barnaherbergið. Elva leggur mikið uppúr góðri og persónulegri þjónustu og ber svo sannarlega með sér góðan þokka þegar hún tók vel á móti blaðakonu Mamman.is sem hitti hana á fallegu heimili hennar í Úlfarsárdal í létt spjall.

-Segðu okkur aðeins frá fyrirtækinu þínu.

Hulan.is var stofnað 2008. Ég kom síðan inn í fyrirtækið árið 2018. Á bak við Huluna er Skjaldbaka ehf sem er heildverslun og er með umboð fyrir öll okkar vörumerki á Íslandi. Vörurnar seljum við síðan víðs vegar um allt land. Hulan.is er síðan netverslun sem við rekum þar sem er að finna allar okkar fallegu vörur. Einnig eru sérvaldar vörur þar inni sem fást einungis inn á Hulunni” segir Elva.

“Ég legg mikið upp úr góðri og persónulegri  þjónustu. Kúnnarnir mínir eiga stóran sess í hjarta mínu hvort um sé að ræða Hulu kúnnar eða eigendur og starfsfólk í búðunum” bætir Elva við.

-Segðu okkur aðeins frá vörunum ykkar?

Ég myndi segja að vörurnar eigi það allar sameiginlegt að vera alveg gríðarlega fallegar. Mér finnst mjög mikilvægt að vörurnar séu það fallegar að þig langi mest til að hafa þær upp í hillu inn í stofu hjá þér og einnig finnst mér skipta mjög miklu máli úr hverju þær eru gerðar” segir Elva og hlær.

En á hún Elva sér eitthvað uppáhalds merki af þeim vörum sem hún er að flytja inn?

Nei ég get alls ekki valið, er svo ánægð með öll þau merki sem fylgdu heildsölunni á sínum tíma og þau merki sem ég er búin að bæta við svo er ég að sjálfsögðu alltaf með augun opin fyrir nýjungum” segir Elva glöð í bragði.

Elva er gift og á tvö börn með manninum sínum, þau Agnesi Bríet 3 ára og Mikael Mána 9 ára. Elva er sjálf fædd og uppalin austur á Vopnafirði og fluttist til Reykjavíkur 19 ára og hefur verið búsett í Reykjavík síðan þá, fyrir utan stuttan tíma sem hún og maðurinn hennar bjuggu í Prag. En hvað finnst fjölskyldunni skemmtilegast að gera saman?

Við höfum verið mjög dugleg að ferðast og við elskum að vera við ána að veiða, segir Elva og bætir við. “Sumar og sól er bara alltaf best og ef ég ætti að nefna einn stað sem uppáhaldstað fjölskyldunnar þá er Florída efst á lista. En annars eigum við líka eftir að prufa nokkur lönd sem heilla okkur.” Aðspurð segir hún fjölskylduna sakna þess að ferðast utanlands. “Já svo sannarlega söknum við þess, enda hugsa ég að við nýtum fyrsta tækifæri sem gefst til að skella okkur út í smá frí”segir Elva að lokum hlæjandi.

Hér fyrir neðan má sjá fallegar myndir af tréleikföngum og kökudiskum sem fást í vefverslun Hulunnar. Einnig er að finna samfélagsmiðlahnappa beint inná Facebook & Instagram hjá Hulan.is neðst á síðunni.

Pin It on Pinterest