Ættirðu að halda sameiginlega veislu fyrir barnið með fyrrverandi?

Ættirðu að halda sameiginlega veislu fyrir barnið með fyrrverandi?

Ættirðu að halda sameiginlega veislu fyrir barnið með fyrrverandi?

Ef ósk barnsins er að halda sameiginlega afmælisveislu en foreldrarnir hafa slitið samvistum og kemur ekki saman – hvað er þá til ráða?Foreldrar sem hafa skilið getur annaðhvort: A) Komið vel saman, eða B) Ekki komið vel saman. Þetta vita flestir þeir sem hafa skilið.Sum börn halda í þá hugmynd að allir geti verið vinir, en hvað er til ráða ef slík staða kemur upp?

Þetta er klassísk foreldraklemma, þarfir og óskir barnsins eru þvert á það sem þeir fullorðnir vilja. Auðvitað er skiljanlegt að barnið vilji hafa sína nánustu í kringum sig til að halda upp á stóra daginn, hvort sem um afmælis- eða fermingarveislu eða álíka er að ræða.

Stundum er undirliggjandi ósk barnsins að allir komi saman og hafi gaman, undir sama þaki og bara helst alltaf! Raunin er hinsvegar sú í foreldraheimi að hinir fullorðnu hafa haldið áfram með líf sitt og eru oftast sáttir að vera án hins aðilans. Þetta getur verið bæði flókið og alvarlegt og er mjög einstaklingsbundið.

Sumir sérfræðingar segja að þarfir og óskir barnsins ættu að vega meira en hinna fullorðnu, en í svona tilfelli er kannski „ekkert rétt svar.“ Það eru mismunandi leiðir að taka þessa ákvörðun þannig best er að hugsa málið alveg í gegn. Þú þekkir þitt barn og fjölskyldumeðlimina best, þannig best er kannski að hugsa málið til enda.

Kostur a) Halda sameiginlega veislu

Til að reyna að fá sem besta útkomu þarf að „ofhugsa“ dálítið (oftast er það ekki gott fyrir geðheilsu fullorðinna, en þetta snýst um eitt skipti!)

Þú gætir þurft að upphugsa einhvern ramma og jafnvel reglur (ekki tala um pólitík eða bannað er að rifja upp leiðindaatvik fyrir 10 árum sem allir fara að rífast um). Slíkt myndi algerlega eyðileggja daginn og það þarfnast mikillar íhugunar af þinni hálfu hvaða reglur þyrfti að setja til að allir hegðuðu sér sem best. Þannig þarf að komast að samkomulagi við gestina og þeir þurfa að vera sammála og það verður að vera hægt að treysta hinum aðilanum/aðilunum. Eins og áður sagði – þú verður að vega og meta hvort þetta sé möguleiki.

Þar að auki gætirðu skipulagt viðburðinn þannig að lítil hætta sé á árekstrum (að koma með skemmtiatriði, leik eða eitthvað álíka) svo allir geti bara fylgst með og þurfi ekki að lenda á „tjatti.“

Hafðu tímatakmörk („afmælið mun standa yfir frá 15-17). Þá er minni hætta á að fólk fari að dvelja lengur og barnaafmæli ættu svosem ekki að vera mikið lengur en tveir tímar.

Svo er líka gott að undirbúa barnið og útskýra á því máli sem það skilur að stundum séu samskipti fullorðinna erfið eða á einhvern hátt og þeim finnist kannski ekki skemmtilegast í heimi að vera í kringum hvort annað. Þú þarft ekki að fara út í smáatriði, bara koma því til skila á snyrtilegan hátt. Það sem máli skipti að þau elski barnið öll og ef einhver fari í fýlu sé það ekki barnsins vegna.

Kostur b) Ekki halda sameiginlega veislu

Þetta er síðan seinni kosturinn. Aftur – þar sem þú þekkir fjölskylduna best veistu hvað gæti gerst og gæti það endað á að eyðileggja afmælisveislu barnsins. Sem er sennilega verra en að þurfa að útskýra fyrir barninu af hverju það fær ekki veisluna sem það óskar.

Það getur verið að þú treystir þér ekki í slíka samkomu og streitan sem samskiptin kunna að valda eyðileggi fyrir þér getuna til að halda öllu saman og á góðu nótunum. Sem gerir það svo að verkum að þú getur ekki verið til staðar fyrir barnið, sem er það mikilvægasta. Þrátt fyrir að þetta sé veisla barnsins, en ekki þín veisla, þarftu að vera til staðar og halda góða skapinu. Það er líka erfitt að halda afmæli, jafnvel undir bestu kringumstæðunum.

Barnið kann að vera of ungt til að skilja slíkan samskiptavanda en sé barnið líka viðkvæmt getur samkoma sem þessi líka haft neikvæð áhrif á það.

Stundum – með því að gefa ekki eftir ósk barnsins gerir þetta bærilegra, bæði fyrir barnið og þig.

Þú getur sagt: „Nei, það mun ekki virka að halda afmælið með mömmu þinni/pabba þínum,“ en best er auðvitað að útskýra á því máli sem barnið skilur að fólk sé hamingjusamara án samskipta við hvert annað.

Þannig geturðu vonandi komið í veg fyrir suð, árekstra eða bræðisköst.

Enginn sér fyrir hvernig viðburðurinn myndi fara, en best er að gera hið besta úr hvorri ákvörðuninni sem þú tekur. Minntu sjálfa/n þig á að þú ert að hugsa um það besta fyrir barnið (eins og 90% af uppeldi snýst um!). Mundu að hugsa um báðar hliðar og barnið fær veislu og þú færð að fagna tilveru þess.

 

Hversu góð er heyrn nýfæddra barna?

Hversu góð er heyrn nýfæddra barna?

Hversu góð er heyrn nýfæddra barna?

Nýfædd börn geta heyrt ágætlega, en ekki fullkomlega. Miðeyra hvítvoðungsins er fullt af vökva og heftir það heyrn að einhverju leyti. Þar að auki eru eyrun og þar af leiðandi heyrnin óþroskuð. Þetta er ástæða þess að nýfædd börn bregðast helst við hvellum, háum hljóðum, ýktum röddum og hljóðum.

Í leginu læra börnin að þekkja rödd móður sinnar og bregðast helst við hennar röddu frekar en annarra.

Hvenær skal hafa áhyggjur?

Ef barnið hrekkur ekki við þegar við kveða há hljóð eða virðist ekki bregðast við rödd þinni á fyrstu mánuðunum, ræddu það við barnalækninn. Hann hefur búnað til að mæla heyrn barnsins, og athugar hvort allt sé í lagi. Ef hefðbundin ungbarnaskoðun hefur ekki leitt neitt óeðlilegt í ljós er ágætt að hafa það í huga að hún er ekki fullkomin og getur það hafa farið framhjá fagfólkinu.

Heimild: WebMd

 

 

Soffía Bæringsdóttir: „Sumum samböndum er ekki ætlað að endast”

Soffía Bæringsdóttir: „Sumum samböndum er ekki ætlað að endast”

Soffía Bæringsdóttir: „Sumum samböndum er ekki ætlað að endast”

Soffía Bæringsdóttir er reyndur fjölskyldufræðingur og doula. Hún rekur fyrirtækið Hönd í hönd sem sinnir fjölskyldu- og parameðferð ásamt fæðingarstuðningi.

Soffía á þrjár stúlkur og er gift.

Við höfðum áhuga á að vita meira um starf Soffíu og þá sérstaklega pararáðgjöfina og var Soffía svo indæl að svara nokkrum spurningum.

Aðspurð segir Soffía að sennilega sé best fyrir pör að leita ráðgjafar þegar þau ná ekki að útkljá mál sín ein, en hvenær sé besti tímapunkturinn sé einstaklingsbundið: „Reynslan sýnir að því fyrr sem gripið er inn,í því líklegra er að náist að leysa málin. Einhverjar rannsóknir segja að pör komi í parameðferð sex árum eftir að þau átta sig á því að þau geta ekki leyst málin sjálf en mér finnst það oft vera frekar í kringum þriðja árið.

Soffía segir fólk ekki hrætt við að leita sér ráðgjafar: „Í dag eru pör og fjölskyldur líka nokkuð öflug í að leita ráðgjafar áður en að málin verða vandi sem er ánægjulegt svo það er allur gangur á þessu.“

Eru einhver pör útsettari en önnur til að upplifa erfiðleika í samskiptum?

„Mér finnst þetta erfið spurning því það er ekki gott að skipta fólki í flokka og öll pör geta lent í erfiðleikum, sambönd ganga í gegnum tímabil eins og flest í lífinu,en það eru ákveðnar áskoranir sem eru meira krefjandi, svo sem: Samsettar fjölskyldur, þegar annað eða bæði glíma við persónulegar áskoranir svo sem þunglyndi og svo reynsla fólks úr lífinu, uppeldi og fyrri samböndum.“

Er á einhverjum tímapunkti nauðsynlegt fyrir fólk að skilja og halda í sitthvora áttina og slíta samvistum?

„Já, tvímælalaust, sumum samböndum er ekki ætlað að endast og ástæðurnar fyrir því að best sé að halda hvort í sína áttina geta verið margar, frá því að upprunalega hafi verið stofnað til sambandsins á veikum grunni, fólk hafi vaxið í sundur, ítrekuð svik sem ekki er hægt að laga og ofbeldissambönd.“

Soffía Bæringsdóttir, fjölskyldufræðingur og doula

Hvað enda mörg sambönd/hjónabönd með skilnaði?

„Á Íslandi er talað um að allt að 40% sambúða sé slitið, 20% para slíta samvistum á fyrsta æviári barns.“

Áttu góð ráð fyrir pör sem er að vinna sig úr erfiðleikum til að byggja upp samband sitt?

„Fyrsta skrefið er að ná að taka skref til baka og kortleggja aðstæður sínar, samskiptamynstur og líðan. Fyrsta skrefið er að ná að fara úr vörn eða átökum og skoða hvað er í gangi, flestir sjá þá fljótt að samskiptamynstrið er mjög svipað,þó ný málefni komi upp. Um leið og maður áttar sig á að maður dettur í mynstur er hægt að byrja að vinna í því að brjóta mynstrið upp og meðvitað bregðast við á annan hátt.

Annað gott ráð er að gefa sér tíma og byrja á því að setja fókusinn á hvað það er sem maður sjálfur getur lagt í betra samband frekar en að bíða eftir því að makinn breytist,“ segir Soffía en tekur fram að taka verði ofbeldissambönd út fyrir rammann hér.

Hún heldur áfram: „Mörgum pörum hefur reynst vel að taka fyrir ákveðið þema eða efni og lesa/hlusta/horfa á saman og endurspegla út frá sínum samskiptum. Á íslensku má finna góð hlaðvörp, greinar hér og hvar og svo er nóg til að bókum um samskipti og sambönd. Lykillinn er að bæði taki þátt í verkefninu!“

Hvað eru óheilbrigð samskipti og hvað eru heilbrigð samskipti?

„Heilbrigð samskipti pars byggja á jafnræði og virðingu. Í heilbrigðu sambandi ná styrkleikar hvors um sig að skína, traust ríkir og parið leggur sig fram um að sýna gagnkvæman skilning og virðingu. Í heilbrigðu sambandi talar fólk oft um að makinn sé besti vinur þeirra, þau viti að þau geti fengið stuðning og hægt er að ræða málin. Langanir og þarfir beggja eru uppi á yfirborðinu og virtar og mörk og þörf fyrir prívatlíf virt.“ Hvað óheilbrigð samskipti varðar segir Soffía: „Óheilbrigð samskipti geta birst á ólíkan máta en í þeim er ekki jafnræði, andúð og niðurbrjótandi tal og oft miklar sveiflur.“

Er fólki einhver greiði gerður að halda sambandi áfram vegna barnanna?

„Ég held að heilt yfir sé fólk sammála um að börnum er ekki greiði gerður að foreldrar þeirra séu í sambandi þeirra vegna. Það setur mikla og óþarfa ábyrgð á börn. Þegar fólk á börn saman er það þeirra skylda að skoða samband sitt vel og bera ábyrgð á því til að sjá hvort það geti gengið- barnanna vegna en þegar ljóst er að svo er ekki er það ábyrgð og skylda foreldra að fara hvort í sína áttina. Mín reynsla er að fólk með börn hefur ítarlega og vandlega hugsað málið hvort sambandsslit séu besti kosturinn og komist að því að svo sé.“

Getur fólk byrjað á núllpunkti eftir heiftúðleg rifrildi og langvarandi deilur?

„Allt er hægt,“ segir Soffía, „en eftir langvarandi deilur er oft komin djúp gjá á milli fólks þar sem tengingin er farin og traustið lítið. Við hvert rifrildi verður sárið stærra og gjáin dýpri og lengra á milli fólks en með því að staldra við, með góðri aðstoð, miklum vilja og sjálfsvinnu er það hægt og fólk þarf að gefa sér tíma í það.“

Er eitthvað annað sem þú vilt koma áleiðis?

„Takk fyrir þína góðu vinnu!“

 

Félagsfælni unglinga: Góð ráð og fróðleikur

Félagsfælni unglinga: Góð ráð og fróðleikur

Félagsfælni unglinga: Góð ráð og fróðleikur

Flest ungmenni verða dálítið stressuð í félagslegum athöfnum á borð við að tala fyrir framan fullt af fólki eða að vinna í hópi. Unglingar sem haldnir eru félagsfælni finna þó fyrir miklu meiri kvíða en aðrir. Þessi kvíði verður þess valdandi að unglingarnir kunna að forðast félagslegar athafnir og af því leiðir að slíkar aðstæður láta þeim líða mjög óþægilega.

Þeir sem finna fyrir tilfinningum félagsfælni þurfa samt að vita að lífið er ekki búið. Það eru bjargráð og verkfæri sem hjálpa þeim að eiga við félagslegar aðstæður og hægt er að njóta lífsins á ný.

Hvað er félagsfælni?

Félagsfælni er órökréttur, öflugur og þrálátur ótti við ákveðinn hlut, athöfn eða félagslegt ástand sem fólk forðast eða pínir sig til að þola með afskaplegum kvíða og streitu.

Sumir táningar upplifa slíkt, þá sérstaklega í ákveðnum aðstæðum, t.d. að tala fyrir framan fólk eða að hefja samræður. Aðrir eru mjög kvíðnir eða hræðast allar félagslegar aðstæður.

Félagsfælni hrjáir um 5,3 milljón manna í Bandaríkjunum einum. Algengast er að ungmenni frá 11-19 ára aldri finni fyrir þessari fælni.

Hver eru einkenni félagsfælni?

Einkennin eru m.a.:

  • Að vera afar sjálfsmeðvitaður (e. self-conscious) í félagslegum aðstæðum sem lýsir sér í mikilli feimni, magaverk, auknum hjartslætti, svima eða gráti
  • Að hafa stöðugan, öflugan, krónískan ótta að aðrir séu að horfa á sig eða dæma
  • Að verða feiminn og líða óþægilega þegar aðrir horfa á mann (t.d. ef verið er að kynna eitthvað í skólanum, tala fyrir framan hóp eða koma fram í leiksýningu eða álíka)
  • Að vera hikandi að tala við bekkjarfélaga eða liðsfélaga (forðast augnsamband, sitja einn í hádegishléi, vilja ekki tjá sig þegar hópverkefni eru unnin)
  • Líkamleg viðbrögð við kvíða (ógleði, hjartsláttartruflanir, aukin svitamyndun, roðna, að finna fyrir skömm eða niðurlægingu)

Hvað er hægt að gera?

Ef félagsfælnin er á því stigi að hún hindrar unglinginn að gera það sem hann langar að gera, eða kemur í veg fyrir að hann eignist vini eða viðhaldi vinasamböndum er vert að athuga hvort meðferð kæmi að gagni.

Að ræða ótta sinn og kvíða við lækni eða sálfræðing sem hefur reynslu af félagsfælni getur hjálpað gríðarlega. Sérfræðingar geta sagt þér hvort þú sért að upplifa „eðlilega“ félagsfælni eða hvort hjálpar sé þörf.

Hvernig er félagsfælni meðhöndluð?

Það eru tvenns konar leiðir sem hafa reynst öflugar: Lyf og atferlismeðferð. Hægt er að taka báðar leiðir á sama tíma.

Lyf: Fyrir suma unglinga er nóg að taka lyfseðilsskyld lyf við félagsfælni. Þau vinna á þann hátt að þau minnka óþægindin og vandræðaleg einkenni. Margir læknar uppáskrifa beta-blokkara til að minnka kvíða. Í sumum tilfellum er það nóg til að minnka félagsfælnina eða hún hverfur jafnvel. Sumir finna ekkert fyrir áhrifum lyfjanna og þau gera ekki neitt. Það er engin leið til að vita fyrirfram hvort lyf muni virka eður ei. Stundum þarf að gera tilraunir til að finna rétta lyfið. Læknir gæti gefið lyf á borð við Zoloft, Paxil eða Effexor, sem lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) hefur samþykkt til meðferðar við félagsfælni. Þrátt fyrir að þessi lyf teljist hentug getur læknirinn uppáskrifað aðrar lyfjategundir sem geta einnig hjálpað.

Ókosturinn við lyfin hinsvegar eru þau að þau eiga bara við einkennin. Ef notkun þeirra er hætt getur félagsfælnin birst á ný. Svo hafa lyf oft aukaverkanir á borð við höfuðverk, ógleði, svefnleysi og magaverk. Einnig geta lyf af þessu tagi aukið sjálfsvígshugsanir tímabundið, þannig vakta þarf ungt fólk sem er yngra en 24 ára. Stundum er það metið svo að kostirnir við lyfjagjöf séu fleiri en gallarnir. Þetta er eitthvað sem ungmennið, foreldrarnir og læknirinn þurfa að komast að í sameiningu.

Þeir sem taka slík lyf þurfa strax að hafa samband við lækni ef depurðar eða annara aukaverkana gerir vart við sig. Aldrei má snögghætta á lyfjum án þess að ráðfæra sig við lækni, því það getur verið hættulegt.

Atferlismeðferð: Atferlismeðferð á borð við hugræna atferlismeðferð hefur reynst vel við félagsfælni. Einnig hefur meðferð sem kallast á ensku exposure theraphy reynst vel en þá eru tekin lítil skref í átt að félagslegum aðstæðum sem eru óþægilegar og beðið þar til það verður bærilegra. Á meðan meðferðinni stendur er verið að „endurforrita“ heilann að læra að félagslegar aðstæður sem voru áður ógnvænlegar eru ekki það slæmar. Margir þerapistar sem nýta sér aðferðina hefja hana með litlum skrefum eins og áður sagði, svo er tekist á við erfiðari aðstæður smám saman. Kosturinn við þessa meðferð er að verið er að ráðast á undirliggjandi vandann, ekki bara einkennin. Þannig ef meðferð er hætt er ólíklegra að einkennin birtist á ný.

Hvenær skal ræða við lækni vegna félagsfælni?

Í fyrsta lagi er ekkert að þeim unglingum sem hafa félagsfælni. Margir hafa leitað sér aðstoðar vegna fælninnar og hún er læknanleg. Ef þú finnur fyrir mjög miklum ótta og kvíða vegna félagslegra aðstæðna, talaðu opinskátt við lækninn þinn. Hann er bundinn trúnaði og vill bara hjálpa þér. Ef ekkert er gert í félagsfælni getur það leitt til þunglyndis, misnotkunar áfengis eða lyfja, vanda í vinnu og skóla og lífsgæði versna.

Heimild: WebMd

Foreldrakulnun er staðreynd sem getur haft skaðleg áhrif

Foreldrakulnun er staðreynd sem getur haft skaðleg áhrif

Foreldrakulnun er staðreynd sem getur haft skaðleg áhrif

Yrja Kristinsdóttir er 36 ára þriggja barna mamma og eigandi fyrirtækisins Dafna, sem býður upp á markþjálfun og ráðgjöf fyrir foreldra og börn. Einnig rekur Yrja Vellíðunarsetrið sem staðsett er í Urriðaholti í Garðabæ. Blaðakona Mamman.is hitti Yrju yfir kaffibolla í Vigdísarhúsi sem var einkar vel við hæfi enda Yrja hæfileikarík kona og augljós leiðtogi í sér, líkt og Vigdís. Þegar blaðakona rakst á Instagramreikning Döfnu vakti upp forvitni hver stæði á bak við síðuna. Þar var mikið fjallað um foreldrakulnun og að það sé eðlilegt sem foreldri að upplifa allskonar tillfinningar, ekki bara eintóma gleði. Við byrjuðum því eðlilega á því að spyrja, hver er konan á bak við Dafna?  

„Ég heiti Yrja Kristinsdóttir og er eigandi Dafna sem býður upp á markþjálfun og ráðgjöf og rek einnig Vellíðanarsetrið sem er staðsett í Urriðaholti, Garðabæ. Dafna sérhæfir sig í börnum, unglingum og fullorðnum sem vilja auka vellíðan sína og ná betra jafnvægi. Ég vinn út frá aðferðum jákvæðrar sálfræði og markþjálfunar. Þar er lögð áhersla á þætti á borð við jákvæðar tilfinningar, styrkleika og hugarfar sem eiga þátt í því að einstaklingurinn blómstrar, vex og dafnar. Auk þessa er ég að vinna að verkefni ásamt Marit Davíðsdóttur, sem ber nafnið Gleðiskruddan. Gleðiskruddan er dagbók fyrir börn á aldrinum 6-12 ára og er tilgangur hennar að auka sjálfsþekkingu, trú á eigin getu, bjartsýni og vellíðan,” segir Yrja og bætir við: „Gleðiskruddan er bæði á Instagram og á Facebook og þar er að finna bæði fræðslu og fróðleik sem nýtist fólki á öllum aldri. Einnig höfum við opnað vefsíðuna Glediskruddan.is en þar má finna upplýsingar um dagbókina, námskeið og fyrirlestra sem eru í boði,” segir Yrja. 

Hefur mikla ástríðu að aðstoða einstaklinga við að efla vellíðan

„Ég hef fjölbreytilega menntun en þar má nefna: BA. í félagsráðgjöf, MA. í uppeldis-og menntunarfræði með áherslu á lífsleikni, sjálfsmynd og farsæld, diplóma í djáknafræðum, diplóma í jákvæðri sálfræði á meistarastigi, dáleiðslutækni og markþjálfun. Ég er einnig að klára framhaldsnám í markþjálfun í maí og verð þar að auki vottaður NBI þjálfi,” segir Yrja. „Ég hef mikla ástríðu fyrir að aðstoða einstaklinga við að efla andlega heilsu, vellíðan og auka hamingju. Ég vinn mikið með foreldrum, þá sérstaklega mæðrum sem eru að koma úr fæðingarorlofi og/eða eru að finna jafnvægið á milli móðurhlutverksins, vinnu og þess að vera þær sjálfar. Ég legg mikla áherslu í mínu starfi á að þær fái aðstoð við að aðlaga móðurhlutverkið að sér, í stað þess að aðlaga sjálfa sig að móðurhlutverkinu,” segir Yrja sannfærandi. 

En hvað er foreldrakulnun? 

„Foreldrahlutverkið er margslungið, það er krefjandi, skemmtilegt, erfitt, yndislegt, gefandi og fjölbreytilegt. Foreldrar eru orðnir hreinskilnari og opnari í umræðunni um upplifun á streitu, kvíða og ójafnvægi í foreldrahlutverkinu. Það er jákvæð þróun því að foreldrakulnun (e. parental burnout) er staðreynd og er afleiðing af langvarandi þreytu og streitu í krefjandi aðstæðum,” segir Yrja. 

“Foreldrakulnun lýsir sér þannig að foreldrahlutverkið verður einstaklingnum bæði líkamlega og tilfinningalega ofviða og getur valdið efasemdum um getu til að vera gott foreldri og/ eða tilfinningalegri fjarveru.” 

Einkenni foreldrakulnunar eru meðal annars: Foreldrar upplifa kvíða og áhyggjur. Mikil þreyta. Foreldrar eiga erfitt með að vera meðvitað til staðar og njóta þess að eiga tíma með fjölskyldunni. Foreldrar geta upplifað efasemdir um að að vera gott foreldri og því fylgir sektarkennd. 

Er þetta eðlilegt ástand? 

„Það er eðlilegt að upplifa streitu, þreytu, ójafnvægi og allskonar tilfinningar þegar maður er foreldri, en að lenda í kulnun getur haft skaðleg áhrif. Það er því mjög mikilvægt að vera meðvitaður um öll þau einkenni sem eru til staðar til að geta leitað sér aðstoðar áður en foreldri upplifir foreldrakulnun,” segir Yrja. 

Hvaða hópur foreldra er líklegastur til að upplifa foreldrakulnun? 

„Samkvæmt rannsóknum á foreldrakulnun eru ákveðnir hópar foreldra í áhættuhóp en það eru þeir sem a) eiga erfitt með tilfinningastjórn og streitu, b) skortir stuðning frá maka og/eða hinu foreldri, c) skortir uppeldisfærni, d) eiga börn með sérþarfir og e) vinna hlutavinnu eða eru heimavinnandi.“. 

Hvert er hægt að leita sér eftir aðstoð? 

„Allir foreldrar geta upplifað einhver af þessum einkennum og þess má geta að það er fullkomlega eðlilegt að upplifa einhver af þeim án þess að lenda í kulnun. Ef að einkennin verða langvarandi er ráðlagt að leita sér aðstoðar. Það er án efa hægt að leita til margvíslegra meðferðaraðila sem geta aðstoðað foreldra sem eru að upplifa þessi einkenni en markþjálfun í anda jákvæðrar sálfræði er ein þeirra leiða,” segir Yrja og bætir við: „Aðferðir jákvæðrar sálfræði bjóða uppá möguleika til að koma á jafnvægi, draga úr álagi og auka vellíðan á þessu sviði en meðal rannsóknarefna innan greinarinnar eru vellíðan, jákvæðar tilfinningar, hamingja, þrautseigja, sambönd, hugarfar, tilgangur og hvað fær fólk til að vaxa og dafna í lífinu. Í jákvæðri sálfræði eru rannsakaðir þeir þættir sem hafa jákvæð áhrif á einstaklinga og fá þá til að blómstra. Rannsóknir hafa leitt í ljós að jákvætt viðhorf er verndandi þáttur fyrir sálræna og líkamlega heilsu. Það hafa jafnframt verið rannsakaðar aðferðir og æfingar sem rækta með okkur jákvæðar tilfinningar, hegðun og hugsanir og kallast þær jákvæð inngrip,” segir Yrja og bætir við að lokum: „Markþjálfun í anda jákvæðrar sálfræði er því tilvalin fyrir skipulag, sjálfsþekkingu, markmiðasetningu, aukið jafnvægi og ná að vera í núinu og njóta eða vera til staðar með vakandi athygli. Semsagt aukin vellíðan, jafnvægi og hamingja. Eins og oft er talað um þá þurfum við að setja á okkur súrefnisgrímuna áður en við getum aðstoðað aðra.” 

Allar nánari upplýsingar er hægt að nálgast inn á vefsíðu dafna.is einnig er hægt að senda Yrju tölvupóst á dafna@dafna.is Við hvetjum alla þá sem tengja við einkenni kulnunar að leita sér aðstoðar.

 

Að busla í pollum og drullumalla er geggjuð núvitund

Að busla í pollum og drullumalla er geggjuð núvitund

Að busla í pollum og drullumalla er geggjuð núvitund

Sólveig María Svavarsdóttir er fjögurra barna móðir, grunnskólakennari að mennt og varaformaður Hæglætishreyfingar Íslands. Ásamt því að sinna móðurhlutverkinu að mikilli natni heldur hún úti skemmtilegum reikningi á Instagram sem heitir Útivera og börnin.

Við heyrðum í Sólveigu og spurðum hana hvaða áherslur hún væri með á síðunni sinni þegar kemur að útisamveru með börnum: „Á síðunni legg ég áherslu á útiveru, hægan lífstíl og núvitund. Útivera er stór hluti í uppeldi barna minna og sýni ég á síðunni meðal annars frá útiverum okkar og gef öðrum hugmyndir að útiveru. Útiveran þarf ekki að vera flókin en getur gefið bæði foreldrum og börnum mikið. Ég legg áherslu á að minna fólk á að staldra við og gefa augnablikinu sérstakan gaum. Mér finnst mikilvægt að gefa börnum frelsi og rými til að upplifa og kanna. Útbúa börnin vel og leyfa þeim svo að vaða út í næsta poll eða drullumalla að vild. Eins er mikilvægt fyrir okkur fullorðna fólkið að muna að staldra við, vera í meðvitund og jafnvel prófa að upplifa með börnunum! Börn eru svo miklir núvitundarkennarar,” segir Sólveig. 

Hér eru nokkrar hugmyndir sem Sólveig gaf okkur hjá Mömmunni að útiveru út frá þessari árstíð. 

Það eru kannski ekki allir sem eru til í að leyfa börnunum sínum að leika í pollum, en af hverju ekki „gó wild” eins og einu sinni! Það að fara með börnin út í gönguferð og leyfa þeim að leika sér í pollum, vötnum, ám getur verið stórkostleg upplifun fyrir þau og geggjuð núvitund. Þá skiptir máli að klæða sig rétt og vel eftir veðri. 

Að setja upp góðar aðstæður fyrir leik úti getur skipt miklu máli. Börn geta leikið sér tímunum saman með vatn, sand og mold. Það er mjög sniðugt að fara á nytjamarkaði og kaupa gamalt eldhússdót í leik. Þá er hægt að baka drullukökur, búa til súpur, kaffi og allt sem hugurinn girnist. 

Að fara í skógarferð er dásamleg upplifun. Að eyða hálftíma í grænu umhverfi getur gert mikið fyrir andlega líðan og líkamlega líðan. Það er sannað að grænt umhverfi getur haft mikil áhrif á streitu og róað taugakerfið. Það er upplagt að leyfa börnunum að klifra í trjám, æfa jafnvægið á mismunandi undirlagi eða taka með sér greinar og köngla heim í föndur. 

Að borða úti er enn betra en borða inni. Að baka og taka kaffitímann úti getur verið svo hressandi. Gönguferð með nesti á leikvöll er einföld hugmynd en getur gefið svo mikið! 

Nú er upplagður tími til að setja niður fræ með börnunum. Það getur gefið þeim svo mikið að rækta sitt eigið grænmeti ásamt því að það eykur umhverfisvitund þeirra. Það þarf ekki að vera flókið – til dæmis ein tómataplanta út í glugga, gulrætur í garði eða salat á svölum.

Sólveig er fjögurra barna móðir, grunnskólakennari að mennt og varaformaður Hæglætishreyfingar Íslands.

Mamman mælir með að kíkja á heimasíðu Hæglætishreyfingu Íslands www.hæglæti.is og hér fyrir neðan er hægt að klikka á samfélagsmiðla hnappa Útivera & börnin á Instagram og Hæglætishreyfingu Íslands á Facebook.

 

Pin It on Pinterest