by Mamman | 30.05.2016 | Næring & heilsa, Uppskriftir
Það kannast örugglega allir við það að langa í eitthvað ótrúlega fljótlegt og gott en þó í hollari kantinum og enda á fá sér grillaða samloku eða eitthvað í þá áttina.
Hér kemur uppskrift af vefju sem uppfyllir öll hollustuskilyrðin ásamt því að vera eldsnögg í vinnslu og svakalega fersk og góð.
Hráefni:
- iceberg
- kirsuberjatómatar
- gúrka
- avókadó
- hamborgarhryggur í sneiðum
- ostur
- egg
Dressing:
- 3 msk sýrður rjómi eða grísk jógúrt
- ½ tsk Dijon sinnep
- ½ hvítlauksrif
- ½ tsk hunang
- smá salt
- smá svartur pipar, mulinn
- steinselja
Öllu hrært saman og kryddað eftir smekk. Dressingin er einnig sjúklega góð með steiktum kjúklingi og fiski.
Hráefnunum raðað á icebergið sem er sett fyrst á vefjuna, hella smá dressingu yfir, og rúlla svo upp og njóta.
Höfundur
Elsa Kristinsdóttir
by Mamman | 24.05.2016 | Andlega hliðin
Máttur jákvæðra staðhæfinga
Hér koma texti og myndir. Til að setja mynd fara í ADD MEDIA og ná í mynd annað hvort af harða drifinu (Uppload files) eða kerfinu (Skráarsafn) Setja mynd, einkennismynd. Haka við Featured Post.
Alltaf byrja á: Fullwidth og Hide
by Mamman | 15.05.2016 | Andlega hliðin, Foreldrar, Óflokkað
HypnoBirthing, The Mongan Method er aðferð notuð við fæðingar, þróuð af dáleiðslusérfræðingnum Marie F. Mongan. Í þessari aðferð er áhersla lögð á að meðganga og fæðing séu náttúruleg ferli sem líkami kvenna er skapaður til að fara í gegnum, ekki síður en aðra líkamsstarfsemi ef konan og barnið eru heilbrigð og meðgangan eðlileg. Þetta ferli hefur hins vegar í gegnum tíðana verið sjúkrahúsvætt og ákveðinn ótti skapaður meðal fólks um að fæðing sé hættuleg og þurfi að fara fram undir læknisumsjá.
Ég kynntist HypnoBirthing í gegnum Auði Bjarnadóttur jógakennara í meðgöngujóga þegar ég gekk með dóttur mína. Ég keypti mér bókina, HypnoBirthing, The Mongan Method, las hana og grúskaði heilmikið á internetinu. Það má segja að þetta hafi gjörbreytt allri minni upplifun á meðgöngunni. Ég man augnablikið þegar að ég fann nánast líkamlega, hvernig óttinn rann af mér. Óttinn sem ég vissi varla að væri til staðar en varð svo áþreifanlegur um leið og ég fann hann fara. Það skrýtna er að þetta gerðist þegar ég uppgötvaði að ég þyrfti bara alls ekki að fá mænudeyfingu eða aðra verkjastillandi meðferð. Þessu er eflaust öfugt farið með mjög margar konur en greinilega er þetta eitthvað sem mér er illa við, jafnvel bara ómeðvitað.
“HypnoBirthing byggir að miklu leyti á hugleiðslu, slökunaraðferðum, öndunaræfingum, jákvæðum hugsunum og líkamlegum undirbúningi.”
Mikilvægt er að konan fari inn í fæðinguna á eigin forsendum og finni sinn eigin styrk og getu til að fæða barnið. Talið er að ótti hafi neikvæð áhrif á upplifun á sársauka auk þess sem hann veldur spennu í vöðvum sem getur unnið á móti líkamanum í fæðingarferlinu. Ef konan er óhrædd og treystir líkama sínum á hún auðveldara með að slaka á og sársaukinn verður minni og þar af leiðandi dregur úr líkum á því að þörf sé á mænudeyfingu eða öðrum inngripum. Einnig er mikilvægt að skapa frið og ró í kringum fæðinguna, ljós dempuð og að utanaðkomandi aðilar séu í algjöru aukahlutverki, einungis til að rétta hjálparhönd en fjölskyldan og tengsl milli fjölskyldumeðlima eru í forgrunni.
Í bókinni HypnoBirthing, The Mongan Method, er mikil áhersla lögð á undirbúning fæðingarinnar og að foreldrar hafi hugað að og tekið ákvarðanir varðandi fæðinguna fyrirfram. Þetta eru stór og smá atriði eins og hvar fæðingin fer fram, hverjir verði viðstaddir, hvort verkjastillandi lyf verði notuð, hvort notast eigi við tónlist o.s.frv. Þarna skiptir fæðingarfélagi miklu máli en hann spilar mikilvægt hlutverk í bókinni. Með fæðingarfélaga er átt við hitt foreldri barnsins eða einhvern annan nákominn móðurinni sem er viðstaddur fæðinguna. Fæðingarfélaginn er mjög mikilvægur í fæðingunni, veitir móðurinni stuðning og hvatningu auk þess að vera milliliður og talsmaður hennar gagnvart ljósmóður eða öðrum umönnunaraðila. Þar sem konan getur verið berskjölduð í fæðingunni og er í djúpri slökun sem ekki má trufla þá er það fæðingarfélaginn sem sér um þessi samskipti til að fæðingin verði sem næst því sem þegar hefur verið ákveðið. Mikilvægt er þó, og talað um það í bókinni, að í eðli sínu sé fæðing náttúrulegt ferli þar sem allt getur gerst og því er sveigjanleiki og það að taka því sem að höndum ber alltaf nauðsynlegt.
Margar konur hafa nýtt sér HypnoBirthing tæknina á Íslandi en boðið er upp á námskeið í aðdraganda fæðingar fyrir verðandi foreldra. Taka skal fram að það hvernig kona ákveður að fæða barnið sitt er einstakt og persónulegt fyrir hverja og eina og mismunandi hvað hentar hverri konu hverju sinni. Það er ekkert betra eða verra að fæða með eða án verkjastillingar eða heima eða á sjúkrahúsi. Ég gerði mitt besta til að notast við aðferðina í fæðingu dóttur minnar og er viss um að það hafi nýst mér mjög vel, sérstaklega með öndun og að halda ró en einnig styrkti hún sjálfstraustið, það er að allt væri eins og það ætti að vera og ég gæti þetta vel, þó að ég hafi kannski misst trúna stöku sinnum. Ég veit að ég mun rifja upp kynni mín af HypnoBirthing þegar næsta barn kemur í heiminn. Í það minnsta er HypnoBirthing aðferðin falleg og áhugaverð fæðingaraðferð sem vert er fyrir verðandi foreldra að kynna sér.
Heimildir:
Mongan, Marie F. 1992. Hypnobirthing; The Mongan Method: a natural approach to safe, easier, more comfortable birthing. 3. útg. Health Communications, Inc.
Click to access Ljosmbl_2013_91_2.pdf
http://www.hypnobirthing.com/
Höfundur
María Þórólsdóttir
by Mamman | 12.05.2016 | Næring & heilsa, Uppskriftir
Á dögunum þurfti ég að fara í snemmbúið fæðingarorlof og fékk að gjöf, frá vinnunni, æðislega bók eftir Anítu Bríem og Sólveigu Eiríksdóttur, Mömmubitar. Það var því ekki seinna vænna, á öðrum degi í orlof að skella í eina af girnilegustu uppskriftunum, að mínu mati, sem finna má í bókinni, Snickersköku.
Botn
- 200 g döðlur
- 100 g kókosmjöl
- 1 dl hnetusmjör
Ég notaði venjulegar döðlur frá H-berg, sauð vatn og leyfði þeim að liggja í bleyti í smá stund. Hnetusmjörið sem ég notaði er frá Whole Earth og fæst m.a. í Krónunni og öðrum heilsubúðum. Það sem heillar mig við þá tegund hnetusmjörs er að það er enginn viðbættur sykur í því (en er vinna í að gera mitt eigið hnetusmjör svo það verði sem hollast).
Þessu skellti ég svo öllu saman í matvinnsluvél og leyfði að maukast vel saman. Maukinu þjappaði ég svo í eldfast mót og setti það í frysti á meðan ég bjó til karamelluna.
Karamellulag
- 1 ½ dl hlynsíróp eða önnur sæta
- 1 dl kókosolía
- 1 dl hnetusmjör
- ½ tsk sjávarsalt
Ég átti ekki hlynsíróp svo ég notaðist við agavesíróp og smá hunang og náði ég sirka 1 dl af sætu úr því þar sem ég átti ekki meira til. Einnig setti ég ekki hálfa tsk af salti eins og ráðlagt er í uppskriftinni þar sem ég reyni að forðast salt eins og heitan eldinn því mér hættir til að fá bjúg á meðgöngu. Þessu smellti ég svo í matvinnsluvélina, lét hana skila sínu og smurði því svo sem öðru lagi yfir botninn og setti aftur í frystinn meðan ég bjó til súkkulaðið.
Súkkulaðilag
- ½ dl kókósolía
- ½ dl kakóduft
- 1 msk hlynsýróp
- nokkur saltkorn
Þar sem ég notaði allt sýrópið mitt í karamelluna þá setti ég sirka 1 tsk af hunangi til að fá sætu, einnig átti ég ekki til stevíu svo ég setti í staðinn 2-3 dropa af vanilludropum (en sleppti saltinu). Hrærði öllu saman og hellti yfir karamellulagið og setti í frysti í smá stund eða þar til súkkulaðið var orðið stíft.
Næst skar ég kökuna í lengjur og frysti hverja lengju fyrir sig. Auðvitað bauð ég sjálfri mér og heimilisfólkinu strax upp á nammi og var þetta guðdómlega gott.
Næstu daga þegar einhver kom í kaffi (eða sykurpúkinn mætti á svæðið) þá var ein lengja sótt í frystinn og skorin í litla bita og hafa þeir slegið í gegn í hvert skipti.
Ég mæli með þessari ef þú vilt seðja sykurpúkann en vera samt sem áður í hollari kantinum.
Höfundur
Elsa Kristinsdóttir
by Mamman | 11.05.2016 | Næring & heilsa
Ilmkjarnaolíur verða sífellt vinsælli og almennari í notkun. Þær gefa bæði góðan ilm og geta veitt aukna slökun og að auki gert andrúmsloftið meira kósí.
Skynsamleg notkun ilmkjarnaolía á meðgöngu og í fæðingu getur haft góð áhrif og notkun þeirra er nokkuð auðveld. Það er hægt að spreia þeim út í andrúmsloftið, nota til innöndunar, blanda í nuddolíu eða setja út í baðið. Ilmkjarnaolíur skal ætíð blanda við grunnolíu áður en þær eru settar á húð til dæmis vínberjaolíu (grapeseed), möndluolíu eða sólblómaolíu. Mikilvægt er að nota hreinar ilmkjarnaolíur því gerviangan gefur aðeins lykt en gerir ekkert annað gagn.
Sumar ilmkjarnaolíur henta betur en aðrar á meðgöngu og aðrar á beinlínis að forðast að nota. Athuga skal að ilmkjarnaolíur innihalda virk efni og oft er ekki mælt með því að nota þær nema í litlu magni fyrsta þriðjung meðgöngunnar.
Almennt er talið óhætt að nota Lavender, Bergamot, Chamomille roman, Neroli, Geranium, Rose, Jasmin og Ylang Ylang.
Ef ég ætti að nota aðeins tvær olíur á meðgöngu og í fæðingu myndi ég velja Lavender og Bergamot (Rose er svo dýr að það er óþarfi að velja hana). Lavender tæki ég því hún er góð alhliða olía, græðandi og slakandi fyrir huga og líkama. Hún dregur úr höfuðverk og hefur almennt góð áhrif á líðan á meðgöngu og ekki er óalgengt að konur taki hana með í fæðingu.
Bergamot er góð gegn kvíða og depurð, er verkjastillandi, og getur hjálpað til við að undirbúa fæðingu og halda uppi baráttuþrekinu á erfiðum stundum..
Yfirleitt nota ég sprei eða bý til nuddolíu. Góð sprei-blanda er t.d. 50 ml vatn, 4 dropar lavender og 1 dropi bergamot sett í spreibrúsa, hrist og spreiað. Það er frískandi, róandi og gott.
Höfundur
Soffía Bæringsdóttir
by Mamman | 11.05.2016 | Uppskriftir
Þú varst að koma heim með ilmandi nýbakað súrdeigsbrauð af því það er svo hollt og gott. Þig langar ekkert frekar en að rista það og smyrja með vænni slettu af jarðarberjasultu en nei… sultan er svo stútfull af sykri að þessi blessaða hollusta af sykur- og gerlausa brauðinu þínu núllast bara algjörlega út. Hvað gera bændur þá?? Jú, einmitt þeir búa til chia sultu. Já, ég sagði það, sulta úr chia fræum.. eða kannski ekki beint, hún inniheldur að sjálfsögðu ávexti að eign vali en chia fræin gefa henni þessa sultulegu áferð. Sætuna getur hver og einn lagað að sínum smekk og í boði er að nota hvaða sætuefni sem er en persónulega vel ég hunang eða sweet freedom sýróp.
Uppskrift:
- 2 bollar frosnir ávextir að eigin vali
- 2 msk vatn
- 2 msk chia fræ
- Hunang eftir smekk
Aðferð:
Setjið frosnu ávextina í pott og bætið við vatninu. Látið suðuna koma upp og eldið þar til allir ávextirnir eru orðnir mjúkir. Setjið svo í blandarann og blandið vel. Ef þið eruð ekki hrifin af kornum í sultunni ykkar þá er upplagt að skella chia fræunum með í blandarann á þessum tímapunkti en ef ykkur finnst ekkert athugavert að finna fyrir fræjunum þá er þeim hrært í síðast. Hellið blönduðum ávöxtunum í krukku og smakkið til með hunangi eða öðru sætuefni og munið að chia fræin bætast við á þessu stigi ef þau fóru ekki í blandarann.
Kælið í að minnsta kosti tvo tíma og ef þykktin er ekki að ykkar skapi á þeim tímapunkti þá má bæta við teskeið af chia fræum í viðbót.
Þessi sulta geymist í u.þ.b. tvær vikur í ísskáp í þéttlokuðum umbúðum.
Sultan hentar vel á brauð, út á hafragrautinn, í bakstur, og hvað annað sem ykkur dettur í hug að gera við hana.
Bon apetit!
Höfundur
Karlotta Ósk Jónsdóttir